Ég myndi svo renna við í Soginu og fara í Bíldsfellið og prófa bleikjuna þar. Vorveiðin getur verið ansi góð og ansi léleg, þarna hef ég hitt á feiknaveiði og alls enga dögum saman og allt í bland. Fín bleikja og agnið er Pheasant tail á grubber með koparhaus, allar stærðir reyndar. Svo myndi ég reyna að hlera menn með Þingvallavatn í þessum mánuði og skjótast ef eitthvað er að gerast, reyna að fá þaulvanan Þingvallavatnsmann með mér því ég á svo margt ólært þarna. En flott er hún bleikjan og margir leynistaðir, sumir geyma góða urriða. Maí yrði því frekar rólegur fyrri partinn.
Undir lok maí leitar hugurinn norður. Ég kem við í Lónsá í Þistilfirði og ætla mér 3-4 daga, það getur verið að maður hitti á góða sjóbleikju en krían svíkur aldrei og norðlenska vorið er stórkostlegt um þennan tíma, dvöl út við ysta haf í grennd við heimskautsbaug á þessum tíma er á við margar endurhæfingarstöðvar. Við hnýtum marfló hér og reynum mörg afbrigði.
Nú liggur leiðin í Mývatnssveit. Urriðaopnunin er komin um mánaðamótin maí-júní og ég er mættur! Góðir félagar líka og mikið spurt um ástandið í ánni, þroska lirfu og þess háttar. Oftast hef ég fengið góða veiði í opnunni, stundum mjög góða, en líka verið svakalega ,,óheppinn" svo ég kannast við allar kenndir. Hér veiðir maður í 3-4 daga úr því að þetta er sjálfvalið og passar að komast á alla helstu staðina. Þyngdar púpur eins og Pheasant tail virka vel, og Ofur-Rektor með keiluhaus er ómissandi ásamt svörtum Nobbler. Nú er liðin fyrsta vika í júní og best að litast um. Jú, Norðurá er eina laxveiðiáin sem vit er í að sækja heim svona snemma svo ég bóka næsta holl á eftir opnun fyrir mig og prófa þetta svæði í fyrsta sinn. Ég hef veitt í Munaðarnesi og uppi við heiðarrót, en aldrei á kjörsvæðinu svo nú skal það prófað þótt snemma sé. Hér er hægt að una sér í 3-4 daga ef allt gengur vel og miður júní fer að nálgast. Ég býst við að maður reyni að sýnast flottur og nota flottúbur eins og Sun Ray og fleiri enda hlýtur veðrið að vera gott. Þrátt fyrir að félagarnir segi mér að ég verði að nota sökktúbur þráast ég við og neita. Enn er allt rólegt í laxinum og silungsvötnin ekki komin á fullt, nema Þingvallavatn. Þangað fer ég nokkra góða morgna með þaulkunnugum manni og hann kennir mér marga leyndardóma. Við tökum líka dag í Hlíðarvatni aftur og svo er komið að því að Veiðivötn og Arnarvatnsheiði bjóða góðan dag.
Arnarvatnsheiði. Kem alltof sjaldan þangað en á góðar minningar. Nú fæ ég að veiða heilt sumar án afskipta vinnu eða annarra hagsmuna og sleppi ekki heiðinni.
Það er alltaf spurning í lok júní hvort vötnin efra séu orðin nógu hlý, en ég er ráðinn í að tryggja mér opnun í Veiðivötnum og vera 3 daga, og svo sem leið liggur upp á Arnarvatnsheiði og liggja við í 2-3 nætur eða svo. Veiðivötn gætu verið of köld fyrir fluguna, en einhvers staðar er hægt að bera niður, og á Arnarvatnsheiði fær maður örugglega útsýni á við það besta í heimi þegar Eiríksjökull baðar sig í morgunsól; þá er gaman að prófa ný vötn. Þetta er búin að vera fín silungsveiðiskorpa í rúman mánuð og kominn tími til að lita á laxinn enda júlímánuður að heilsa. Elliðaárnar eru komnar í gang í byrjun júlí svo ég fæ mér dag þegar ég kem ofan af heiði, svona meira fyrir sportið og meðan maður nestar sig upp fyrir næstu túra.
Og nú þarf að velja vel. Til að slaka á valkvíðanum fer ég í Miðfjarðará og hef þá tekið fyrstu laxveiðidagana í Húnavatnssýslum ef Norðurá er undanskilin. Þá er betra að fara að hugsa niður á Suð-Vesturhornið. Ég er aðeins í vafa, en af því að 10.júlí er ekki kominn veðja ég á Norðurá umfram aðrar og tek aftur rennsli þar smá stund. Afgangurinn af mánuðinum er reyndar bókaður. Ég hef aldrei veitt í Haffjarðará svo hún er næst. Þetta er sannkallað draumatækifæri og ég læt ekki á móti mér að vera þarna í 3-4 daga. Af þeim stórám á svæðinu sem ég þekki, Grímsá og Kjósinni, segir ekki svo margt í mínum huga að ég velji daga þar. Margir hneykslast á því. En í staðinn ek ég út á Snæfellsnes og fæ að eiga Staðará fyrir mig og mína í 3-4 daga og veiði sjóbirting eins og ég eigi lífið að leysa. Þaðan fer ég svo í Borgarfjörðinn og tek góðan tíma í Þverá sem ég hef aðeins veitt að hausti, og í Kjarrá, sem ég hef aldrei sótt. Þetta er happdrætti. Þverá á það til að gefa aðeins lax á örfáum stöðum um þetta leyti árs. Kjarrá er þá tilraunarinnar virði. En ég er ekkert á því að líta við í Rangánum þegar þessar ár eru í boði, ég var búinn að herja á Sogið, Norðurá búin, en já, Flókadalsá! Hana hef ég aldrei sótt og tek því 2-3 daga undir lok júlí því ég veit að þar eiga menn oft gott næði. Ef ég get skotið Veiðivatnatúr inní í 2 daga þarna á milli myndi ég gera það, vötnin eru nú örugglega orðin hlýrri og gróður að koma til, maður verður að sjá þessa dýrð í bæði vor og sumarbúningi. Tek væntanlega átta punda urriða á Shaggy dog. Hann er stærri en laxarnir sem ég fékk í Norðurá, Haffjarðará og Flókadalsá, og miklu stærri en fiskurinn sem ég tók í Elliðaánum. Svona eru nú urriðaveiðar í samanburði við smálaxaveiðar.
Jamm. Vitaðsgjafi gaf mér þennan og nú ætla ég að leika saman leikinn aftur!
Nú leitar hugurinn norður. Það líður að Verslunarmannahelgi og á leiðinni á silungasvæðið í Hofsá kem ég við í Aðaldalnum og fer beint á Nessvæðið. Þar er gott að koma og nú má heita öruggt að stóru höbbðingjarnir eru mættir. Vitaðsgjafi er fyrsta val, en Grástraumur, Skriðuflúð og Fossbrún bíða þarnæst. Hér er ég búinn að tryggja mér nýja flugu, gárutúbuafbrigðið af Dimmblárri! Ein og hálf tomma að lengd og ég trúi ekki öðru en hún negli fiska. Hér má una sér vel, við erum með bókina hans Bubba með og skoðum myndirnar í pásum! Og svo skoðum við bókina hans Jakobs og lesum enn einu sinni söguna af þeim stóra í Höfðahyl, því þar köstum við líka.
Nú er ég orðinn svangur eftir að hafa sleppt öllum laxinum á Nessvæðinu. Þá næ ég mér í sjóbleikju á silungasvæðinu í Hofsá yfir Verslunarmannahelgina og nýt þess að pilla þær upp á þurrflugu.
Unaðsmorgunn með þurrflugu í Hofsá.
Ég skýst eina eða tvær vaktir yfir heiðina í Föguhlíðarárósinn seint að kvöldlagi og nýt einverunnar. En nú stendur mikið til. Úr Selá á ég góðar og aðrar blendnar minningar, hef veitt þar nokkrum sinnum og sleppi ekki þessu tækifæri. Hún er ,,stóra" áin, allt svo tröllslegt við hana. Líka fiskarnir, þar fékk ég minn stærsta til þessa dags (hafi ég ekki náð honum í Aðaldalnum vikuna áður).
Ég tek Selá, byrja neðst og veiði mig alla leið upp á efra svæði. Eitt sinn átti ég pantaða daga á efra svæðinu og búinn að bóka þegar hringt var og afbókað: Kaupþing ætlaði að vera á neðra svæðinu og þeir vildu ekki umferð um ána svo þeir tóku efra svæðið líka! Nú skal þess hefnt.
Og þá aftur í Hofsá, en nú á Prins Charles svæðið. Þarna hef ég veit, en ekki á besta tíma og nú er hann kominn enda að síga undir miðjan ágúst. Þetta er undurfalleg á, flugan veiðir sjálf ef maður nær að koma henni frá sér, hver strengur á fætur öðrum, maður er einn á svæði og ekkert stress. Hann er gráðugur í gárubragðið. Hér og nú hef ég trú á iðu Kristjáns Gíslasonar, en auðvitað er Sun Ray óskapleg hér eins og annars staðar.
Og áfram skal haldið um norð austur hornið. Hafralónsá er á óskalista, þar hef ég aldrei veitt og nú skal hún könnuð enda ekki komið nóg af stórlaxi! Hún ætti að vera fín þarna í síðari hluta ágúst. Á leið suður velti ég fyrir mér hvar eigi að bera niður, Fnjóská er fjarska skemmtileg, Eyjafjarðará líka. Ég bý til 10 daga skemmtiprógramm á leið úr Hafralónsá: Laxá í Mývatnssveit í urriða, það er þurrflugutími, tek svo dag í Fnjóská upp á sportið, lít svo við í Eyjafjarðará í bleikjuna og þá er ég bara nokkuð góður með ágúst. Um mánaðamótin á ég svo bókað í Miðfjarðará aftur því fyrri heimsókn var ekki á besta tíma og nú er vert að skoða hana betur.
Og þá haustar að. Fyrri hluti september fer í laxveiði held ég. Þverá aftur því nú hefur laxinn dreift sér. Tek svo Laxá í Dölum því hún er mjög góð að sögn þarna í byrjun sept og mig langar að kynnast henni. Nú notar maður dökkar flugur og ég hef mikla trú á Undertaker á kvöldin. Eftir miðjan september langar mig að kíkja í sjóbirting. Flóðið í Grenlæk hefur ekki staðið undir sér að undanförnu, svo ég fer í Tungufljót og Tungulæk og leita uppi þá stóru. Þetta er mikið fjör. Stór Black Ghost gaf mér einu sinni 11pundara í Tungufljóti svo ég nota hann mikið. Og af því að maður er næstum útveiddur og ég á flakki þarna um kem ég við í Eldvatnsbotnum til að kanna ástandið. Ég spyrst fyrir um það á bændagistingum hvar sé verið að taka slátur og panta gistingu einmitt þar, því nú er maður orðinn svangur eftir alla þessa veiði.
Gleymi ég einhverju? Gott væri að fá ábendingu um það.