2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
26.3.2020

Bláa Flugan - úr safni Flugur.is

 Gylfi Pálsson segir hér góða sögu af veiðiskap. Veiðimaður er ekki mikið án vonarinnar sem honum býr í brjósti. 

 Lengi er von á einum.........jafnvel tveimur í Illakeri. 

Trú og von eru sterk öfl í veiðiskap. Hafi menn ekki trú á því að aflist stunda þeir veiðina með hangandi hendi og verða sjaldnast varir en meðan þeir halda í vonina er áhugi og athygli vakandi og viðbúið að fiskur bíti á hjá þeim.

Misjafnar væntingar eru bundnar við laxveiðiár. Aflatölur frá ári til árs eru taldar sýna veiðivonina. Stóra-Laxá í Hreppum hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarin ár og fáir sem þaðan hafa reitt afla í þverpokum. Ég hef veitt í henni síðastliðna tvo áratugi og gengið misjafnlega. Fyrir nokkrum árum keyrði tregveiði um þverbak, 20. júlí voru á 1. og 2. svæði aðeins komnir þar á land 15 eða 16 laxar eftir mánaðarveiði. Það leit því ekki gæfulega út þegar við félagarnir renndum austur. Kvöldið áður hafði ég af rælni hnýtt blátt skegg og langan, bláan hárvæng á silfurlitaða þríkrækju nr. 10. Trúði því að hún gæti gefið góða raun ef annað agn og hefðbundnara brygðist.

Er austur kom var skipt liði, um morguninn vorum við tveir úr hópnum að villast í kartöflugörðum og malargryfjum áður en við bárum niður á kunnuglegri stöðum eins og Langabakka og Laxárholti. Þar var samt ekkert lífsmark að finna. Eftir nokkrar yfirferðir í Skarðsstrengjum fór ég upp í Flatastreng og Nípur en félaginn varð eftir við Bergssnös þar sem hann fékk tvo smálaxa. Ég varð ekki var.

Þá var komið hádegishlé. Menn fóru yfir stöðuna. Þeir á efri svæðunum höfðu einskis orðið vísari, töldu þó víst að fiskur hlyti að vera í Kálfhagahyl. Einn hafði margkastað á Illaker en án árangurs, síðan klifrað upp á klettinn vestan við kerið og skyggnt það. Hann fullyrti að þar væri enginn fiskur.

Við sem höfðum verið á neðri hluta veiðisvæðisins fyrir hádegi héldum upp í Kálfhaga síðdegis. Félagi minn bauð mér að byrja í Kálfhagahyl, þar væru veiðilíkurnar mestar, hann væri búinn að fá laxa og nú væri röðin komin að mér. Ég afþakkaði gott boð því að satt best að segja hefur mér aldrei fundist skemmtilegt að veiða Kálfhagahyl með flugu. Illaker er aftur á móti minn staður síðan Egill heitinn málari kenndi mér á það. Ég sagðist ætla yfir um, reyna fyrst í Rauðuskriðum svo í Illakeri, að því búnu skyldum við bera saman bækur okkar.

Ég óð brotið neðarlega, áin var svo mikil að ég hafði mig með naumindum yfir. Gekk síðan með brekkurótunum upp að strengjunum við Rauðuskriður, kastaði á þá en fékk enga svörun. Þá lá leiðin niður á móts við stóra klettinn þar sem áin fellur í Illaker. Ég átti bágt með að trúa því að ekki væri lax í Kerinu þrátt fyrir áðurgreinda yfirlýsingu. Það gæti ef til vill verið erfitt að fá hann til að taka. Þá mundi ég eftir bláu flugunni á silfurkróknum. Þótt laxinn hefði hundsað þekktari systur hennar hví ekki að reyna hana? Víst var að hann hafði aldrei séð slíkan grip áður. Ég hnýtti fluguna á tauminn og kastaði í strauminn. Flugan fór vel í vatninu og virtist hin girnilegasta en ekkert gerðist. Oftast tekur laxinn í strengtaglinu um miðbik hylsins. Best að fara aðra yfirferð. Vindur var hagstæður, stóð ofan gljúfrið og það var auðvelt að kasta. Þarna voru kjöraðstæður, nú hlaut hann að taka. Ég er nefnilega svo einfaldur að vera alltaf viss um að í næsta kasti taki hann og ég trúi aldrei fyrr en klukkan tíu að kvöldi að ég fari fisklaus heim.

Sennilega var það samt rétt sem sagt var í miðdegishvíldinni, að enginn fiskur væri í Illakeri. Ég hélt þó í vonina, áin var vatnsmikil, ef til vill lægi hann neðarlega og  hélt ótrauður áfram að kasta, var að lokum kominn næstum því niður á brotið þar sem vaðið er. Ég hugsaði mér mér að það væri svo sem í lagi að vera bjartsýnn en nú væri ég kominn niður fyrir allt velsæmi, bjó mig samt undir að kasta í síðasta sinn. Þá var sem eitthvað þungt bærist á línuna og eftir það gat ég litlu ráðið um framvindu málsins. Mér var ljóst að fiskur var á og hann ekki smár en fannst líka að ekki væri allt með felldu. Ég reyndi að fá laxinn upp í hylinn en það tókst með engu móti, hann virti óskir mínar og viðleitni að vettugi, tók strikið niður ána og stefndi í Kálfhagahyl.

Mér var nauðugur einn kostur að fylgja laxinum og drífa mig yfir ána ætti ég ekki að lenda í sjálfheldu. Var þá ekki farið á neinu vaði heldur göslast undan straumi beint af augum. Er upp á bakkann kom bað ég veiðimanninn þar afsökunar á trufluninni en spurði hvort ég mætti þreyta hjá honum í hylnum einn stórlax. Hann tók því ljúfmannlega en hafði á orði eftir svo sem tuttugu mínútur að sér fyndist laxinn hegða sér undarlega og láta illa að stjórn. Ég hafði þá þegar séð hvernig í öllu lá, litla flugan sat í hægri síðu laxins og voru þegar farnar að takast á í huga mér siðfræðilegar andstæður. Átti ég að taka þjösnalega á honum, reyna að rífa úr honum fluguna og verða þannig laus allra mála? Átti ég að freista þess að ná fiskinum, losa fluguna úr búk hans og sleppa þessum stóra, silfurgljáandi laxi? Eða átti ég bara að láta slag standa, þreyta hann, landa honum og rota hann og játa að ég væri ekki heiðarlegri veiðimaður en svo að ég hikaði ekki við að drepa ólöglega tekinn lax. Vonlaust að leyna ódæðinu, að því yrði vitni.

Þessar hugsanir létu mig ekki í friði. Fáir fiskar voru í ánni. Ég hafði engan lax fengið. Ekki hafði ég húkkað þennan lax viljandi - hann hafði fjandakornið krækt sig fastan sjálfur og þar að auki stefnt mér í talsverðan háska með því að teyma mig yfir ána í hrokavexti. Nei, þegar öllu var á botninn hvolft átti þessi lax ekki annað skilið en að deyja. Eftir að fiskurinn hafði spriklað sig á land - mér fannst hann allt að því landa sér sjálfur - hafði ég snör handtök, lokaði fyrir allar heilarásir og rotaði laxinn, losaði síðan öngulinn úr holdi hans. Þetta var sextán punda, hnallþykkur hængur.

Ég endurtók afsökunarbeiðni mína við veiðimanninn sem hafði verið verklaus í hálfa klukkustund, sagðist skyldu hafa mig burt og fannst það mátulegt á mig að þurfa að vaða ána enn einu sinni og fara í eins konar refsivist upp í Illaker.

Er yfir kom athugaði ég fluguna og hnýtti upp á taumnum. Furðulegt að þessi litli öngull skyldi halda svona stórum laxi því að átökin voru töluverð. Auðvitað var þetta óhapp en ekki ásetningur, enginn heilvita maður hefði reynt með svo smáum krókum að húkka fisk. Einhvern áhuga hafði þó laxinn sýnt þessu fyrirbæri. Skyldi ekki fiskur geta tekið þetta kríli á heiðarlegan hátt?

Ég byrjaði að kasta í strenginn, dvaldi þó nokkra stund við miðjan hyl þar sem tölfræðin segir að flestir laxarnir taki en ekkert bar til tíðinda. Þetta var sennilega vonlaust, fiskurinn áðan hafði verið á villuslóð og ólíklegt að annar rataði á sömu brautir. Það kostaði svo sem ekkert að ljúka verunni við Illaker með því að veiða sig niður á vaðið og fá svo að kasta nokkrum sinnum í Kálfhagahyl áður en haldið yrði niður í Ófærustreng.

Ég var að búa mig undir síðasta kast þegar fiskur tók. Hægt en ákveðið strengdist á línunni og ég fann þungann. Þetta var lagið. Þessi var rétt tekinn, sem betur fór. Greinilega stór lax. Hann lagðist niðri við botn. Ég færði mig niður fyrir hann þótt hann lægi rétt ofan við brotið. Lögmálið hljóðaði upp á að lax á færi synti í öfuga stefnu við átakið á línunni. En þessi lax hreyfði sig ekki. Ég tók fastar á honum en hann rótaði sér ekki fyrr en hann tók viðbragð, sneri sér svo að ólgaði af honum og þaut niður úr hylnum sömu leið og fyrri laxinn. Ég átti engra kosta völ, hélt á eftir honum, svamlaði yfir ána, fann þegar kalt vatnið seytlaði niður í vöðlurnar straummegin, en er upp á bakkann kom buslaði laxinn í miðjum Kálfhagahyl. Veiðimaðurinn þar hrökklaðist í annað sinn upp úr ánni, ég baðst enn á ný afsökunar á ónæðinu en er yfir lauk lágu tveir sextán punda hængar hlið við hlið í mölinni. Þeir voru nákvæmlega eins nema annar hafði smásár á síðunni. Bláa flugan hafði sannað sig. Trúin, vonin - og heppnin höfðu sigrað. Samviskunni sigaði ég út í hafsauga, tók sundur stöngina og fylgdist með félögum mínum freista gæfunnar það sem eftir var dags.

Höfundur Gylfi Pálsson

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði