2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
6.4.2020

Sagan af vöðlunum dýru - úr safni Flugur.is

Guðni Kolbeinsson varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu þegar nýjar og fokdýrar vöðlurnar hans hurfu í veiðihúsinu við Laxá í Mývatnssveit. Honum reiknast til að á hvern tíma hafi þetta verið ákaflega dýrar vöðlur.  Honum segist svo frá: Veiðitúr í Laxá í Mývatnssveit. Dásamlegt. Við hjónin í sumarbústað uppi í Hvalfirði fram á fimmtudag, svo bara drífa sig norður og byrja að veiða á föstudag. 

Af því að ég er fyrirhyggjusamur maður gerist ég duglegur á fimmtudagsmorgninum í fögru veðri við Hvalfjörðinn og fer yfir allt dótið mitt. En vei, ó vei! Vöðlurnar eru ekki með, og ekki varavöðlurnar heldur. Ég hringi í dóttur okkar hjóna sem ætlar að koma upp í bústaðinn um kaffileytið og bið hana að leita að vöðlunum úti í skúr, nú, eða uppi í geymslu. Þetta séu grænar vöðlur og svo aðrar gráar sem ég ætli að hafa með til vara. Skömmu síðar segist hún hafa fundið hvorartveggja vöðlurnar og ég bíð spenntur og tilbúinn til brottfarar.

En vei, ó vei! Hún kom með þær gráu sem nota átti til vara, en grænu vöðlurnar sem hún kom með voru ævafornar neoprene-vöðlur. Ég ákveð að drífa mig í bæinn og finna vöðlurnar. Ég geri það - nema hvað ég finn ekki vöðlurnar, klukkan að verða sex og eftir að fara í verslun sem er lokað stundvíslega þá. Ég hendist því niður í bæ, í búðina sem lokar stundvíslega og síðan í Veiðihornið - sem lokar ekki alveg á mínútunni. Þar kaupi ég mér glæsilegar nýjar vöðlur; og ekki úr einhverju öðru texi, eins og ég hef gert fram að þessu, heldur úr hinu goðumlíka goritexi. Fyrir flíkina greiði ég á fimmta tug þúsunda - en þá er ég líka vel settur í allt að þrjú sumur. (Vöðlur úr goritexi endast betur en hinar; þær eru nefnilega svo miklu dýrari að það borgar sig lengur að gera við þær.)

Við hjónin ökum norður í Mývatnssveit og síðdegis næsta dag skrýðist ég vöðlunum nýju, veð eins og vatnaskratti um alla á, kasta og geng heil býsn. Ég veiddi reyndar ekki neitt - en það var ekki vöðlunum að kenna; þær voru fínar. Glæsileg flík og stórgóð í alla staði.
Morguninn eftir hlakka ég beinlínis til að fara í þessar frábæru vöðlur sem anda fyrir mann og eru svo duglegar til gangs. En vei, ó vei, ó vei! Vöðlurnar eru horfnar. Einhver hefur tekið þær í misgripum. 

Eftir langa og sorgfulla þanka og vandræðagang fer ég í þær gömlu gráu og veiði í þeim fyrri part dagsins. Bendi svo á þessi mistök í middagsmatnum og bið um leiðréttingu á þeim. Þeirri málaleitan er tekið af skilningi, allir vorkenna mér og trúa ekki öðru en vöðlurnar komi í ljós áður en pásan er úti. En svo varð þó ekki - og þær komu ekki fram allan veiðitúrinn og ekki enn.

En ég skrifa þetta greinarkorn til að undirbúa umsókn til Heimsmetabókar Guinnes um að hafa þurft að þola dýrustu vöðlunotkun í heimi (ef ég sé ástkærar vöðlur mínar ekki framar). Ég var í þeim nýju fínu í sex klukkutíma og reiknast mér til að kostnaðurinn sé rúmar 7.000 krónur á tímann - og er þá ekki talin með ferðin til Reykjavíkur til að kaupa þær; akstur, tími og gangagjald.


Það er oft gott að vera í góðum vöðlum. 

flugur.is bæta við: Ef vöðlurnar koma fram löngu eftir að vertíð lýkur munu þær líka komast í Heimsmetabókina, út á það!
 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði