Upprifjunin heldur áfram. Það er endalaust til af góðu efni hérna hjá okkur á Flugur.is. Greinar um matreiðslu, fræðsla um hvernig þú bætir veiðina hjá þér, skemmtilegar veiðisögur sem veita manni fiðring og auðvitað brakandi ferskar Flugufréttir í pósthólfið hjá þér alla föstudaga!
Á sumrin eru veiðimenn mjög duglegir að senda okkur fréttaskot og punkta. Við minnum á að við tökum við gleði sögum allt árið og erum alltaf þakklát þegar okkur berst skemmtilegur póstur.
Ágætu veiðimenn, þakkir fyrir myndirnar og sögunar sem við fáum þessa dagana, mikið að gerast við vötnin! Ég nýt þeirra forréttinda að vera í daglegu sambandi við veiðimenn á vefnum mínum flugur.is þar sem sögurnar og myndirnar streyma inn. Að venju birtum við þetta efni allt með myndum og sögum í Flugufréttum vikunnar, en ég má til með að segja frá nokkrum merkilegum veiðisögum vikunnar hér á síðunni svo menn viti a.m.k. að Flugufréttir eru svo sannarlega angandi af fiskilykt alla föstudaga!
Arnlaugur Helgason fór á bleikjuveiðar í Þingvallavatni og ætlaði sér góða hluti, en margt fer öðruvísi en ætlað er. Hann setti bara í tvær smábleikjur, en svo tók sex punda gullfallegur urriði og eftir smástund annar 12 punda! ,, Ég var frekar þreyttur að þurfa að bera þessi ósköp ásamt 2 stöngum og veiðikassanum mínum upp í bíl. En ánægður var ég ...? skrifar hann! Ekki var það verra hjá Gísla Sigurði Gíslasyni frá Akureyri sem fór í Eyjafjarðará og skrifaði mér skýrslu um ferðir þeirra hjóna: ,,Undir hádegi erum við kominn að Arnarhólshyl og heldur farin að minnka rigningin. Konan byrjar og verður ekki vör. Ég bít á jaxlinn og dembi mér út með Krókinn og veiði andstreymis. Tökuvarinn fer sína leið ótruflaður næstu köstin en loks er hann þrifinn niður og ég næ að bregða við. Fljótlega verður mér ljóst að um stóran fisk er að ræða. Eftir alllanga baráttu kemur á land bleikjutröllið sem sjá má á myndunum, 75 cm löng og 4,9 kg eða 10 pund.? Það var eins gott að hann beit á jaxlinn í rigningunni! Ég bendi öllum silungsveiðimönnum á lærdóminn í sögunni, ,,andstreymisveiði? með púpum er lang gjöfulasta aðferðin í straumvatni og þið finnið leiðbeiningar hér á flugur.is!
Og laxar og andarungabanar
Ingvar Sigurður Alfreðson var ekkert að lýsa veiðiævintýri sínu með of mörgum orðum þegar hann skrifaði mér. Þetta er í anda Íslendingasagna: ,,Ég var á veiðum með félögum mínum á vestubakka Hólsár um síðustu helgi. Við enduðum með 115 laxa á 4 stangir eftir 2 daga og eingöngu veitt á flugu. Soldið gaman!? Og það var gaman (eða furðulegt?) fyrir Sindra Má Heimisson að veiða fjögurra punda urriða í Laxá í Laxárdal og finna fjóra heila andarunga inni í honum! Félagarnir hentu gaman að og spurðu veiðimanninn hvað fiskurinn hefði drukkið með matnum. Ekki stóð á svari Sindra Más:
Með kvikan sporð og hvoftinn stóra
á hvítvíni hann dreypti.
Að því loknu unga fjóra
á andartaki gleypti.
Matgæðingar margra landa
miðla því um vötn og lönd.
Að þegar skal til veislu vanda
velur maður rautt með önd.
Fylgist með öllum sögunum og fréttunum í Flugufréttum, með veiðikveðju, Stefán Jón.