Inngangur: Við hjónin kynntumst Laxá í Mývatnssveit fyrir mörgum árum og áttum stórkostlega fyrstu ferð þangað eina Jónsmessu. Eftir það varð ekki aftur snúið. Löngunin til að veiða varð að óviðráðanlegum draumi sem lifði í gegnum fluguhnýtinganámskeið hjá Kolbeini, kastnámskeið hjá Ármönnum, og fyrstu stóru stangarkaupin á ferlinum. Til að létta byrjendum á vegi fluguveiða lífið birti ég hér dagbókarkafla frá veiðiferð númer tvö í Laxá, því sagan var skrifuð til að læra sjálfur af, og gefa öðrum færi á að læra líka. Hér er hún í heild, gjörið svo vel.
Nákvæmlega einu ári eftir að við kynntumst fyrst undrum og stórmerkjum urriðanna í Laxá vorum við mætt með eftirvæntingu og tilhlökkun sem ekki
átti sinn líka. Nú fóru í hönd dagar sem beðið hafði verið með óþreyju allan veturinn. Undirbúningurinn var nægur: allar vangavelturnar, draumarnir,
spurningar og svör, lærdómsrit, fundir með Meisturum, jafnvel hnýtinganámskeið. Nú voru í vönduðum viðarkassa flugur sem nægðu til stórveiði allt sumarið: Nobblerar í röðum, allar stærðir, Black Ghost sömuleiðis, Þingeyingar og Mickey Finn, aðrar helstu smáflugur með. Bæði vorum við með alvæpni. Sjálfur mundaði splunkynýja stöng, kominn með ástina stóru í hendur, kona mín búin að erfa gömlu flugustöngina og það sem meira var - búin að fá undirstöðuatriði flugukasta á námskeiði Ármanna. Eftir lágu óbætt hjá garði gamla gráa kaststöngin, flotholt öll og annað sem við á að eta. Jafnvel ambassador kasthjólið, kjörgripurinn snjalli, var í brúnum taupoka inni í kompu. Sól myndi ekki sindra á fagurrauðu hjóli framar.
Allar vonir stóðu til mikillar dýrðar. Næstum heil vika framundan, það mátti ekki minna vera eftir óbærilega langan vetur. Á föstudagsnótt var gist í Aðaldalnum í gamla þinghúsinu á Hólmavaði, gengið í suddanum meðfram áni um kvöldið, varast að styggja laxveiðimenn, hugsað um gleðidaga sem færu í hönd.
Og ekki var útlitið slæmt. Síðari hluta laugardags áttum við Brettingsstaðaland í mildu dumbungsveðri. Þangað höfðum við ekki áður komið og vorum sátt við þá tilhugsun að veiðin léti á sér standa þennan fyrsta dagspart, sem einkum yrði notaður til upphitunar. Daginn eftir áttum við nefnilega Hofstaðaey!
Við vorum snemma á ferðinni, en þó ekki á undan köppum tveimur sem lagt höfðu stórum jeppa við brúna þar sem gengið er yfir í Hamarsland neðan við Hesthúsaflóa. Þar er fagur veiðistaður. Þeir að kasta. Okkar meginn. Hvort það var fyrir misskilning eða að þeim þætti veiðilegra þar skiptir ekki máli, því ljúfmannlega tóku þeir kveðju minni og gengu yfir. Ég sagði ekki orð um reglur, ekki vottaði fyrir kaldhæðni, spurning mín um veiðistaðinn var smurð velvilja. Ekki iðraði mig síðar þennan dag að hafa verið kurteis við þá félaga. Alltaf að læra.
Mér er minnistætt lítið atvik er ég hafði gengið efst í flóann þar sem áin fellur með krafti fram um þrengsl áður en hún breiðir úr sér. Þar kastaði ég þvert, einmitt í boðaföllin þar sem hún er rétt að byrja að hægja á sér. Línuna bar hratt yfir til sama lands. Einmitt þar sem ég fylgdi eftir flugunni eftir bestu getu varð ég var við grimmilegt rándýr í ólgandi boðaföllunum, skjótast eins og elding á eftir flugunni; ekki svo mikið að ég sæi það,fremur skynjaði, og einkum þó illúðlegt augað sem rann strax saman við iðandi strauminn, dökkan undir þungbúnum himni. Svo ekki meir. Ég sá ekki fiskinn, fann bara augnaráðið. Var viss um að þar hafi verið einn af stórhertogunum sem sögurnar herma að búi enn í ánni. Kannski sá sami og ég heyrði af síðar um sumarið að hefði tekið flugu sem komið var út með flotholti af venjulegri besnínstöðvastöng; sá veifaði sporðblöðku á stærð við tennisspaða og hvarf með línu, flotholt og flugu undir brú og sást ekki framar. Það var neðst í flóanum.
Í veiðileysinu römbuðum við niður með ánni og horfðum á fallega hylji og breiður sem ekkert gáfu. Snérum aftur og köstuðum. Stöku sinnum
heyrðist skvamp og jafnvel hvinur í hjólum við hinn bakkann. Það glampaði á dálitla silungahrúgu í grasinu. Kunningjarnir á öndverða bakkanum snéru til bifreiðar sinnar og upplýstu í stuttu spjalli að þeir hefðu veitt alla sína fiska á hratt sökkvandi línu út í miðri á, þar lægi hann alveg niður við botn. Gott og vel. Ný tíðindi. Hér dugðu sem sagt ekki hægtsökkvandi línur. Það var greinilega kominn tími til að setja sig inn í hinn flókna
heim lífríkisins. Silungurinn lá við botn og þangað yrði að sækja hann. Maður yrði að fara að huga að línufræðum. Meðan þeir óku upp slóðann gafst tóm til að hugleiða þessi mál. Ekki var ég þó búinn að koma mér að niðurstöðu er þeir snéru aftur meðþau tíðindi að sturtubíll hefði komið
meðan okkur dvaldi niður við á og gusað möl í verstu vilpurnar. Sá góði maður lét hins vegar vera að jafna úr svo nú mátti heita ófært smábíl eins
og okkar. Hvort við vildum far frekar en vera innilokuð þarna næturlangt? Ég blessaði þá upphátt fyrir greiðasemina og sjálfan mig í hljóði fyrir að
hafa ekki látið neitt neyðarlegt fjúka fyrr um daginn þegar ég stóð þessa herramenn að veiðum í mínu landi.
Upp upp mín sál og allt mitt geð!
Hofstaðaey beið í dagrenningu og mikill hugur í mínum manni. En herra trúr! Hvílíkur kuldi! Norðanbeljandi stóð upp dalinn. Hitamælir sýndi örfáar gráður, eina eða tvær, í mesta lagi þrjár. Öllu var tjaldað til: bolur, skyrtur, peysur, treflar, húfur, vettlingar. Samt var hryllilega kalt. Þegar arkað var af stað var hótunartónn í vindinum, hraunborgir eyjarinnar óárennilegar, áin kaldgrá eða svarblá þegar best lét.
Gaflinn er veiðistaður sem er örlítið til hlés þegar svona blæs. Mér til nokkurrar furðu renndi sér fiskur á fluguna, eftir skamma stund; ekki stór, en nógu stór samt til að missa lífið. Óheppinn greyið að vera fyrstur, annars hefði hann sloppið með skrekkinn. Ég opinberaði fyrir sjálfum mér þann veikleika að vilja "komast á blað" sem fyrst. Svo var arkað niðureftir. Nú var komið rok. Það söng og ámátlega í stangarendum og hvein í línum. Við fórum stirðlega fetið gegn stöðugum vindlöðrungum ættuðum úr íshafinu. Stundum stóðum við á öndinni og hölluðum okkur fram í rokið til að fjúka ekki afturábak. Draumarnir ruku út í veður og vind, þessir sem áttu stoð frá árinu áður þegar kvöldsólin logaði á skyggndum fletinum og sá stóri elti. Ekki var viðlit að kasta í Vörðuflóann. Þessi fagri staður sem fóðrað hafði drauma mína veturlangt með öllum þeim töfrum sem stilltir og bjartir sumardagar í Þingeyjarsýslu geta boðið var nú ein viðurstyggð.
Kona mín átti fullt í fangi með að hemja línuna þó svo hún reyndi ekki að kasta. Mín köstu lentu í vatninu, 2-3 metra frá landi í línubendu. Þetta var einsog sagt er í einu orði: vonlaust. Nema maður væði útí. Vissulega er Vörðuflóinn væður. Með gát. Það hafði ég heyrt, en aldrei gert. En gát var ekki auðvelt að koma við þar sem fráleitt sá til botns í öllu rótinu. Ég fór út. Tvo metra frá landi hrundi undan mér leirbotninn. Á slíkum stundum æðrast maður ekki heldur tekur tvö róleg sundtök til lands og þakkar fyrir að ekki var komið lengra. Þakkar líka fyrir að hafa heilræði manna og varnaðarráð í heiðri, spenna á sig belti. Beltið tryggir að þó maður fari á kaf fyllast ekki vöðlurnar strax af vatni og færa mann í kaf. Engin syndir að gagni við slíkar aðstæður. En betra er að herða vel, það fann ég nú. Vatnið náði að seytla niður með og bleyta mig rækilega þessa örskotsstund sem ég þreytti sundið. Þakkaði aftur vatnadísum fyrir að hafa ekki verið kominn lengra út, hefði ekki boðið í ástandið 10 metra úti með vöðlur óðum að fyllast af vatni.
Það var notaleg stund á bakkanum að berhátta sig. Lag eftir lag af klæðnaði var undið og breitt á hríslur, vöðlunum hvolft og Laxá skilað því
sem var tvímælalaust hennar. Þar sem ég stóð blár á brókinni þótti mér heldur miður að sjá hvar félagi í veiðimennsku stóð á öndverðum bakka og
fylgdist með af áhuga. Ef áin vill kenna manni lexíu er það í lagi. Vilji hún lítillækka mann til að sýna hver hefur valdið er það líka í lagi mín vegna. Vilji hún vara mann við og kenna aðgát er hægt að sætta sig við það. Undir slíkt beygi ég mig. En að það þurfi að gerast í viðurvist ókunnra er óþarfi. Ekki að ég sé spéhræddur. En Hólmfríður á Arnarvatni spurði að því um kvöldið hvernig gengið hefði sundið. Og Dagbjartur í Álftagerði var ekki lítið kímileitur þegar hann spurði, þremur dögum síðar, eftir baðin
Við höfðum storminn skáhallt í bakið í Skriðuflóanum og það nægði til að krækja í einn lögulegan fisk. Krækja í er rétta orðið. Efst í flóanum
fann ég tekið í, síðan stökk þessi bara fallegi guli urriði og tók á rás niður og þvers og kruss. Ekkert skildi ég í skriðþunganum því ekki var hann rígvænn. Svo tók hann að þreytast en þótt ég gerðist djarfur til dráttar á hjólinu var hann þungur mjög og streyttist við. Lá alltaf þvert. Jafnvel með magan upp. Alltaf jafn níðþungur. Það var ekki fyrr en seint um síðar að sást að nobblerinn stóð fastur í kviðnum rétt fyrir framan gotraufina. Ekki var það skemmtilegt. Þessi ólánlega fiskitaka var eins og dagurinn í heild.
Fleira bar tæpast til tíðinda. Í hléinu mauluðum við nesti og kúrðum skjálfandi í laut í stað þess að arka upp í bíl eins og veðurdaginn góða
fyrr um árið. Og þrjósk til að breyta áætllun sem gerð hafði verið 10 mánuðum áður - í 23ja stiga hita. Tíminn leið og kvöldið kom. Köldum og hröktum var okkur leiðin löng að bifreiðinni ofan við brúna út í þessa dásemd allra dásemda: Hofstaðaey. Þegar svo býður við. Það eina sem var gott við að rífa af sér vota leppana um kvöldið var tilhlökkunin vegna næsta dags: Geldingaey! Happasæl hafði hún reynst mér fyrstu tvö skiptin. Og í veiði er það trúin á veiðina sem fyrst og fremst gefur feng. Af finna fyrir láni sínu, treysta ánni og gjafmildi hennar, skynja fiskinn sem bíður þess að ráðast á agnið. Þegar veiðimaðurinn trúir á sjálfan sig er hitt bara handavinna.
Ekki högg!
Þessi sannindi voru greinilega vandamál konu minnar. Í sínum fyrsta flugustangartúr var hún búin að bjóða náttúruöflunum byrgin í heilan dag í
Hofstaðaey, hálfan dag í landi Brettingsstaða, allt án þess að vera heiðruð eitt einasta skipti af svo mikið sem smá narti. Ekki einu sinni hafði
stríkkað á línunni. Ótrúin var byrjuð að grafa um sig. Ekki það að hún hefði verið sigurviss. Að hún teldi fiska í huganum líkt og ég. Nú var vantrúin byrjuð að naga veikar stoðir veiðiáhuga. Lofsöngvar mínir um Geldingaey voru enn magnaðri en ella vegna þessa. Og vegna þess sem blasti við um morguninn. Hitastigið á mælinum á Skútustöðum var óhugnanlega nálægt núllinu klukkan 7. Súgurinn í rokinu...
Ljóst var að ekki yrði veitt úr nyrðri hluta eyjarinnar þennan dag. Hagastá, Stóravik, Langavik, bestu staðir eyjarinnar að margra mati voru
friðlýstir af vindinum. Þau voru erfið sporin upp með ánni í býtið. Kappklædd og dúðuð á ný, samt köld, skrykkjuðumst við áfram. Hugur minn stóð til breiðunnar og strengjanna sem gáfu svo rausnarlega í fyrstu veiðiferðinni. Myndu ekki klettarnir, hraunborgirnar, hólarnir, veita nokkurt skjól? Jú, aðeins, en veðurlætin voru söm og hvinurinn í vindstrengjunum boðaði ekkert gott. Ofan við Görnina, hljóðu lygnu kvíslina í draumunum, sem reyndist nú yggld og grett á brá, óðum við út í skjóli kletta við straummót. Hérna, nákvæmlega hérna, hafði ég sett í fisk. Vaðið varlega út, slæmt út tveimur metrum af línu og sjá..! Nú fór kona mín út, endurnærð af frásögn minni, fannst mér.
Ég óð út ofar. Þarna var litla lygnan neðan við straumkastið þar sem ég hafði veitt í fyrra. Ekki gaf hún núna. En nú fann ég að nýja stöngin
naut sín fyrst. Hún hafði vindhviðurnar að engu, stinn og sterk og snör gat hún þeytt línunni fram og aftur. Þetta var einhver munur. Stóra ástin
stóð með mér í blíðu og stríðu. Nú fann ég að við myndum eiga saman lengi. Það var þá satt sem þeir sögðu Meistararnir. Stöng er lífsförunautur og mikið á sig leggjandi í tilhugalífinu. Ég fór fetið útí, kastaði og naut þess bjóða norðanbálinu byrginn. Í fyrra hafði ég ekki náð til bakkans öndvert. Skyldu ekki liggja silungar þar?
Nú fór flugan alla leið niður að neðra horni hólmans og sveigði inn aftur þegar... stangaroddurinn tifaði tvisvar, högg, svo stökk hann. Þessi var stór! Boldángsfiskur sem reif hressilega til sín línu og stökk hvað eftir annað. Nú fann ég hvernig stóra ástin brást öðruvísi við en gamla mjúka stöngin. Stinnari, sneggri, viðbragðsfljótari, svignaði mun minna, en hver hreyfing fisksins var kvikari og leiddi beint upp í höndina og í hjartastað. Þarna ólmaðist hann rétt þar sem kona mín stóð og hefði geta sett háfinn undir hann ef hún hefði ekki snúið baki í þessa miklu viðburði og verið niðursokkin í fluguboxið sitt. Í eyrum hennar hvein bara íshafsstormurinn. En nú vissi ég að það er hægtað veiða í hvaða veðri sem er.
Erlendir ferðamenn flúðu Mývatnssveit, tjaldstæðin voru auð og fréttastofur skýrðu frá því að bændur væru uggandi um fé og andavarp. Morguútvarpið vakti okkur með viðtali við gengilbeinu á hótelinu sem hafði ekki týnt gamanseminni og talaði um skíðafæri. Við vorum ódrepandi. Frá morgni til kvölds var steðjað milli staða, leitað skjóls til að freista þess að kasta, eða vaðið djúpt út í flóa til að standa þar sem ekki skipti máli hvar línan lenti. Dag eftir dag. Með aumar axlir, sárar iljar, verk milli herðablaðanna, trefil margvafðan um hausinn og húfuna keyrða niður í augu.
Í öllu sem hægt var að tjalda til og koma fyrir innan undir regngallanum. Á morgnana var grátt í rót, á kvöldin buldi á manni hagl. Ég fékk einn og
einn fisk. Kona mín sem hafði ekki farið varhluta af rómantískum væntingum um þokkafull fluguköst reyndi að snúa sér undan norðaveðrinu og láta fluguna fjúka út eins og ég hafði reynt að kenna henni. Þetta var eldskírnin. Hér eftir lægi leiðin til sumarlandsins - á hverju sem dyndi. Þetta gat ekki orðið verra.
Innlendir veiðimenn voru löngu farnir heim eða hættir við að koma. Hins vegar höfðum við spurnir af því að samtímis okkur væru að veiðum norskir
kappar við ána. Einhvern veginn kom vart annað til greina en að meðal þeirra sem enn væru að veiðum væri fólk eins og við -ódrepandi byrjendur,
of vitlausir til að hætta - og svo fjallheilbrigðir Norðmenn með rjóðar kinnar, Fjallräven útbúnað og gönguskíði innan seilingar. Hjá Hólmfríði á Arnarvatni, hinum samúðarfulla veiðiverði, fréttum við að þeir veiddu bara nokkuð vel miðað við aðstæður. Á hvað? kom hin óumflýjanlega spurning eins og andvarp blandið vonleysi. Hún svaraði með hægð og mér fannst ekki laust við að augnaráðið væri ögn rannsakandi: "Brúnar púpur."
Brúnar púpur?
Hólmfríður hefði alveg eins getað svarað mér á sanskrít. Hin umbeðna útskýring hljóðaði eitthvað á þá leið að þeir veiddu mest á einhverja litla hnoðra, ekkert sérlega vel hnýtta, bara eins og hnökri á lopapeysu eða þvílíkt. Hnökri á lopapeysu? Í nýja vandaða trékassanum okkar voru: svartir Nobblerar með silfruðu augu; Þingeyingar með gult skegg og fagurlegaa vafinn grænan legg; Black Ghostar með frumskógahanakinnar, rándýrar; þar voru Peter Rossar í þremur stærðum með innflutt skott úr sjaldgæfum fjöðrum, silfraðan legg og vandlega valda andarfjöður í væng. En engar brúnar púpur eins og hnökri úr lopapeysu. Ég vissi ekki einu sinni hvernig ætti að veiða á þær.
Kvöldið fyrir síðasta daginn lægði. Þá vorum við búin að berjast með stangirnar einar að vopni gegn viðskotaillum veðurenglum í fjóra daga. Jú,
ég hafði rekið í einn og einn silung, fjóra í allt. Kona mín í sinni jómfrúarferð með flugustöng hafði aldrei fundið kippt í sína línu. Nema þegar vindurinn greip hana og bar út í móa eða upp á grynningar. Hún var nokkurn veginn búin að afráða með sjálfri sér að fara aldrei aftur á veiðar. Undirstöðuatriði kastkennslunnar voru fokin með vindinum suður á Mývatsnöræfi. Þetta var stundin. Ég fann ég yrði að taka að mér hlutverk Meistarans. Fjögurra fiska bani.
Hinir miklu lærdómar
Fyrst voru það auðvitað köstin. Ekki hafði verið viðlit að kasta af viti. Nú varð hún að reyna að finna aftur hvernig stöngin vinnur, hvernig lína
sveigir hana í bakkastinu, stöðva þar og færa stöngina síðan fram með mjúkri sveiflu uns úlnliðurinn gefur lokahnykkinn og línan þýtur fram, leggst á vatnið og flugan tyllir sér hljóðlega, tilbúin að kafa til móts við fiska. Ég sveiflaði með henni. En hvað svo? Hægur straumurinn þar sem við stóðum tók línuna og rétti úr henni og taumnum, nú vorum við í beinu sambandi við fluguna sem kom hægt yfir strauminn. Á þessu augnabliki endar fróðleikur kastnámskeiðanna og við tekur tilsögn Meistara. Þegar hér er komið sögu er byrjandinn að velta fyrir sér nokkrum mikilvægurm atriðum, ef hann er búinn að átta sig á aðsteðjandi vanda. Ef ekki stendur hann bara bísperrtur með stöngina stolta upp í loftið og bíður eftir fiski. Aðsteðjandi vandi er einmitt sá, fiskurinn. Hvað gerir maður ef hann bítur á? Þá stóru stund þarfað undirbúa af kostgæfni. Í fyrsta lagi stendur maður ekki bíspertur með stöngina út í loftið. Þegar flugan fellur fagurlega í strauminn lækkar veiðimaðurinn stangaroddin niður að vatninu svo flugulínan og stöngin mynda nánast beina línu. Þannig er hann í beinu sambandi við hið minnsta nart í fluguna sem leiðir beint upp í höndina sem heldur um línuna. Ef stönginni er haldið uppvísandi þarf þetta fína nart að ferðast upp í stangartoppinn og beygja hann til að fara niður stöngina með línunni. Þá loks nema næmir fingurgómar veiðimannsins það sem fiskurinn er að rjátla. Þegar stöngin er lögð niður miðar hún í raun á vatnið og veiðimaðurinn lætur hana fylgja ferðum línunnar með straumnum, eins og hann bendi stöðugt á hana. Þar með fær hann þráðbeint samband við
fluguna. Þetta var auðvelt að sýna.
Næmir fingurgómar veiðimannsins koma næst til sögu. Nú heldur hann á stönginni í hægri hönd (örvhentir í vinstri) og lætur línuna leika milli
stangarinnar og vísifingurs hægri handar. Með vinstri hönd heldur hann í línuna og dregur að sér ef það er ætlunin. Nú er hann tilbúinn fyrir fiskinn. Það vorum við líka þar sem við stóðum við þessar æfingar í Brotaflóanum fyrsta kvöldið sem lægði, kvöldið fyrir síðasta daginn í veiðitúrunum sem við höfðum hlakkað til í 10 mánuði. Nú rak fluguna þvert yfir strauminn og kom að landi fyrir neðan okkur. Þá kom hið viðkvæma augnablik: kona mín dró til sín línu, hægt með vinstri hönd. Ekkert högg. Ekki nart. En ef fiskurinn hefði verið þarna og tekið hefði hún getað brugðið snöggt við, haldið við línuna með vinstri hönd, en klemmt hana fasta með vísifingri hægri handar og lyft stönginni snöggt upp. Átakið hefði strekkt nógsamlega á línunni til að festa fluguna í fiskinum. Þetta var ég að útskýra, nýbakaður Meistari! Fann dálítið til mín að segja til. Fjögurra fiska bani.
Næsta kast fór þokkalega fram. Línan rétti úr sér og fór af stað bugðulaus með straumi um leið og flugan sökk hægt. En nú myndaðist slaki á henni miðri, hlykkir. Ég, Meistarinn, útskýrði og nú þyrfti að draga inn þennan slaka, rétta úr línunni og kannski gefa flugunni smá líf um leið. Þetta
gerir maður með því að nota vinstri höndina, dregur línuna inn en lætur hana leika milli vísifingurs hægri handar og stangarinnar framan við hjólið. Með því móti er maður nefnilega við öllu búinn. Taki fiskurinn í miðjum inndrætti getur maður brugðið við og bremsað línuna af upp að stönginni með vísifingrinum um leið og maður lyftir henni. Þanig strekkist á línunni og flugan festist í fiskinum. Þetta heitir því fína nafni að bregða við fiskinum.
Brugðið við
Að bregða við fiskinum er kannski umdeildasta athöfn fluguveiðinnar. Þetta atvik kallar á fullkomna sjálfstjórn og er líklega það sem byrjandanum
reynist allra erfiðast. Hér skilur nefnilega milli feigs og ófeigs, allt gerist í einu. Eftir langþráða bið og veturlanga drauma er veiðimaðurinn búinn að yfirstíga alla erfiðleika: búinn að hnýta taum á línuna, þræða hana rétt á stöngina, loksins búinn að ná almennilegu kasti og tekist að haga svo málum að flugan fer með sannfærandi lagi niður strauminn. Hann er jafnvel búinn að koma sér í stellingar. Hann man að lækka stangaroddin og lætur hann fylgja línunni eins og bendiprik. Hann er með vísifingur hægri handar lausan og línan leikur milli fingurs og stangar. Vinstri hönd heldur við línuna og dregur jafnvel inn til að gefa straumflugunni líf. Þennan leik leikur hann heilan morgun. Allt er tilbúið. Þetta er yfirburðamaður, því aldrei er hann annars hugar, aldrei gleymist neitt. Þá, svo ótrúlega skyndilega kemur það. Dúndrandi högg og vatnið springur með látum þegar sporður lemur straumgáru. Svo ekkert meir. Línan lafir slök. Búið. Ef allt fer á versta veg gerist ekkert meira þann daginn og hugsanlega ekki næsta dag. Svo er veiðitúrinn búinn. Hann hafði sekúndubrot til að bregða við. Eða brá hann við? Hann spyr sig aftur og aftur því margt getur hafa farið úrskeiðis. Fiskurinn greip fluguna, en línan var slök svo hann fékk tíma til að hrista hana úr sér um leið. Eða þá að hann brá við of seint. Fiskurinn kom og óð á fluguna, festi hana í sér og snéri við í djúpið - þá loksins setti aflaklóin línuna fasta með því að bremsa hana með vísifingri hægri handar upp við stöngina, sem hann lyfti um leið hressilega á móti til að strekkja vel á. Hann hafði nefnilega misst fisk í fyrra með of mikinn slaka úti. Þessi árekstur endaði með því að taumurinn slitnaði eða flugan rifnaði úr fiskinum.
Þessar frásögur var ég að búa til handa konu minni þarna um kvöldið í Brotaflóanum meðan ég var að innprenta henni réttan undirbúning fyrir
aðsteðjandi vanda, atvikið stóra, eða það að hafa allt klárt til að bregða rétt við.
Ég hefði getað einfaldað þetta allt ef ég hefði munað nógu vel það sem Meistari Stefán Jónsson heitinn skrifar. Að bregða við er röð þriggja augnablika. Í miðjunni er rétta augnablikið. Á undan því er augnablikið þegar maður bregður við of snöggt, hrifsar fluguna frá fiskinum eða út úr honum áður en hún nær festu. Svo kemur rétta augnablikið. Þá bregður maður við með því að strekkja á línunni nákvæmlega þegar fiskurinn hefur tekið og flugan þarf bara örlitla hjálp til að festast í holdi hans. Síðasta augnablið er hitt ranga augnablikið, þá bregður maður of seint við, fiskurinn er búinn að losa sig, eða kominn á svo mikla ferð burt með fluguna að maður slítur tauminn eða hana lausa við átakið. "Og hvernig veit maður hvað er rétta augnablikið?" var hin óhjákvæmilega spurning sem kona mín bar fram og ég hafði oft sjálfur velt fyrir mér í laumi. Ég sagði henni að enn sem komið væri festu mínir fiskar sig alltaf sjálfir. Þessir sem ég næði.
Flestir byrjendur gera eins og ég hafði gert og láta fiskana um að festa sig sjálfa. Það er lang besta aðferðin. Smám saman lærir maður hvernig
þetta gerist, fer jafnvel að giska á rétta augnablikið og bregða rétt við sjálfur. Meistararnir kalla þetta reynslu. Það eina sem þeir segja manni
er það að maður bregði alltaf við silungi. Með lax gegni örlítið öðru máli, en ég hafði ekki áhyggjur af því með konu minni úti í Brotaflóa. Og Meistararnir bæta við, sumir, að viðbragðið fari eftir stærð flugunnar. Ef maður er að veiða á stóra flugu, t.d. straumflugu sem fiskar taka oft með
hörkulátum, bregður maður hart við. Ég hef stundum séð félaga minn Óskar Pál lyfta stönginni hressilega upp við töku og jafnvel taka þétt í línuna
með vinstri hönd á móti til að rígfesta urriða sem ginið hefur við Rector eða álíka járni, sem þarf kraft til að láta ganga vel inn.
Straumfluguönglar númer 2 eða 4 mega vel fá góða hjálp. Oft er hún samt óþörf því slík eru lætin þegar fiskurinn ræðst á þessi skrímsli - veiðimaðurinn á fullt í fangi með að halda sér í stöngina og láta línuna renna út þegar dýrið æðir af stað.
Öðru máli gegnir um smærri flugur. Þær eiga auðveldar með að ganga inn, en jafnframt er léttara að slíta þær lausar. Þær eru líka veiddar með grennri taumum og brugðið er nett við. Um þurrflugur gildir svo enn meiri aðgát, því þær tekur silungurinn fljótandi á yfirborðinu, stundum er hann svo matvandur að hann spítir þeim út úr sér um leið og hann finnur að ekki er allt með felldu. Þá er rétta augnablikið ákaflega stutt. Og átakið verður að vera yfirmáta nett.
Við komum okkur eiginlega saman um að hafa ekki of miklar áhyggjur að sinni af því að bregða rétt við. Nógur væri sigurinn samt að fá bara svo sem eitt kvikindi til að narta. Og svo var fleira sem þurfti að athuga. Atvikið stóra, þegar veiðimaðurinn bregður við og fiskurinn festist á önglinum er ógnarstutt. Þess vegna er það svo stórt. En þá tekur við þrautin þyngri. Fiskur á færinu, albrjálaður, og hvað gerir maður þá? Fyrir alla byrjendur er þetta áleitin spurning. Því svo er mál með vexti að flugutækin og veiðitæknin búa hér til hættulegt vandamál. Þegar veitt er á spón eða maðk má nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að línan liggi beint inn á hjólið. Fiskurinn bítur á og veiðimaðurinn byrjar að snúa sveifinni til að draga fiskinn að landi. Hugsanlega er fiskurinn æstur og þýtur út burt frá veiðimanninum á spretti, þá þarf bara að bremsa hæfilega og byrja að draga inn um leið og fiskurinn gefur eftir.
Í fluguveiði er þrautin þyngri.
Hjólið sjálft gegnir ekkert sérlega veigamiklu hlutverki. Þegar veiðar eru hafnar rekur maður línuna út af hjólinu, hæfilega kastlengd, byrjar jafnframt að sveifla stönginn með sínum mjúku og þokkafullu hreyfingum og línan svífur fram jafnharðan og hún er dregin fram af hjólinu. Svo kemur umhugsunarefni. Þeir sem hafa farið á kastnámskeið í íþróttahöllum eða á grasbölum rekur minni til þess að línan lá bara í hrúgu fyrir framan fætur þeirra þegar hún var dregin inn til að undirbúa næsta kast. Það sama gerist í veiðinni. Þegar línan er dregin inn er hún ekki undin upp á hjólið, því þannig væri hún óklár fyrir næsta kast. Því kemur upp hið háalvarlega vandamál við veiðina: úr því maður vindur línuna ekki upp á hjólið, hvað gerir maður við hana þegar maður dregur inn eftir kast?
Sumir flækja hana í hvönn. Aðrir missa hana undir stein eða stíga á hana og merja hana. Enn aðrir hrúga henni í sand svo hún verður eins og sandpappír viðkomu, eða festa hana í snarrótarpunkti. Þeir sem standa í straumi basla við að halda henni hjá sér, en missa hana oftast niður undan
sér í bug sem togar á móti þegar þeir byrja að kasta aftur. Trúið mér, ég þekki þetta allt. Hefði mig þó aldrei grunað að þetta gæti verið vandamál þar sem ég lærði að kasta, enda á inniskóm í logni inni á sléttu íþróttahússgólfi.
Eitt ráð við þessu vandamáli er að ná sér í amerískan innkaupalista og panta úr honum bakka sem maður spennir framan á bumbuna á sér og hankar línuna jafnóðum niður í hann þegar maður dregur hana inn. Þetta gera þeir sem er alveg sama þótt þeir líti út eins og fífl, sprangandi um fegurstu sveitir landsins með bakka framan á sér eins og ólögulegur sígrettusali í útlöndum. Fagurfræðilega meðvitaðir menn, og handlagnir, hanka línuna fallega upp í vinstri höndina jafnóðum og þeir draga inn. Þegar öll línan er komin standa þeir með vinstri höndina fulla af snyrtilegum lykkjum sem þeir gefa út smekklega jafnharðan og þeir lengja í köstunum fram. Sá sem reynir þetta mun komast að raun um að það vill snúast upp á lykkjurnar, þær vilja ruglast í lófanum og jafnvel fara í hnút eða bendu sem maður lendir í megnustu vandræðum með þegar köstin byrja.
Allir nema mestu Meistarar og snillingar láta bara línuna niður við fætur sér og vona það besta. Hægt er að láta vonina um það besta rætast nokkurn veginn hundrað prósent ef maður gætir þess að línan liggi ekki á hvössum hraunnibbum, að maður stigi ekki á hana og ekki komi önd í leit að efni í hreiðurgerð. Best er að finna sér kaststað þar sem vatnið er tiltölulega rólegt og línan fær að liggja óáreitt við fætur manns, ósköðuð af
óhreinindum. Mjúkur grasbakki er í lagi ef maður getur ekki vaðið, flest annað býður hættunni heim. Verst er þó að lenda í því sem er manni sjálfum og engum öðrum að kenna. Eins og vinur minn og félagi í mörgum góðum ferðum lenti í við veiðar í Grímsá. Hafði ekki séð fisk lengi. Dagur var á enda. Kominn þangað sem frægur drjóli lá og margir höfðu reynt við. Talinn 14 - 20 pund. Tíu mínútur í lokun. Tók út línu, þreytti köstin og kom línunni vel út. Ekkert gerðist. Dró inn línuna og lagði jafnóðum fyrir framan sig í stillt árvatnið, fetaði sig aðeins nær brotinu og sendi
línuna fagurlega aftur út. Flugan kom hárrétt niður, línan myndaði 45 gráðu horn við veiðimanninn og svo kom dúndur taka í kafi! Fiskurinn kom
upp og strikaði niður, þetta var sá stóri. Eins og lög gera ráð fyrir lét vinurinn slöku línuna renna liðugt út milli fingra sér á eftir æðandi fiskinum. Fiskurinn sýndi ekkert sem benti til þess að hann væri að hægja á sér. Vinur vor fann að brátt yrði línan sem hann hafði dregið út og notað í köstin brátt þrotin og bjó sig undir að vel stillt hjólið sæi um að gefa meiri línu í sprettinn. Stund sannleikans og skelfingar kom þó fyrr en hvinurinn í hjólinu. Hann fann hvernig hertist að fæti sínum. Stöngin fór í keng og lamdist svo alveg niður þegar stríkkaði á línunni sem vældi í látunum - og hann með fótinn fastan í miðri lykkju. Hann var heppinn drengurinn að vera ekki togarasjómaður á þeirri stundu. Hefði ekki gengið óhaltur upp frá því, einfættur. Línan þeyttist upp úr vatninu þegar laxinn sleit, en svo var lykkjan hert utan um vöðlufótinn að farið í gúmmíinu er þar enn.
Þetta var ég að fílósófera um þarna um kvöldið meðan frú mín var að átta sig á öllum handtökum í sambandi þann aðsteðjandi vanda sem fiskur sem gín við flugu boðar. Nú var hún tilbúin með vinstri höndina á línunni, sem lék liðug milli vísifingurs hægri handar og stangarinnar. Fyrir framan hana var smá hönk af línu í vatninu, en engin hætta á að hún stigi á hana eða aðrar hremmingar ættu sér stað. Þá gerðist eitt af þessum skemmtilegu atvikum sem sannir Meistarar geta galdrað fram eins og ekkert sé, og ég vil ekki kalla algjöra tilviljun. Flugan fór blíðlega með hægum straumi, við sáum hvar hún lá beint niður undan línunni, þegar ég spurði: "Og hvað gerir þú nú ef fiskur tekur?" Um leið og hún ætlaði að fara að segja eitthvað um rétta augnablikið og að bregða við, kom dökkur skuggi úr kafi, bakuggi og sporður og svo haus sem opnaði ginið og gleypti fluguna. Hann festi sig sjálfur þessi. Fleira heppilegt gerðist líka í þágu kennsluvísinda hjá hinum nýja Meistara. Til dæmis óð hann ekki af stað með látum, heldur kafaði beint niður og staldraði svo við. Stöngin var hæfilega bogin, kona mín hélt línunni strekktri með því að bremsa hana af með vísifingri hægri handar. Fyrsti flugufiskurinn var á!
Veikleiki í veiðitækni
Nú rann upp fyrir henni stund sannleikans, sú stund sem allir byrjendur kvíða mest hvað sem líður kvíðanum við að bregða rétt við. Segja má að hér sé komið að mesta veikleikanum í veiðitækni með flugustöng. Rétthendur veiðimaðurinn heldur á stönginni í hægri hendi. Með vísifingri sömu handa bremsar hann af línuna. Fyrir framan hann er svo og svo mikil óklár hönk af línu, slök við fætur hans. Vinstri höndin er ekki að gera neitt
þarflegt nema kannski halda við línuna líka. Það sem nú þarf að gera og kona mín varð að gera eins og allir veiðimenn sem fá fisk til að bíta var:
að færa stöngina úr hægri hönd yfir í þá vinstri, til að geta undið slakann á línunni fyrir framan sig upp á hjólið með hægri hönd. Öðruvísi verður
þetta ekki gert, og má telja mikinn galla á annars fullkominni list. Þessi færsla verður að gerast mjúklega, án þess að slynkur komi á stöngina, slaki
á strekkta línuna eða annað það sem hjálpi fiskinum að losna. Þetta getur farið illa, en bjargaðist vel að þessu sinni. Nú stóð hún með stöngina í
vinstri hönd, og vísifingur þeirrar handar bremsaði af línuna, en fiskurinn hafðist sem betur fer ekki að. Hægri höndin var nú vissulega frjáls til að
byrja að snúa sveifinni á hjólinu til að vinna upp slakann í vatninu fyrir framan hana. Það er nefnilega staðreynd að ekki er hægt að byrja að draga fiskinn að landi fyrr en slakinn er kominn upp. Enn eitt smáatriði var þó eftir. Margur veiðimaðurinn hefur farið flatt á því að vinda lausa hönkina
við fætur sér beint inn á hjólið. Línan fer illa upp á spóluna og getur skapað stóran vanda ef fiskurinn tekur roku síðar í slagnum. Því hafa menn
komið sér upp þeirri aðferð að leiða lausu línuna sem á að fara upp á hjólið með t.d. litlafingri handarinnar sem heldur á stönginni. Litli fingur þjónar þá því hlutverki að strekkja hæfilega á línunni þegar slakinn er undinn upp á hjólið. Þegar slakinn er allur kominn inn er hættuástandi aflýst. Línan liggur nú öll þráðbein og strekkt beint út af hjólinu, fram stöngina og út í vatnið og upp í fiskinn.
Af öllu þessu má sjá að Gerald Ford fyrrverandi Bandaríkjaforseti hefði aldrei getað veitt á flugu. Haft er fyrir satt að hann geti ekki gengið og
tuggið í einu. Fluguveiðimaðurinn sem setur í fisk þarf að gera allt í einu. Í fyrsta lagi gengur hann í gegnum þá lífefnafræðilegu þolraun fyrir
taugakerfið að fá töku og bregða rétt við til að festa fiskinn. Hann þarf nú að halda línunni vel strekktri til að flugan losni ekki, en ekki taka
svo fast á að fiskurinn rífi út úr sér. Hann þarf að vinda upp lausa slakann af línu sem hann hefur að öllum líkindum fyrir framan tærnar á sér,
en til þess þarf hann að færa stöngina milli handa án þess að slynkur komi á og gæta vel að hegðun fisksins á meðan. Nú verður hann að vinda línuna sem er laus upp á hjólið, en gera það svo vel að ekki sé hætta á flækju. Hægri höndin vindur inn. Takið eftir þessu stórkostlega afreki vinstri
handarinnar: hún heldur á stönginni, bremsar línuna til fisksins með vísifingri, en strekkir línuna inn á hjólið hæfilega með t.d. litlafingri og baufingri. Allt þetta gerir veiðimaðurinn án þess að hafa augun af þeim punkti sem vænta má þess að fiskurinn sýni sig.
Allar þessar tilfæringar, sem vissulega hljóma eins og fáránlegur galli á veiðitækninni, gegna því mikilvæga hlutverki að búa í haginn fyrir
skemmtunina góðu: þreyta fiskinn. Þegar búið er að koma öllum slaka inn og hjólið komið í beint samband við það sem fiskurinn er að gera, þá fyrst
getur leikurinn hafist. Fluguveiðimaðurinn uppgötvar nú að hjólið hans hefur enga bremsu svo orð sé af gerandi. Þetta gæti virst sem galli, en er
það í raun ekki ef hann áttar sig á því að honum er ætlað að bremsa fiskinn af sjálfum með höndinni. Fluguveiðimaður er nefnilega með svo fínleg
veiðitæki. Taumurinn er grennri en sverar maðkalínur úr girni. Flugan er minni en spónn. Stöngin létt. Ef maður klossbremsar einhvern hluta
veiðibúnaðarins er hætta á að eithvað gefi sig. Þess vegan er engin bremsa á hjólinu sem heitið getur, a.m.k. í samanburði við fínu kasthjólin. Hægri höndin er á hjólinu, sveifar inn ef fiskurinn gefur sig, heldur í við hann ef svo ber við að horfa, og sleppir öllu lausu ef fiskurinn rýkur út. Þegar þar að kemur auka menn erfiðið hjá fiskinum, styðja flötum lófa á spóluna, þyngja þá litlu bremsu sem er.
Fáránlega flókið
Það er von að byrjanda vaxi þetta allt mikið í augum. Þetta er fáránlega flókið með svo einfaldan búnað. En þetta er í raun alls ekki jafn slæmt,
oftast, og hér hefur verið skýrt frá. Í fyrsta lagi eru margir veiðimenn svo heppnir að setja bara í litla fiska sem engum vanda valda. Tökum smábleikjurnar í Elliðavatni eða murturnar í Þingvallavatni. Með slíka fiska á hefur maður ekki áhyggur af slakanum fyrir framan fæturna. Maður
hefur ekki einu sinni fyrir því að nota hjólið. Veiðimaðurinn heldur bara á stönginni áfram í kasthöndinni, og dragur línuna inn með fiskinum á með
vinstri hönd. Vísifingur hægri handar styður við og bremsar þegar við á. Fiskinum er landað snöggt og stórátkalaust, líkast til með því að háfa hann
við fætur manns. Að meðan liggur línan bara kyrr á sínu beði og er tilbúin fyrir næsta kast. Svona veiða glúrnir veiðimenn 30-40 fiska á dag án þess að nota hjólið nokkru sinni.
Sé fiskurinn stærri þarf að ná slaka inn á hjólið og nota það í glímunni. Byrjandinn getur vonað tvennt. Í fyrsta lagi að fiskurinn taki fluguna og
festi sig. Honum verði þá illa við svo hann þýtur burt. Línan þýtur með og veiðimaðurinn heldur aðeins laust við til að allt gerist þetta
greiðlega. Fiskurinn tekur þar með allan línuslaka og kannski einn eða tvo snúninga ofan af hjólinu. Þá stoppar hann til að kasta mæðinni. Þá er
allt tilbúið fyrir veiðimanninn. Hann heldur bara við, færir stöngina yfir í vinstri hönd og byrjar að vinda inn á hjólinu, gefa eftir eða bremsa nett með hægri höndinni allt eftir atvikum. Þetta er lang þægilegasta aðferðin, svo þægileg að oftast leyfi ég fiski að hafa alla sína hentisemi eftir töku í þeirri von að hann sjái um að gera allt klár fyrir mig sjálfur. Línan sem hann fær út með sér er venjulega ekki hættulega mikil.
Hitt er svo mjög algengt, segja mér Meistarar, að fiskar geri hreinlega ekkert fyrst eftir töku. Eins og fiskurinn sem kona mín er nú að glíma við
í miðri þessari frásögn, í Brotaflóanum kvöldið sem loksins lægði. Þetta á bæði við um laxa og silunga. Í spennandi veiðifrásögnum er þessi hegðun sjaldgæf. Þá rýkur fiskurinn út, hoppar og skoppar og gerir ýmislegt það sem lítur vel út á prenti. Dæmi um slíkt má sjá hér að framan. Í
náttúrunni er þetta ekki endilega algengt. Venjulega fær veiðimaðurinn nokkurt tóm til að átta sig. Laxveiðimenn segja að gæti maður þess að
styggja ekki nýtekin fisk með látum og hamagangi, geti maður hreinlega teymt hann eins og belju í bandi þangað sem maður stendur vel að vígi og
getur sem hægast gert klárt fyrir slaginn sem á eftir að harðna. Silungar eru oft eins. Eftir fyrsta kippinn er eins og þeir bíði og sjái hvað setur. Eftir ótal fyrirspurnir og lestur fræðirita virðist niðurstaðan þessi fyrir byrjendur: bíðið. Látið adrenalínið sem gusaðist út í taugakerfið við tökuna sjatna. Fylgist með hvað fiskurinn gerir og hafist ekki að. Fyrstu andartökin eru hættulegust. Byrjandanum finnst svo margt ógert: skipta um hönd, ná inn slaka, halda strekktu... Og á meðan ómar í hjarta hans og huga: "ekki sleppa, nei hann má ekki sleppa, ó ekki láta hann sleppa," (og á hann þá orðastað við Guð). Best er að bíða, hafast ekki of mikið að áður en maður sér við hvers konar fisk er að etja. Breski Meistarinn Arthur Cove heldur því fram í einu riti sínu um silungsveiðar að í lang flestum tilfellum fái veiðimaðurinn gott næði til að athafna sig fari hann að engu óðslega og bíði rólegur.
Þessi almennu sannindi eru samt ekki algild.
Það er mála sannast að fiskar hafa ólíka persónuleika og bregaðst við fastri flugunni með ýmsum hætti. Taki fiskurinn roku burt þarf að gefa slaka með því að losa bremsuna á vísifingri, en halda vel við aftur þegar hann stoppar til að ekki slaki á. Frægt er að stóri laxar geta þotið burt með alla línu, margir hafa orðið að taka á rás eftir fiski með örfáa vafninga eftir á hjólinu. Ef fiskurinn stekkur þarf að leggja niður stangartoppinn snöggt til að fá slaka og rífa ekki fluguna úr kjaftvikinu, en vera snöggur að taka mjúklega á þegar hann lendir aftur. Fiskur sem reynist auðteymur í fyrstu getur breyst í versta villidýr þegar veiðimaðurinn uggir ekki að sér. Í versta falli tekur fiskurinn til þess lævísa bragðs að synda með ógnarhraða áleiðis til
veiðimannsins. Nú verður veiðimaðurinn að lyfta stönginni eins hátt og hann getur til að halda línunni strekktri,en það dugar sjaldnast svo hann
endasendist afturábak með gusugangi og boðaföllum, jafnvel upp á bakka og lengst upp á land. Allt til að ekki komi slaki á línuna. En allt þetta sýnir að maðkamenn og spóndragar eru Geraldar Fordar þessa heims, fluguveiðimenn sannir karlmenn. Og konur.
Við vorum nefnilega stödd þar í frásögninni í Brotaflóa að búið var að gera allt klárt, slaka línan öll komin inn, og kona mín gat nú byrjað að þreyta
fiskinn. Hann barðist um, synti frá og hún leyfði línunni að renna út af hjólinu þegar kippirnir urðu harðir. Þegar hann hægði á sér byrjaði hún að
draga að, og svona gekk þetta eins og í klassískri dæmisögu um fluguveiðar um hríð. Upp rifjaðist fyrir mér smá misskilningur frá árinu áður þegar ég sagði tilteknum ónafngreindum byrjanda að maður yrði að "gefa línu," fiskurinn yrði að fá að fara út ef hann tæki snarpa spretti því ella væri
hætta á sliti. Þá var ég einungis að bermála vísindi Meistara míns, en orðalagið ekki tiltakanlega skýrt. Hinn tiltekni ónafngreindi byrjandi setti í fisk sem kippti hressilega í og stökk. Veiðimaðurinn hamaðist við að rekja línu ofan af hjólinu um leið og hann fann kippina. Loks var vænn slaki af línu á leið niður ána og ekkert samband við fiskinn, hvorki þá né síðar. Veiðimaðurinn sagðist samt hafa passað sig að "gefa línu." Muninn á því að gefa línu og gefa eftir línu reyndi ég að útskýra betur þarna við hlið konu minnar. Hún gaf og tók á víxl. Fiskurinn þreyttist á þessu þrefi eins og lög gera ráð fyrir, smám saman styttust rokurnar, kippirnir urðu veikari og mótstaðan lin. Hann kom nær og nær, sigur var í sjónmáli.
En aðeins í sjónmáli. Nú var komið að því sem vill vefjast fyrir mörgum: ná fiskinum. Sjálfur hef ég nokkuð slæma reynslu af því að hjálpa við
löndum. Þegar ég var strákur með Jakobi frænda bjargaðist þetta allt einhvern veginn með því að hann strandaði löxunum á grynningum og ég ýtti
þeim upp á land með báðum höndum um leið og ég þreif hnullung til að rota þá. Fékk reyndar síðar forláta gylltan rotara frá frænda. Maðka- og spónatímabilið fól í sér að kippa fiskunum á land. Heldur fór að syrta í álinn þegar kom að alvöru veiði. Einhvern tíman á háskólaárunum fór ég með Smára vini mínum í einn dag í Stóru-Laxá, svæði sem hefði getað heitið vonlaust mín vegna, að minnst kost vorum við það. Hvorugur kunni nokkuð til veiða í svo stóru vatnsfalli. Enda fór svo að við fínkembdum allar veiðileysur og slysuðumst svo loks síðdegis á að ramba á hyl með fiskum í, bara vegna þess að ókunnur veiðimaður sem átti að vera annars staðar hélt hann gæti stolist á staðinn fávitanna vegna. Þarna kastaði Smári spæni meðan ég stóð upp á kletti og sá fisk koma úr djúpinu, synda að glampandi járninu, opna munninn og bíta saman. Hann var á. Þrususpenntur mætti ég til að hjálpa við löndunina, en Smári ítrekaði að réttast væri að vera rólegur. Það var fiskurinn að minnsta kosti. Hann synti alveg upp að okkur og stoppaði nákvæmlega þar sem ég gat smeygt háfnum undir hann. Það gerðist samtímis að ég lyfti háfnum og fiskurinn tók kipp, lamdi sporðinum í brún háfsins og hristi hausinn; spónninn hrökk í loft upp en fiskurnn kvaddi. Ég varð miður mín í mörg ár á eftir þegar ég minntist þessa atviks, og yrði enn, ef ekki hefði komi fleira til. Það urðu ekki vinslit milli okkar Smára, og þessa sögu rifjaði ég með honum mörgum árum seinna þar sem við stóðum úti í Rangá á flúðum og hann með fisk á. Ég þóttist orðinn nokkuð reyndari og var að gefa honum ráð, hélt á
litla silungaháfnum hans Smára, ef ske kynni. Kannski varð það atriði til að minna mig á atvikið forðum. Ráðgjöfin fólst í því að koma fiskinum
þreyttum að grasbakkanum, þar myndi ég grípa um styrtluna eins og fagmaður og vippa fiskinum á þurrt. Ég hafði gert þetta nokkrum sinnum sjálfur. Þessi fiskur var eiginlega alveg eins og fiskurinn í Stóru-Laxá. Smár, leiðitamur, nú var hann kominn alveg að okkur og við ekki enn komnir upp á bakka. Ég var rétt búinn að rifja upp þegar laxinn forðum sló sporðinum í háfinn þegar þessi kom beint til mín. Ég setti háfinn undir hann...
Það urðu ekki vinslit heldur í þetta skipti. Ég sagði Smára hins vegar að ég myndi ekki hjálpa honum að landa fleiri löxum nema hann bæði sérstaklega um það. Smári hélt yfir ána, kastaði og setti í annan fisk. Hann hrópaði ekkert yfir til mín, ég sá hann ekki benda mér að koma. Þetta virtist líka lítill lax og auðveldur viðureignar. Smári þokaði honum að bakkanum sem því miður var um hálfs metra hár grasbakki vaxinn hvönn. Ég sá stórslys í uppsiglingu. En það mátti ég eiga að ég stóð við orð mín, stóð hins vegar stjarfur og horfði á. Nú synti laxinn upp fyrir veiðimanninn, sem gekk á eftir honum, enn úti í á. Laxinn seig að bakkanum og það var alveg saman hvernig veiðimaðurinn reyndi að halda taumnum frá, hann fór í hvönnina. Nú vita þeir sem reynt hafa að hvönn er um það vil það versta sem hægt er að flæka línu í. Laxinn hafði nú numið staðar, en veiðimaðurinn vatt inn línu og nálgaðist slysstaðinn. Svo kom að nær öll línan var komin inn, taumurinn lá inn í hvannarstóðið og út úr því niður í fiskinn sem var kyrr við tær veiðimannsins. Trúr sinni eðlislægu rósemd tók vinur minn til við að losa tauminn úr hvönninni. Ég freistaðist til að pata eitthvað, en hann var niðursokkinn í að skoða málin. Hann kippti í tauminn eins og til að athuga hversu flæktur hann væri, tók svo betur í. Ég sá hausinn af laxi koma úr kafi, hann var eins og hengdur á þráð, sem hann auðvitað var. Nú var ég sannfærður um að flugan losnaði. En Smári var ekki ánægður með stöðu mála, taumurinn var rammflæktur. Hann togaði meira. Nú var laxinn kominn hálfur uppúr. Hann dinglaði í hvönninni, ég greip hönd fyrir augu en gat auðvitað ekki annað en stolist til að gægjast milli fingra: flugan var hálf út úr kjaftinum á honum. Smári dró fiskinn rólega allan uppúr, horfði á hann og vippaði yfir á bakkann. Um leið losnaði flugan. Fiskurinn skoppaði í grasið. Og nú var minn maður ekki svifaseinn heldur lagðist á hann og hafði undir. Lét þar lífið fyrsti flugulaxinn hans.
Þessar sögur af okkur Smára segja fyrst og fremst það að ekkert er ómögulegt. Og þetta var ég að brýna fyrir konu minni með fiskinn í Brotaflóa. Kolbeinn heitinn Meistari segir að flestir fiskar losni þegar þeir koma að fótum veiðimannsins. Það gerist nefnilega tvennt: veiðimaðurinn sér sigur í höfn, næstum því, og slakar á. Varkárni þverr, sigurvíma vex. Fiskurinn er hins vegar við það að týna lífi. Hann neytir síðustu krafta og þess að veiðimaðurinn telur sig með öll ráð í hendi. Þetta var ég að brýna fyrir henni um leið og ég útskýrði löndunaraðferð silungsveiðimanna. Fluguveiðimenn á silungaveiðum hafa háf dinglandi á bakinu. Þetta gerir þá fremur óásjállega á velli, en á sér skýringu. Ekki er ráðlegt að reyna að vippa flugufiski á land með handafli. Ekki ætti undir nokkrum kringumstæðum að kippa í tauminn, eins og vini mínum Smára gafst svo vel. Því síður ætti að reyna að góma fiskinn með höndunum, hann er háll og smýgur úr greip. Hins vegar er snjallræði að seilast í háfinn sem hangir á bakinu. Hann er festur með teygjubandi. Veiðimaðurinn stýrir nú þreyttum fiskinum að sér, heldur stönginni fram og hefur stutta línu úti, nokkurn
veginn svo það passi að fiskurinn komi upp að hlið sér. Því lengri lína sem er úti, því erfiðara er að stýra fiskinum. Hægri höndin hefur nú seilst í háfinn og læðir honum nú undir fiskinn sem er rétt undir yfirborði. Sumir Meistarar vilja fara með háfinn undir fiskinn að framanverðu, hausinn fyrst, því þá geti hann ekki neytt síðustu kraftana öðruvísi en synda beint í háfinn. Þessu fylgir sú áhætta að taumurinn rekist í háfbrúnina og fluga losni. Þeir sem fara aftan að fiskinum gæta þess að hann sé ekki djúpt og skófla honum upp með sæmd og stolti. Sem var einmitt það sem kona mín gerði - kvöldið sem lægði, kvöldið sem hún setti í og þreytti fyrsta alvöru flugufiskinn.
Eða svo sagðist mér frá. Hólmfríður á Arnarvatni gladdist við þessi tíðindi, það gerði ég líka, og hélt uppi miklu lofi. Fyrsti flugufiskurinn! dásamaði ég. Kona mín var einungis hálfu hressari en fyrr. "Þú kastaðir," sagði hún stutt í spuna. Jú, en hún hélt á stönginni. Alveg sama. Þetta var ekki að marka. Gilti ekki sem fyrsti flugufiskurinn. Því varð ekki haggað. Þetta var síðasta kvöldið, kvöldið sem lægði, á morgunn yrði lokadagurinn í þessum draumatúr síðustu 10 mánaða.
Nýir straumar í veiði okkar
Meðal Norðmannanna sem voru við veiðar samtímis okkur kvisaðist út að einhver hörkutól væru einnig að veiðum. Þessar tvær kappklæddu þústir sem sást til stökku sinnum, bregða fyrir á vaði eða húka undir bakka að reyna að finna skjól. Jafnframt vakti það furðu að önnur mannveran væri kona. Sem reyndar fylgdi sögunni hjá Hólmfríði veiðiverði að væri orðin hrakin, langþreytt og vondauf. Jafnvel farin að tala um að veiðar væru ekkert fyrir sig. Þetta hafði ekki verið neitt sérstakur túr, jafnvel fyrsti flugufiskurinn sem kom eftir fjögurra daga baráttu var hálfgert plat. Eða þannig mætti líta á það. Norsararnir ræddu þetta mál í sinn hóp þetta kvöld.
Næsti dagur rann upp. Heiðskír og fagur! Útvarpið skýrði frá því að ferðamönnum ætti að verða óhætt, gott ef ekki var rætt við gengilbeinuna á hótelinu sem enn var kíminn og taldi snjókarla og grýlukerti í útrýmingarhættu. Og við áttum dásemd dásemda, Geldingaey, báðar stangir í heilan dag!
Minnug þess sem var ekki ónýtt árið áður, að steðja beint í Hagatá, ákváðum við einmitt það. Það var óbærilega létt að arka af stað trefilslaus, bara á einni peysu! Við svifum. Nú var ákveðið að sú næstum fisklausa færi í Hagatá, en fjórfiskabaninn í vikin þar ofar. Þetta átti eftir að verða
sögulegur dagur á veiðiferli byrjendanna og hafa víðtæk áhrif um langa hríð. Eitthvert bauk var á mér í vikunum, ekki var við fisk, dund með tauma, sífellt að skipta um flugur, alltaf að bolloka eitthvað. En það gerðist eitt sinn að mér varð litið upp og niðureftir og sé þá hvar kona mín er að háfa fisk, rétt eins og um hafði verið rætt að gera ætti og bera á land. Algjörlega óumdeilanlega fyrsti flugufiskurinn þar, því hér kom enginn nálægt... eða hvað? Steðjar til hennar í sama mund Fjallräven-klæddur náungi, gleðst yfir veiðinni, hefur einhver orð og er svo horfinn rétt þar sem hún er að aflífa fiskinn.
Ekki vissi ég erindið. Fyrr en síðar um morguninn. Þá skondraði frúin glaðlega til mín upp undir Brunnhellishró með bolta á bakinu og sagði merkilega sögu. Um að norsarinn hefði fært sér brúnar og gráar púpur sem litu út eins og hnoðrar af ullarpeysu, hún hafði sett í þennan stóra strax, og annan miklu stærri síðar, en sá sloppið. Við skoðuðum þessa brúnu og gráu hnoðra. Þetta var síðasta vaktin á löngum veiðitúr. En, eins og þeir segja í bíómyndunum: ,,The rest is history?. Veiðar okkar urðu aldrei samar upp frá því.
Höfundur Stefán Jón Hafstein