2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
27.3.2020

Föstudagurinn þrettándi og stangir brotna - úr safni Flugufrétta

 Fyrir nákvæmlega tveimur vikum var föstudagurinn þrettándi. Yfir landið gekk Corona veiran og hrellti alla. Það var skammt stórra högga á milli, samkomubann, útgöngubann og flugsamgöngur ríkja hins frjálsa heims voru settar stífari skorður. Laugardaginn 14 mars var svo ákveðið að fólk sem kæmi erlendis frá Frakklandi, Austurríki, Spáni og Ítalíu skyldi allt sæta 2 vikna sóttkví burtséð frá einkennum. Nokkrum dögum síðar var svo ákveðið að allir sem kæmu erlendis frá skyldu sæta 2 vikna sóttkví óháð því hvaðan verið væri að koma. Hérna er frásögn um tiltrú á óhappadaga og hluti sem eiga það til að gerast sérstaklega á vissum dögum. 

 Við áttum báðar stangirnar á þriðja svæði í Eyjafjarðará og fórum þrír saman. Unnustan hafði beðið mig að fara mjög varlega því það væri föstudagurinn þrettándi. ?Iss,? sagði ég. ?Hver trúir á slíka bábilju?? Eftir viðburðaríkan dag í Eyjafjarðará liggur við að ég sé farinn að trúa á slíka bábilju. Dagurinn færði sumum lukku en mér endalausar þrautir.


Við vorum komnir á svæðið árla dags og ákváðum að byrja þar sem heitir Hagabreiða og er, að því er fregnir herma, oft krökkt af fiski. Þarna stóðum við nú þrír saman og skyggndum staðinn: ég með báðar bestu stangirnar mínar á lofti, nammikarlinn Bragi, sem hafði lofað Freyjukaramellu fyrir hvern veiddan fisk, og strákurinn Gunnar sem þekkti aðeins til á svæðinu, hafði því fengið að fljóta með og átti eiginlega að vera gædinn okkar.

Ein karamella á Hagabreiðu

Nammikarlinn horfði spekingslegur yfir breiðuna og glotti við tönn. Hann þukklaði karamellurnar í vasa sínum og hugði sér gott til glóðarinnar. Þeir byrjuðu en ég horfði á. Nammikarlinn óð út í miðja á og strippaði straumfluguna hratt yfir alla líklega tökustaði en strákurinn læddist niður fyrir breiðuna og lét púpuna reka ofan í lítinn poll undir stórum steini.

Eftir andartak heyrðum við strákinn blístra. Hann var með hann á! Við færðum okkur nær og fylgdumst með honum landa. Nammikarlinn dró upp Freyju-karamellu og veifaði henni framan í strákinn með stríðnislegu glotti. ?Ef þú nærð honum þá færðu eina svona,? skríkti hann og bætti við að hann ætti tíu til viðbótar í vasanum sínum. Strákurinn Gunnar tók feginshendi við góðgætinu og skömmu síðar átti hann tilkall til annarrar karamellu úr vasa nammikarlsins. Hann hafði nú tekið kvótann á aðra stöngina sem er tveir fiskar á vakt eða fjórir yfir heilan dag.

Með lögguna á hælunum

Fyrri vaktinni lauk þannig að strákurinn Gunnar hafði borðað þrjár Freyju-karamellur en við hinir vorum orðnir svangir. Því var farið inn á Akureyri í hléinu þar sem við fengum okkur staðgóða hamborgara á Bautanum. Á leiðinni aftur upp á þriðja svæði mættum við lögreglunni sem tók krappa U-beyju þegar hún sá stangirnar á bílnum og kveikti bláu ljósin til merkis um að við ættum að stansa.

?Dísus kræst,? sagði nú nammikarlinn í farþegasætinu. ?Fékkstu þér ekki bjór með hamborgaranum og það meira að segja tvo eða þrjá?? Eitt andartak svitnaði ég og sá ökuskírteinið í anda fjúka, en mundi síðan að þetta hafði bara verið pilsner. Nú brunaði löggubíllinn fram úr okkur og stöðvaði næsta bíl fyrir framan. Úff, það hlaut líka að vera - að föstudagurinn þrettándi sé óheilladagur er bara eins og hver önnur kerlingabók og bábilja.

Við gerðum okkur líklega til að hefja veiðiskap á breiðunni fyrir ofan neðri brúna á svæðinu. Ég steig út úr jeppanum, teygði úr mér og skellti hurðinni... á báðar uppáhaldsstangirnar mínar sem fóru í mask!

Metfiskur á okkar vakt!

Ég sagði félögunum að byrja og horfði á strákinn Gunnar vinna sér inn tvær karamellur. Það þurfti mikið viljaþrek til að geta byrjað aftur eftir að hafa brotið báðar stangirnar sínar en vinirnir töldu í mig kjarkinn og nammikarlinn lánaði mér stöngina sína. Eftir fáein köst efst á breiðunni sá ég tökuvarann sökkva og hún var á! Ég fann sætt karamellubragðið í munninum þegar nammikarlinn kom til mín og háfaði eina græna upp úr vasa sínum. Og þar með datt hún af! Ég rétti félaganum stöngina og fór upp í bíl þungur á brún. Þá kom þar aðvífandi faðir stráksins Gunnars, eldhress að vanda, og sagðist bara hafa ætlað að kíkja aðeins á okkur. Nú hringdi gemsinn í vasa stráksins sem rétti pabba sínum stöngina, hann tók eitt kast út á breiðuna og hún var á!

Pabbinn glímdi stutta stund við fiskinn en var ekki í góðri vígstöðu þar sem hann var aðeins á blankskónum og bað því son sinn að hætta þessu símamasi og taka stöngina. Strákurinn hlýddi og síðan fylgist ég með því úr bílnum hvernig hann glímdi í það sem virtist vera óratími við þennan fisk. ?Hvaða bull er þetta? Ætlar hann ekki að fara að landa þessum titti,? hugsaði ég með mér grautfúll undir stýri í bílnum mínum. Eftir ramman slag kom fiskurinn loks á land og þá sá ég hvers kyns var. Nammikarlinn kom hlaupandi og vildi troða í þá feðga öllum þeim karamellum sem hann átti eftir í vasa sínum. Bleikjan var gullfalleg og vóg átta pund!

 Allt er gott sem endar vel

Þessi fallegi fiskur hleypti kappi í okkur hina lánlausu og áður en degi lauk hafði okkur tekist að krækja hvor í sína bleikjuna en Gunnar hafði, ásamt föður sínum, séð um að taka það sem upp á vantaði til að við hefðum kvótann á báðar stangirnar. Þetta var því góður dagur!

Þegar við ókum heim á leið í kvöldhúminu hugsaði ég með mér hvað það er yndislegt að veiða með góðum félögum í fallegri á, jafnvel þótt maður brjóti báðar eftirlætisstangirnar sínar og gefist upp á að kasta í þann mund að átta punda kusa ákveður að taka agnið og þá hjá aðvífandi manni á blankskóm. Föstudagurinn þrettándi var eftir allt saman ágætur dagur.

Höfundur Ragnar Hólm

 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði