Kæru veiðimenn. Veiðitímabilið er hafið með ofsaveðri og snjóbyl. Skítakuldi á öllu landinu, svo kalt að bæði línur og taumar frjósa. Það þarf styrk til að standa á bakkanum þó svo að vel veiðist því kuldabolinn bítur fast. En á meðan við stöndum á bakkanum þá gleymum við öllu covid, horfum á rennsli árinnar, tökuvarann og sjáum fyrir okkur hvar fiskurinn muni taka næst.
Fyrir þá sem eru ekki svo lánsamir að eiga veiðileyfi til að standa úti í þessum barningi en eru samt þyrstir í veiðifréttir, myndir og hugmyndir þá er gott að geta fylgst með í gegnum vefinn. Við hjá Flugur.is sendum vikulega Flugufréttir í pósthólfið þitt og á hverjum degi setjum við inn nýjar fréttir eða endurnýttar sögur.
Okkur langar að benda lesendum okkar sérstaklega á Angling IQ appið sem er bæði til fyrir Android og Apple. Þar er hægt að finna rafrænar veiðibækur fjögurra frábærra vorveiðisvæða sem uppfærast í rauntíma dag hvern. Þeas ef veiðimenn eru duglegir að skrá jafn óðum.
Harpa og Stefán í Iceland Outfitters með flotta sjóbirtinga úr Leirá. Sjóbirtingurinn hefur stækkað og honum fjölgað ört síðan IO tóku við svæðinu og öllu er sleppt aftur.
Í Angling IQ appinu eru Tungulækur, Húseyjarkvísl, Eldvatn og Litlaá í Kelduhverfi með sínar veiðibækur. Það skemmtilega sem þessi flottu svæði eiga sameiginlegt er að þarna er aðeins stundað veiða og sleppa. Það hefur gert þau virkilega aðlaðandi og veiðin hefur byggst upp jafnt og þétt enda alúð sett í starfið. Sjóbirtingurinn launar svo lífgjöfina með því að mæta aftur og aftur til hrygningar. Það hefur verið góð veiði á þessum svæðum til að mynda voru tæplega 150 fiskar komnir í bók og aftur út í á í Litluá að kvöldi dags 4 apríl. Í Tungulæk voru sjóbirtingarnir orðnir 106, fantaveiði og margir virkilega flottir 70+cm fiskar. Á opnunardaginn í Húseyjarkvísl komu um 30 fiskar á land og þar voru veiðimenn saddir eftir góðan dag, ekkert meira veitt í því holli. Það er gaman að skoða yfir veiðibækurnar, sjá hvað fiskarnir eru að taka, hversu stórir þeir eru og hvaða veiðistaðir eru að gefa best. Þetta verður sérstaklega spennandi ef veiðimenn eru á leiðinni á svæðin.
Myndir frá Angling IQ og IO outfitters