2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
21.3.2020

Slóvenía, gamlar minningar frá góðum veiðidögum - úr safni Flugufrétta

 Þó að Ísland sé gnægtar og gósenland veiðimannsins sem veiðimenn ferðast langt að til þess að prófa þá blundar í flestum veiðimönnum landkönnuður. Þráin við að prófa ný svæði, nýtt landslag og öðruvísi loftslag. Reyna að finna leiðir til að egna fyrir nýjum tegundum og athuga hvort að íslenska reynslan bjargi manni á ókunnugum slóðum. Hérna er skemmtileg frásögn frá árbakkanum í Slóveníu sem tekur mann alla leið í huganum. 
 

 

Hvers vegna ætti fluguveiðimaður á Íslandi að fara til útlanda að veiða? Hér er allt stærst, best og ... nei.  Ekki alveg.  Til dæmis er hægt að lengja veiðitímabilið umtalsvert með því að fara í veiðitúr til útlanda, hitta öðruvísi fiska, lesa ólíkt vatn og sitja í félagsskap veiðimanna sem maður hefur ekki heyrt segja sögur fyrr.  Allt þetta reyndi ég í Slóveníu fyrir nokkrum árum. 

Nyrsti hlutinn af fyrrum Júgóslavíu, dásamlega fagurt land með heimsfrægar ár sem laða að veiðimenn úr fjarlægum heimshornum.  Og veiðimenn sem eru mjög slyngir.  Soca er frægust áa, talin ein sú fegursta í Evrópu, mærð af skáldum, varin af heimamönnum þegar stjórnvöld vildu sökkva henni bakvið stíflu, blá, með ótrúlegn urriðastofn!  Minnir á Laxá, drottningu íslenskra silungsáa. 

En ég byrjaði í Unice. Unice liðast lygn um blómaengi í fögrum skógivöxnum dal, lítið þorp með kirkjuturni gægist upp fyrir laufskrúðið, meðfram ánni eru tré og runnar, gaukar gala og sveitakonur strita á akrinum meðan traktorar bændanna baula í fjarska.  Sem sagt kjörlendi til veiða.  Í sól og þægilegum hita.

Það er harri (enska:greyling) sem maður veiðir einkum í ánni, en urriði líka.  Þetta eru ekki stórir fiskar.  Þjóðverjinn Horst sýndi mér harra  sem hann veiddi morguninn sem hann kom, þetta var þrítugasta veiðiár Horst í Unice og nú náði hann sínum stærsta fiski: 50 sentimetra löngum.  Mikill gleðidagur. Ég varð aðeins efins um að þetta væri fararinnar virði.  En þegar við Ljuba, veiðifélagi minn og fulltrúi Veiðimálastofnunar Slóveníu gengum til veiða í allri fegurðinni og fiskar vakandi uppi um alla á kom sæluhljóð í strokkinn.  Þarna er bannað að veiða nema á agnhaldslausa þurrflugu! 

 "Ljuba, er það flugan mín sem fiskarnir vilja ekki eða er það ég sem er ekki nógu snöggur?" spurði ég veiðikonuna snjöllu.  Hvað eftir annað komu fiskarnir upp og tóku fluguna án þess að ég næði að festa í þeim.  "Þú ert of seinn" svaraði hún hlægjandi, hún þekkir þessa fiska, og svo festi hún í nokkrum meðan ég horfði máttvana á þá stinga mig af. Svo tókst mér að festa í einum og einum.  Þeir voru mikið við, en þetta voru litlir, 3-400 gramma fiskar.  "Þeir stóru fara varlega" sagði Ljuba, "þeir koma ekki upp svona um miðjan dag".

Þetta var samt skemmtilegt, logn og blíða og áin fagra kraumandi af fiski. Það var mikil stemming að vaða út undir laufþekjuna af háum trjám og kasta varlega fyrir fiska sem kúrðu undir greinum og í skugga af stórum steinum. Í ljósaskiptunum fékk ég gamalkunnan fiðring, það var urriði sem sló sporðinum undir bakka, punds fiskur, sem ég leyfði að fara eins og öllum hinum.

Þetta var ekki stórfiskaveiði ofaní frystikistu, en gerði miklar kröfur til veiðimannsins.  "Notaðu eins fínan taum og þú mögulega getur" sagði Ljuba, og sýndi mér að vatnið er tært og lágt vatnsborð um þessar mundir.  Unice á það til að flæða yfir  bakka sína og vökva engi og tún.  Hún sprettur fram í helli undir hlíðarfæti, og liðast fram 18 kílómetra þar til hún hverfur niður um sprungu og kemur ekki upp aftur fyrr en undir öðru nafni miklu sunnar í landinu.   

 

Bara á agnhaldslausar þurrflugur 

Veiðimaður má hirða einn fisk á dag.  Þetta er vernduð á með ströngum reglum sem framfylgt er af verði.  Um kvöldið sögðu veiðimenn frá Þýskalandi, Bretlandi, vesturströnd Bandaríkjanna og Swiss frá árlegum stefnumótum sínum við ána.  Og þeir sögðu mér að kasta þurrflugunni niður, undan straumi, því þá sæi fiskurinn ekki tauminn á undan flugunni.  Þá beitir maður ,,fallhlífarköstum"; kastar flugunni létt og stoppar línuna rétt áður en hún nær að leggjast fram á vatnið.  Þannig kippist línan aðeins tilbaka og flugan lendir með tauminn ögn hlykkjóttan fyrir aftan sig; þá getur hún rekið frjálst án þess að línan togi í hana.  Ef línan togar í fluguna tekur hún að rása á vatnsfletinum og fiskurinn sér að ekki er allt með felldu.  Ég flaskaði hins vegar á því að hafa línuna of hlykkjótta, og leyfa straumnum jafnvel að bera hana í örlitlum bug niður undan mér.  Þetta þýddi að ég var með alltof mikinn slaka á línunni þegar fiskurinn tók, og vonlaust að ég næði að bregða við honum.  Þar með tókst þeim að hrækja flugunni út úr sér án þess ég ætti möguleika! 

Morguninn eftir kom ég einn að ánni, árrissulasti veiðimaður í dalnum. Kominn  á slaginu átta þegar búast mátti við að hitastigið nægði til að flugan klektist á vatninu og fiskarnir færu á stjá.  Líka þeir stærri. Nú leist mér betur á.  Ég kastaði skáhallt niður, náði að halda nokkuð vel við línuna án þess að flugan rásaði og þá tókst mér að festa hann!  En heilagur Slóven!  Nú var tekið hressilega í á móti og flugan spíttist til mín aftur.  Þeir stóru voru komnir á stjá, fiskar sem tóku á móti.  Og þegar maður er með 3ja punda ofurgrannan taum og þurrflugu númer 14 heldur maður ekki fiski með afli.  Svo nú hófst sú glíma.  Aldrei mátti slaka á athyglinni.  Aldrei mátti kasta illa eða bara hálf illa.  

Fiskurinn var um alla á og hafði lag á að taka ef slaki kom á línuna eða maður varð annars hugar. Þegar mér tókst að setja í tvo af fjórum ákvað ég að telja og hætta ekki fyrr en ég næði 50% árangri.  Næstu 12 tökur komu án þess að ég næði að festa í fiski og þá hætti ég að telja.  Þetta voru of löng köst til að ég næði að stjórna atburðarrásinni, eða einbeitingin ekki algjör.  Þá óð ég út, vandaði mig reiðinnar býsn og kastaði eins létt með löngum taumi og mögulegt var inn undir laufkrónu trés í lygnri beygju.  Þar bar skugga á vatnið og ég gat fest augun á einni af þurrflugum Marcs Petitjeans, sem flaut hátt í stolti sínu: fjöðrum úr rassendakirtli andarinnar.  Og þennan fisk tók ég.  Hann var ekki alveg jafn stór og sá sem Horst tók daginn áður, en sæmilega sprækur á færinu.   En það var ekki málið frekar en er með fiskana þarna.  Kúnstin er að plata þá, og ná þeim til sín með næfurþunnum taumi og agnhaldslausri smáflugu.  Þá loksins gat ég yfirgefið Unice að mér hafði tekist þetta.  Eftir var fiskurinn og bíður þar næsta veiðimanns.

 

2. hluti: Soca in

Í Slóveníu er undurfögur og heimsfræg Alpaá sem rennur Bláalóns blá úr Júlíönsku Ölpunum niður á sléttur landsins. SOCA. Soca er  stór og mikil þegar niður í dalina er komið en þar sem ég heimsótti hana, efst í fjallasal, er hún á stærð við Elliðaárnar kannski ögn vatnsmeiri. Furðulega fögur er hún: Blá eina og Bláa Lónið því hún tekur lit af grýttum farveginum; vatnavextir árþúsundanna hafa löngu síðan skolað burt jarðvegi sem gerir okkar ár mórauðar í hlaupum; Soca er alltaf blá. Undurblá. 

Þarna býr merkilegur urriði.  Salmo marmoratus.  Hann er skyldur vini okkar Salmo trutta; en marmaraurriðinn dregur nafn af óreglulegu mynstri á roði sem gerir hann nánast ósýnilegan þar sem hann hvílir við grýttan botn. Reyndustu veiðimenn þurfa  mikla þjálfun til að koma auga á hann.  Og það er nánast eina leiðin til að veiða hann.  Marmaraurriðinn er var um sig, felur sig á daginn og leitar ekki úr eftir æti nema þegar hann telur sig óhultann.  Það þýðir lítið að veiða marmoratus blint eftir hipps-um-happs aðferðinni í þessari á.   Sem gerir hana mjög erfiða fyrir óvana.  

Vinkona mín, Ljuba, frá Unece ánni hafði útvegað mér leiðsögumann, Misha.   Hann fræddi mig á því að heimsókn mín væri á óheppilegum tíma.  Aðalveiðitíminn er í júlí og ágúst.  Ég var þarna í fjöllunum í maí.  Áin var í vexti og ekki minnkaði hún þegar glampaði á eldingar á firnaháum hvítum fjallstindum, fjallasalurinn bergmálaði þessar líka feiknalegu þrumur og svo kom úrhellið þráðbeint niður.  Misha veigraði sér við að fara út, en ég hélt nú að veðrið skyldi ekki stoppa mig.  Þetta var frábær dagur.  Regnið buldi á okkur, við köstuðum fyrir venjulega smáurriða og regnbogasilunga sem einnig eru í ánni, og ég setti í tvo litla upp á húmorinn.  

 

Höfðingjar

Áhrifaríkast var að fara og skoða gilið þrönga þar sem stórhöfðingjarnir búa.  Stærsti marmaraurriðinn sem sögur fara af vóg 56 pund!  Hann  fannst sjálfdauður neðan við gljúfrið þar sem við stóðum nú, ég og Misha. Það er níðþröngt, en að sama skapi djúpt, svo þröngt og djúpt að sums staðar sér ekki niður í ána þar sem rýnt er niður.  En þarna gusaðist hún út milli 10 metra hárra veggja og ofaní hyl einn stóran og mikinn þar sem litlu fiskarnir sveimuðu; þaðan streymir áin áfram niður dalinn og út á sléttuna. Það var ekki erfitt að ímynda sér hvílíkt sældarlíf bíður marmaraurriða þarna í gljúfrinu.  Hann er frá ísaldarárunum þegar frændi hans Þingvallaurriðinn og náfrændur þeirra Veiðivatnaurriðinn og Laxárurriðinn voru að nema vötn.   Þarna kom sá marmaramynstraði sér fyrir í ánni bláu, og þeir stærstu og frekustu auðvitað í skjólsælu gljúfrinu.   Misha sagði mér að stundum kæmu stóru flekarnir niður á nóttunni og niður ána, það kæmi fyrir að veiðimenn settu í þá, en fáir kæmu á land því enginn er tilbúinn í slag við þessa bergþursa.   Hvers konar taum þarf í svoleiðis stríð?

Þess í stað una menn sér við veiðar þar sem hægt er að kasta: strengir og hyljir skiptast á, barrtré meðfram bökkum, þaðan aflíðandi hæðir og svo snarbrattar brekkur og fjallshlíðar sem rísa tignarlega upp langt ofar og maður þarf að reigja sig til að horfa alla leið upp.  Við Misha rýndum meira niður, á silungana sem skutust um hylinn þar sem stóra tréð við bjargið stendur - en veiddum lítið.

 Af því að marmarasilungurinn er svo vandveiddur og aðkomumenn vilja komast í fjör, er sleppt í ána geldum regnbogasilungi, 5-10 punda tröllum, sem menn eltast við fyrir bardaga á jafnréttisgrundvelli.  Slyngir veiðimenn sem hitta fyrir marmaraurriða mega aðeins hirða einn á dag, ef hann er meira en 50 sentimetrar.  Þarna eru líka venjulegir urriðar sem sleppt var í ána fyrir það sem nú flokkst undir mistök.  Þeir hafa blandast heimastofninum og nú horfir í að sjálfur konungur árinnar, marmaraurriðinn, hverfi.  Því er mikið ræktunarstarf í gangi: seiði alin og þeim sleppt í ána, en reynt að uppræta aðkomutegundir eins og urriða og regnbogasilung. Geldu stórfiskarnir sem eru ferðamannasegull geta engan usla gert.  Stórir hlutar ánnar eru friðaðir sem uppeldisstöðvar fyrir marmaraurriða og öllum smáfiski er þyrmt.

Næsta morgunn fór ég snemma út í sólbjartan og ferskan fjallasalinn sem var fylltur af fuglasöng og árnið eftir þrumuveðrið.  Ferðamenn á tjaldstæði voru að hita kaffi, ég fór niður með ánni og lagði lykkju á leiðina gegnum skógarþykkni, kom að smágrýttum bakka þar sem blámi árinnar ljómaði mót fögrum himni.  Nakið par var að baða sig.  Sem betur fer voru þau fljót uppúr og virtust ekki hafa sýnt silungum dýrð sína, því þeir lágu neðar í strengnum samkvæmt upplýsingum.  Þarna átti ég ánægjulegan morgun þótt ekki tæki fiskur og það var auðvelt að ímynda sér hvílík dýrð bíður þeirra sem koma á helsta veiðitíma. Um hádegi tók ég hafurtask, ók gegnum fjallaskarð í 1600 metra hæð, fór niður í dalinn hinum meginn og eftir 3ja tíma asktur var ég kominn í sumarhlýjan dal þar sem Sava Bohinjka liðast um skóg og engi.  Ljuba beið mín á helsta veitingastað veiðimanna og þar sýndi hún mér uppstoppaðar bleikjur, regnbogasilunga, harra og urriða í litrófi árinnar.  Síðan forum við út og veiddum á þurrflugu fram eftir degi, en skemmtum okkur líka við að horfa á strákling sem kunni að særa upp 1-2 punda urriða á nymfu.  Okkar voru smærri, en þurrflugutökurnar frábærar.  Og Ljuba sagði mér að seinna kæmu 8-10 punda regnbogasilunar til að slást við!  Um kvöldið var hægt að orna sér við minningar frá liðnum degi við hið friðsæla og fagra vatn sem borgin Bled stendur við.  Langt ofar í fjöllunum niðaði Soca, áin bláa, sem þjóðskáld yrkja um, þar sem heimamenn berjast gegn virkjunum og hafa sigur - þar sem risarnir sveima í dimmu djúpi.

Höfundur SJH
Upphaflega birt í nóvember 2006

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði