2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
22.4.2020

Draumasumarið: Bjarni Júlíusson - úr safni Flugur.is

Næstur til að setja upp sitt draumasumar er Bjarni Júlíusson fyrrverandi formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Það verður að segjast að þessi draumasumur hljóma helv....vel. Forsíðumynd af Bjarna úr opnun Norðurár og er frá Einari Rafnssyni. 

 

 

 

 

 

 

 


1.apríl í Tungufljóti.  Karl í krapinu!


Stangaveiðiárið á Íslandi spannar nærri sjö mánuði. Það hefst þann 1. apríl, en þá má veiða silungs í straumvatni og lýkur þann 20. október, þegar sjóbirtingsveiði sleppir. Í rauninni má auðvitað veiða allt árið, ef menn vilja reyna vatnaveiðina og ísdorg. Sumir vilja kannski veiða allt sumarið, stanslaust og botnlaust, en sjálfur tel ég að það megi gera of mikið af öllum góðum hlutum og eftir vandlega íhugun þá held ég að draumasumarið mitt gæti litið svona út.

Mig langar til að byrja þann 1. apríl í sjóbirtingi fyrir austan fjall, helst í Tungufljótinu. Þarna höfum við vinirnir náð úr okkur veiðihrollinum, undanfarin ár. Stundum gert ágæta veiði, stundum hefur íslenski veturinn reyndar haft af okkur veiðina. En þarna er alltaf gaman að byrja. 

Næsta ferð þarf að vera í Norðurá. Helst vildi maður nú vera þar í opnun. Ekkert jafnast á við það að fá að taka fyrstu köstin á Eyrina í upphafi sumars. Oftar en ekki hefur maður náð laxi í þessari fyrstu bunu veiðisumarsins, sterkan og stæltan tveggja ára lax. 

Næst vil ég fara í Kjarránna, og glíma við vorlaxinn þar, helst auðvitað í opnuninni sjálfri, 15. ? 18, júní. Ef ég ætti mér val, þá vildi ég byrja á efri svæðunum, fá að taka fyrstu köstin á Efra Rauðaberg og það Neðra. Svo er ég viss um að í Wilson liggja nokkrir og ef það er sæmilegt vatn, þá gætu þeir legið fyrir ofan beygjuna við klapparnefið. Svo er bunki af flottum stöðum þegar neðar kemur í ánni, Réttarhylur, Langidráttur, Prinsessur, Grænhylur og Runki. 

Nú væri maður orðinn sæmilega sáttur eftir tvo góða vortúra og ágætt að hvíla sig fram að mánaðarmótum júní/júlí. En þegar smálaxagöngurnar fara að hellast inn í Norðurá vil ég vera kominn á stjá aftur. Það væri hæfilegt að mæta í hollið 9. ? 12. júlí. Ef vel tækist til, gæti þetta orðið svona 40 ? 50 laxa ferð, á stöngina. Að lenda í göngu á Stokkhylsbrotinu að morgni, er einfaldlega ótrúleg upplifun

Næsta kynslóð tekur við. Hafþór Bjarni fjögurra ára með fyrsta fiskinn.  Kippir í kynið.

Nú væri ég orðinn veiðisaddur. Næstu vikurnar myndi ég skjótast í silung af og til. Sjóbleikja í Hraunsfirði og smáurriði í Selvallavatni, væri kærkomin á grillið. Það er virkilega gaman að glíma við bleikjuna með léttum og skemmtilegum búnaði. Að nota fjarka á 2 ? 3 punda bleikjur getur verið alvöru slagur.

Eitthvað annað an krapið!  Presthylur í Aðaldal. Hér liggja þeir stóru.

Í ágúst myndi ég vilja setja saman tvíhenduna og renna norður í Laxá í Aðaldal og heilsa uppá vini mína þá Hermóð og Árna Pétur Hilmarssyni, á Nessvæðinu. Ekki væri lakara ef hann Bubbi væri á svæðinu líka. Þarna liggja þeir stóru og í hverju einasta holli glímir að minnsta kosti einn veiðimaður við alvöru tuttugupundara eða þaðan af stærri fisk. Sjálfur náði ég einum höfðingja þar í fyrra og missti fisk sem ég veit að hefur verið nær 30 pundum. Svo er bara svo fallegt þarna við ánna. Vitaðsgjafi, Kirkjuhólmakvísl, Grástraumur ...

Það er von að Nessvæðið heilli!  20 pund.
 
Nú taka við rólegir dagar og tvær hefðbundnar veiðiferðir í Hítará. Fyrst með hjónahollinu, en við erum nokkur vinahjón sem höfum farið þarna á hverju sumri í fimmtán ár og vonandi eigum við eftir að veiða þarna saman í áratugi til viðbótar. Þetta er svo yndislegur félagsskapur að mér er eiginlega alveg sama hvort ég fæ fisk eða ekki. En Draumasumarið verður að innihalda þessa ferð. Viku síðar fer ég þarna aftur með stórfjölskyldunni. Langidráttur og Grettisstiklur eru gríðarlega skemmtilegir staðir, sneisafullir af laxi !
 
Hjónin veiða, Þórdís Klara með 'ann á.
 
Svo taka við nokkrar ferðir í Stóru Langadalsá, kannski lax, kannski bleikja og örugglega sjóbirtingur.

Draumasumarið verður svo að ná til einnar ferðar í Stóru Laxá, snemma í september, helst þegar fyrstu haustrigningarnar hellast yfir suðurlandið. Vinur minn einn náði sex dögum þarna í fyrrahaust, þeir voru tveir saman og fengu næstum 100 laxa. Flestum var gefið líf, sem betur fer, því Stóra Laxá þarf á hjálp okkar að halda í þessum efnum. Nú er sumri farið að halla, en ekkert sumar er fullkomið öðru vísi en maður nái einni góðri sjóbirtingsferð. Helst í Tungufljót eða Grenlækinn. Þar væri vel við hæfi að taka síðustu köst sumarsins í Grafarhyl, taka þar 18 punda hrygnu og gefa henni svo líf.
 
Fullt af góðum minningum.

Þvílíkt sumar, þvílíkar minningar sem þetta myndi gefa manni. En það besta er nú samt að allt sem þarna er lýst, hef ég upplifað, að vísu kannski ekki á einu og sama sumrinu, en það er alveg ljóst að veiðigyðjan hefur brosað til mín í gegnum tíðina og það hafa verið forréttindi að fá að njóta þessara veiðiferða með fjölskyldu og góðum félögum. Ég á mér þá ósk heitasta og börnin mín og börnin þeirra geti notið þessara hluta líka. Til að það sé unnt þurfum við öll að hjálpast að og ganga vel um þessa auðlind, sleppa stórum löxum og sýna náttúrunni þá virðingu sem henni ber.

Viltu fá brakandi ferskar Flugufréttir í pósthólfið hjá þér vikulega á meðan á veiðitímabilinu stendur? Skráðu þig hérna!  
 
12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði