Ég fékk að kenna á þessum mikilfenglega fiski um verslunarmannahelgina. Veiðin var góð, fiskarnir stórir og sterkir. Slatti af fjögurra punda fiskum tóku, margir fimm punda og einn vel rúmlega sex punda eða jafnvel tæplega sjö punda fiskur lenti í háfnum.
Einn þeirra barðist löngu eftir að hann var kominn upp á bakkann. Hann var 58 sentímetra langur og vigtaði rétt rúm fimm pund. Sá tók fluguna við Dowdingssteina í landi Brettingsstaða, rétt ofan Vörðuflóa. Baráttan var skemmtileg og lengi vel var óljóst hvor myndi vinna, urriðinn eða Flugufréttamaður. Aflið í dýrinu var ótrúlegt og hann sýndi allt það sem Laxárurriðar eru frægir fyrir. Hann stökk einum fjórum sinnum og tók í tvígang hinn fræga sporðadans, þar sem hann rýkur áfram á sporðinum og dregur út alla flugulínuna og meira en það. Þrátt fyrir yfir 30 ára reynslu í Laxá fá þessir drjólar ennþá hjartað til að ólmast um allan brjóstkassann og hælana til þess að spila trommusóló í vöðluskónum.
Flugufréttir kváðu upp hinn óumflýjanlega dauðadóm yfir fiskinum, því fátt er betra á myrkrum vetrarkvöldum en spænskt rauðvin og taðreykur silungur frá Gylfa á Skútustöðum. Með hugsunina um væntanleg ánægjukvöld komandi vetur var hnífnum brugðið undir táknbarðið og í gegnum hálsæðina. Blessaður fiskurinn tók sinn síðasta kipp, ropaði og lá sem dauður væri.
Þar sem hnífurinn stóð í gegnum tálknin og blóðið rann úr fiskinum töldi Flugufréttamaður óhætt að opna ginið á dýrinu og losa fluguna. Agnið var ótrúlega fast í kvikindinu og þar sem fingurnir námu um fluguna skellti dýrið skoltum og beit veiðimanninn þannig að hann hljóðaði. Áverkinn var töluverður og það fossblæddi úr fingrinum.
Fiskurinn náði að hefna sín og veiðimaðurinn var rúma viku að ná sér. Vonandi bragðast hann vel í vetur þegar skafrenningurinn leikur við hvurn sinn fingur og kertalogarnir leika um stofuna. Þá stytta minningarnar um Laxá veturinn um marga mánuði!
Allt fast í botni.
Það viðurkennist að ég er afskaplega íhaldsamur hvað varðar fluguval. Oftar en ekki er sama flugan á heilu vaktirnar, jafnvel heilu dagana eða heilu veiðitúrana. Sú var raunin um verslunarmannahelgina. Fyrsta vaktin var í Hofstaðaey. Veiðitúrinn gat ekki byrjað betur, því það var einmitt í Hofstaðaey, nánar tiltekið í Vörðuflóa, sem ég setti í minn fyrsta flugufisk árið 1974. Þá var ég burðardýr fyrir tvo höfðingja, föðurbróður minn og Guðmund Árnason, kenndan við Árvík. Meðan þeir fengu sér bita fékk strákurinn að kasta, enda hafði hann verið á námskeiði þá um veturinn hjá þeim félögum og fóstbræðrum Kolbeini Grímssyni og Þorsteini Þorsteinssyni.
Ég fékk stöng föðurbróður míns og var snöggur að klippa af annars gjöfula flugu, Peter Ross, tvíkrækju númer 12. Undir setti ég Black Ghost straumflugu númer 4. Í fyrsta kasti tók fimmpundari. Þá hélt ég að fluguveiði væri leikur einn, en annað átti eftir að koma á daginn.
Reynslan hefur reyndar kennt mér að áin þessi er sennilega einhver sú erfiðasta sem finna má á landinu og jafnframt ein sú hættulegasta, eins og ég fékk að reyna um helgina. Þá átti ég Helluvað, eitthvert fallegasta og fjölbreyttasta veiðisvæði árinnar. Hinar stangirnar tvær örkuðu beint niður í Steinbogaey, enda höfðu borist fregnir af mikilli veiði þar daginn á undan. Ég byrjaði efst í Brotaflóanum og setti fljótlega í einn sem var um það bil þrjú pund. Hann fékk að lifa.
Eftir nokkur köst labbaði ég niður með flóanum að austan verðu og fylgdi fyrstu lænunni sem rann í þá átt. Þar á ég lítinn leynistað sem gaf mér höfðingja sem var hvorki meira né minna en 62 sentímetrar að lengd. Eftir skemmtilega viðureign hélt ég áfram, þangað sem annar aðal strengurinn kemur úr Brotaflóanaum. Þar er fallegur staður sem gaman er að kasta á, þótt hann hafi aldrei gefið mér mikla veiði. En ég reyndi. Gekk eftir traustum sandbotni, að ég hélt. Sólin var farin að skína eftir heldur leiðinlega tíð, þar sem hitinn fór niður í fjórar gráður, þokan gældi við hattbörðin og rigningin var ekki langt undan. En nú var sólin sem sagt farin að skína og flugan komin á kreik.
Þar sem ég var að dásama náttúruna og móður jörð gaf trausti botninn sig og annar fóturinn sökk í sandbleytu, sannkallað kviksyndi alveg upp að hné og ég gat ekki hreyft hann. Það var násast eins og ég hafi stigið fætinum í steinsteypu, svo fastur var hann.
Þá tók ég verulega á því...
Nú voru góð ráð dýr. Þar sem ég hafði áður vaðið í hnédjúpu vatni var ég sokkinn upp að hné og vatnið náði mér upp á miðja bumbu. Ég kraup á öðrum fætinum og hinum haggaði ég ekki, hvernig sem ég reyndi. Mér létti þegar ég gat gert veiðimanni vart við mig en honum virtist meira brugðið en mér, því hann greip símann sinn og ætlaði að kalla til björgunarsveit. Ég náði að stöðva það og byrjaði að grafa með stönginni sem ég stakk niður með fætinum og notaði hjólið til að róta sandinum frá. Ekki gekk þetta sem skyldi. Greip ég því til þess ráðs að nota aðra höndina, þótt ég þyrfti að fara á kaf með hana upp að öxl. Ég gróf að aftanverðu og var kominn niður á miðjan kálfa þegar mér loksins tókst að hreyfa hælinn. Þá notaði ég alla þá krafta sem ég bjó yfir og tókst að rífa mig lausan!
Þótt ég hafi ekki beinlínis verið í lífshættu geri ég ljóst að þarna hefði geta farið mun verr. Því brýni ég það fyrir sjálfum mér og öðrum að það er aldrei og varlega farið.
-þgg
Höfundur Þorsteinn G. Gunnarsson
Mynd Einar Falur