2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
24.4.2020

Eitt samfellt ævintýri - Grímur Jónsson, höfundur Snældunnar - úr safni Flugur.is

 Sex ára drengur stóð hnarreistur í hnéháum stígvélum úti í sjó við Rauðarárfjöruna, hélt á sauðalegg sem hann hafði vafið snæri um og kastaði. Beitan var innyfli úr fiski sem hann hafði fundið í fjörunni, enda hentu trillukarlar slorinu gjarnan þangað. Koli beit á - og þar með hafði Grímur Jónsson veitt sinn fyrsta fisk - en alls ekki þann síðasta.

Grímur Jónsson er fæddur árið 1926 og því liðin 78 ár frá veiðiferðinni góðu niður að Skúlagötu, sem þá hét Hringbraut.
,,Ég er fæddur á Norðurpólnum," segir hann og bíður andartak eftir viðbrögðum. Brosir svo og segir: ,,Já, húsið sem ég fæddist í hét Norðurpóllinn og stóð við Hverfisgötu 125. Nú er verið að byggja á staðnum sem það stóð á, en hins vegar er verið að koma Norðurpólnum í upprunalega mynd og verður flutt á svipaðar slóðir og það stóð á áður. Ég man nú ekkert eftir mér í þessu húsi, því þegar ég var tveggja ára byggði pabbi hús á móti Norðurpólnum og þangað fluttum við.  Þarna var hálfgerð sveit á þessum tíma. Á Rauðará var búskapur, kýr og hestar, svo þar var heyjað og þar voru líka matjurtargarðar með kartöflum og rófum - sem kom sér vel þegar skyggja tók. Þá fórum við krakkarnir og nældum okkur í eina og eina rófu," segir hann og brosir við endurminningunum. ,,Okkur fannst þetta mikið ævintýri. Það er margs að minnast frá bernskuárum mínum við Hverfisgötuna. Ég man til dæmis vel eftir vatnsþrónni sem stóð við Hlemm. Á haustin þegar fé var rekið í sláturhús komu bændur með fleiri hundruð fjár, hunda og hesta, ríðandi allt að eitt, tvöhundruð kílómetra leið. Þeir ráku féð niður Laugaveginn, framhjá vatnsþrónni, niður fyrsta stubbinn af Hverfisgötunni og beygt niður þar sem nú heitir Snorrabraut. Þar vestur Hringbraut, þar sem Skúlagatan er núna  þar til komið er framhjá Vitastíg þar sem  Sláturhúsið var.  Hundarnir voru orðnir svo sárfættir að þeir gátu varla gengið, svo sumir bændanna tóku þá á hnakknefið hjá sér."

Grímur Jónsson: ,,Ég held að áhugi á veiðimennsku sé meðfæddur."

Grímur fékk að kynnast lífinu til sveita á sínum yngri árum, enda segir hann móður sína hafa á hverju sumri farið með hann og tvo eldri bræður hans í sveit:
,,Á sumrin var ég oft á Kárastöðum í Þingvallasveit. Guðrún húsfreyja á Kárastöðum, gift Einari hreppsstjóra, var systir pabba. Það var mikill samgangur þar. Móðir mín fór alltaf á sumrin með okkur í einhvern tíma út í sveitina. Eitt sumarið vorum við að Klébergi á Kjalarnesi og þangað kom flutningaprammi frá Pípugerðinni á Rauðarárstíg og  karlarnir voru að keyra möl út á prammann í heila viku og síðan var hann dreginn í höfnina í Reykjavík, skipað upp og flutt upp í Pípugerð. Um haustið fengum við far til Reykjavíkur með prammanum sem ég man vel eftir."

Líf og fjör með trillukörlum

En þótt gaman væri í sveitinni að mati Gríms, voru árin við Hverfisgötuna ekkert síðri. Ævintýrin voru á hverju strái hjá Grími og vinum hans. Ekki aðeins að stelast í matjurtargarð eftir einni rófu, því í fjörunni var mikið líf og fjör:
,, Beint fyrir neðan verksmiðjuna Hörpu voru trillukarlarnir. Þeir lögðu upp í fjöruna þarna nokkrir bátar og þarna var heilmikið líf. Þeir voru að gera að fiskinum, hentu slorinu út í sjóinn eða fjöruna og í þetta kom fiskur;  koli, ufsi og fleiri tegundir. Það var okkar líf og yndi að vera í kringum þetta. Þar veiddi ég minn fyrsta fisk þegar ég var líklegast svona sex ára.  Pabbi var á togara og kom úr siglingu með ægilega fín hnéhá stígvél handa mér og ég þurfti auðvitað endilega að prófa þau. Ég útbjó mér því veiðitæki; vafði snæri upp á sauðalegg og lagði af stað borubrattur til veiða.  Ég fór niður í Rauðarárvíkina og óð eins langt út í sjó og nýju stígvélin leyfðu - og veiddi minn fyrsta kola milli lappanna á mér! Beitan var sjálfsagt innyfli úr fiski sem ég hef fundið í fjöruborðinu. Ég var voða montinn að veiða þennan kola svona ungur! Þarna vorum við öllum stundum krakkarnir að veiða á Rauðarárklöppunum. Þetta var flöt klöpp sem flæddi að og þar veiddum við kola, ufsa og marhnút."

Meðfæddur áhugi

Grímur telur ekki að ala þurfi börn upp í áhuga á veiðimennsku, hún sé meðfædd:
,,Ég held að ég hafi fengið áhuga á veiðimennsku með fæðingu. Ég held að sá áhugi sé innbyggður. Þetta gekk út á veiði og að afla matfanga hjá fólki í gamla daga og maður smitaðist af þessu. Við vorum þrír bræðurnir og ég var yngstur. Við vorum ágætis vinir og síðar urðum við miklir veiðifélagar, ég og eldri bróðir minn, Sigurður Eggert. Við veiddum víða; í Laxá í Dölum, Svartá, Miðfjarðará og víðar. Hann dó alltof fljótt, hann var rúmlega fertugur þegar hjartað gaf sig. Ég man eftir síðasta veiðitúrnum sem við áttum saman við Elliðaárnar. Við vorum hjá Eddubæ, sem er kallað Árbæjarhylur núna, og þegar við vorum að ganga upp á móti bað Sigurður mig að bíða, því mótvindurinn fór illa í hann. Hann lést það haust." 

Grímur elur upp nýjar kynslóðir í veiðimennsku Hér er hann að sýna sonarsonunum Huga Þeyr og Ásgrími hvernig á að bera sig að, en strákarnir veiddu báðir sinn fyrsta lax fimm ára.

Þekkir Elliðaárnar jafn vel og buxnavasana

Grímur gjörþekkir Elliðaárnar, enda var hann ekki hár í loftinu þegar hann veiddi þar fyrst og Elliðaáin var fyrsta áin sem hann datt út í:
,,Þegar ég var strákur hjólaði ég inneftir og veiddi þar lontur - smásilunga. Þetta var löng leið að hjóla, fjórir,fimm kílómetrar, en ég lét það nú ekki á mig fá. Þetta var því heilmikið ferðalag. Einhverju sinni kom ég á fljúgandi ferð á hjólinu, rakst á grjót í bakkanum og hentist út í á, þar sem ég lá flatur! Það var í fyrsta, en ekki síðasta skipti sem ég lenti úti í á!  Þegar ég fullorðnaðist, í kringum 1950, fór ég reglulega til veiða í Elliðaánum, sem ég hafði þá fylgst með lengi og þekki þær betur en buxnavasana. .Ég var svona tólf ára þegar ég veiddi lonturnar, en fór ekki að veiða lax í Elliðaánum fyrr en um 1948 og upp úr því hef ég veitt mikið þar. Samt koma Elliðaárnar manni oft á óvart. Botninn breytist oft. Það eru margir skemmtilegir veiðistaðir í Elliðaánum, laxinn sýnir sig mikið þar en hann er ekki auðveiddur. Það er frekar erfitt að fá hann til að bíta á. Það er gamla sagan þar, sýnd veiði en ekki gefin. Það þarf vissa þolinmæði við þetta."

Flugur verða tískuflugur

Flestir veiðimenn vita að Grímur Jónsson er höfundur að Snældunni; flugu sem verður 25 ára á þessu ári Hún hefur gefið vel en sjálfur á hann nokkrar eftirlætis flugur:
,,Ég hélt mikla tryggð við flugu sem ég veiddi á í fyrsta skipti. Það var Sweep númer átta. Hún var eiginlega föst við mig í áraraðir. Ég veiddi fyrst á hana í Grafarhylnum í Grímsá -  fékk fyrsta flugulaxinn þar -  18 punda hæng og svo tók ég 12 punda hrygnu í næsta kasti á eftir. Eftir þetta notaði ég hana geysimikið. Maður flæktist á milli flugna. Ég var nokkurn tíma í Doktornum og White wing og svo þegar Þingeyingurinn kom notaði ég þá flugu svolítið. Það var skemmtileg fluga sem gaf vel. Flugur verða tískuflugur. Kannski er ein fluga sem skarar framúr einhver árabil og veiðist óhemju mikið á, en svo eftir nokkur ár eru menn alveg hættir að nota þá flugu og farnir að nota aðrar. Þetta er sveiflukennt.  Ég hef ekki átt neina flugu sem hefur komið í sæti gömlu flugunnar, Sweep; ég hélt mikla tryggð við hana.  Ég notaði hana geysimikið alls staðar þar sem ég kom og síðan hafa komið flugur sem hafa verið að gefa mér dálítið."

Margar leiðir að markinu

,,Ég byrjaði sjálfur að hnýta flugur árið 1970. Það var góður veiðifélagi sem fékk krabbamein sem dró hann til dauða, en hann hafði beðið konuna sína að færa mér hnýtingargræjurnar sínar og þá byrjaði ég að fást við það. Ég hef aldrei fengið tilsögn. Ég reyni bara að klóra mig út úr þessu. Það eru til margar leiðir að markinu, þú veist það, hvort sem þær eru góðar eða ekki. Já, ég hef margoft veitt á þessa fyrstu. Við fórum einu sinni í Langá við Jón Aðalsteinn og þá hnýtti ég eitthvað í líkingu við rækju og við mokveiddum á hana. Síðan lét Jón Kristján Gíslason, fluguhnýtarann fræga, hnýta rækju sem var miklu fallegri en mín og það varð fræg fluga í áraraðir  á eftir. Mínar flugur eru ekkert fallegar, en þær veiða allar og það er fyrir öllu. Snælduna bjó ég til fyrir 25 árum. Fyrsta útgáfan var þessi þrílitaða sem þeir kalla Deutschland í dag en núna eru til mörg afbrigði af Snældunni og þau hafa gefið feykilega vel, alveg upp til hópa. Sjálfur er ég alltaf fastur í þrílitu flugunni. Ég byrjaði á henni og enda á henni, en þessar svörtu og bláu eru líka góðar."

Dýrðlegt milli fossa í Norðurá

Hann á fleiri eftirlætis veiðistaði en Elliðaárnar, þótt þar megi segja að hann þekki sig best:
,,Eftirlætis staðurinn minn var milli fossa í Norðurá. Það er feyki skemmtilegt svæði. Grjótin og þetta; það var alveg dýrðlegt að vera þarna og við Berghylsbrotið. Ég veiddi líka mikið í Svartá í Húnavatnssýslu og í Miðfjarðará, en um tíma var hópur sem leigði ána. Þeirra á meðal voru Ingi Ú. Magnússon, gatnamálastjóri og Guðlaugur Stefánsson, yfirverkstjóri hjá borginni og þar sem bróðir minn vann hjá borginni fylgdi hann þessum félögum sínum og ég fylgdi honum."
Eina óvanalega veiðisögu kann hann að segja úr einni slíkri ferð:
 ,,Ég man eftir einni skemmtilegri sögu úr einni af þessum ferðum. Við vorum að fara heim í mat eftir morgunhollið og vorum við að keyra þar sem hestagirðing var. Þar var hestur við girðinguna og við sáum fálka fljúga á eftir rjúpu við girðinguna. Fálkinn steypti sér á rjúpuna, sem flúði undan honum og lenti alveg við afturlappirnar  á hestinum. Fálkinn flaug á lendina á hestinum, valt eftir hryggnum og út af og náði flugi aftur. Hesturinn trylltist, prjónaði og jós og tók sprettinn en rjúpan kom upp, flaug í áttina að bílnum og settist við flata hellu sem skagaði inn undir sig. Ég fór úr bílnum og í hvarf svo hún sæi mig ekki, læddist að henni og greip hana. Tók rjúpuna, fór með hana inn í bíl og við fórum með hana í veiðihúsið. Við  skoðun sáum við að fálkinn hafði aðeins sært hana en ekki meira en svo að hún gekk úr veiðihúsinu og hélt sína leið. Þetta er dálítið sérstök veiðisaga, finnst þér ekki?!"

Grímur með sonarsonunum Huga Þeyr, Ásgrími ásamt Birgi Torfa frænda þeirra.

Flott veiðihótel flæma hann frá

,,Ég veiddi mest með sömu mönnunum. Við Jón Aðalsteinn Jónasson sem stofnaði Sportval á sínum tíma vorum miklir veiðifélagar og fórum vítt og breytt um landið. Svo þegar hann varð bundinn við búðina - að sinna veiðimönnum í staðinn fyrir veiði -  þá komu aðrir inn. Við Bjarni Ingvar Árnason í Brauðbæ erum miklir mátar og í gamla daga fór Ari Guðmundsson sundkappi oft með mér að veiða, oftast í Laxá í Dölum. Við Sigurður bróðir fórum hins vegar oftast að veiða í Miðfjarðará og Svartá og síðar varð ég einn af  hópi leigutaka að Svartá í Húnavatnssýslu í þrjú ár. Við veiðifélagarnir höfum nú yfirleitt talað mest um veiði í þessum ferðum, enda algjörir dellukarlar, en auðvitað kemur dægurþrasið inn í."
Grímur segist ekki hrifinn af veiðihótelum og kýs að vera í veiðihúsi með félögum sínum þar sem þeir elda sjálfir:
,,Ég get eiginlega sagt að flottu veiðihótelin hafi flæmt mig frá stóru ánum. Ég vildi bara vera í friði úti í náttúrunni að veiða. Þegar Jón Aðalsteinn var með í för, þá eldaði hann kjötsúpu á fyrsta degi sem var höfð til kvöldverðar og síðasti hádegisverðurinn áður en við fórum í bæinn var kjötsúpan. Hún verður alltaf betri og betri eftir því sem hún er hituð oftar upp. Ég hef alltaf helst viljað vera þar sem menn sjá um sig sjálfir. Ég kann illa við þetta hótelhald og hefur alltaf þótt það leiðinlegt."

Fluguveiði heppilegri fyrir óvana

Spurður hvað honum finnist um maðkveiðibönn svarar hann:
,,Mér finnst þetta bull með þessi boð og bönn með veiðitæki,mér finnst það bara rugl. Menn eiga bara að veiða á það sem þeir vilja hverju sinni, svo fremi sem þetta er löglegt veiðitæki.. Sjálfum þykir mér gaman að veiða bæði á maðk og flugu, en á skemmtilegum maðkveiðistöðum þar finnst mér maðkurinn skemmtilegri. Þar er maður í meira návígi við fiskinn, leitar að fiskinum, læðast að bráðinni eins og maður segir og það er ótrúlegt hvað maður  kemst nálægt fiskinum ef maður er úti í vatninu og er með hægar og rólegar hreyfingar. Ég hef lent í því að vera kominn of nálægt fiski og þá tók ég toppinn ofan af stönginni og renndi toppnum að fiskinum og þegar hann var farinn að taka þá setti ég stöngina saman. Það hefur oft gerst að ég hafi notað þessa aðferð. 
Fluguveiði er mjög skemmtileg og ég tel að hún sé heppilegri fyrir menn sem eru óvanir að veiða. Ég ætla nú ekki að móðga neina fluguveiðimenn, en ef þeir koma agninu út í vatnið þá eru þeir með möguleika. Í sambandi við maðkveiði þá þarf að stýra maðkinum vel, því laxinn er ekki alltaf að sækja hann, það þarf að sækja laxinn."

Óvenjuleg afmælisgjöf til vinar

Og ekki vantar hugmyndaauðgina hjá Grími eins og næsta saga sýnir:
,,Einhverju sinni þegar átti Bjarni vinur minn átti afmæli  langaði  mig að gera flugu til að gefa honum í afmælisgjöf. Mér datt í hug að hafa fluguna úr ránfuglum landsins, uglu, erni, fálka og smyrli. Bjarni átti mjög gott fuglasafn og ég læddist einu sinni þegar hann sá ekki til inn á skrifstofuna hans og náði mér í ugluhár. Ásgeir Heiðar hafði einhvers staðar fundið arnarfjöður og gaf mér hana og ég átti fjöður bæði úr smyril og fálka.  Bjarni prófaði fluguna og fékk á hana í fyrsta kasti - Annars finnst mér fluguveiðin vera að færast mikið yfir í snobb, því miður. Fluguveiði er bara ein aðferð til að veiða. Menn halda að það sé eitthvað fínt að veiða á flugu, en það er bara ekkert fínna en maðkveiðin. Auðvitað mega menn veiða á flugu ef þeir hafa áhuga á og hafa gaman af að veiða á flugu. Sumir vilja ekki sjá að snerta maðkinn, það er bara þeirra mál. Ég lít á allar veiðiaðferðir sem aðferð til að veiða. Hvaða veiðiaðferð hentar best hverju sinni verður hver og einn að meta fyrir sig."

Verður upptekinn við veiðar í sumar

Grímur brosir þegar ég spyr varfærnislega hvort hann sé hættur að veiða, kominn á níræðisaldur:
,,Nei, nei, ekki aldeilis!" segir hann. ,,Ég er enn að veiða. Í sumar verð ég hátt í mánuð við veiðar. Ég verð þrjár vikur á einum stað, eina viku í senn, síðan í lítilli á á Snæfellsnesi, Laxá í Miklaholtshreppi, þrisvar tvo daga í senn og svo eru það Elliðaárnar. Svo er alltaf eitthvað sem bætist við. En ég geri engar rósir, ég hef engar lappir í þetta lengur. Ég hef bara gaman af að vera í andrúmsloftinu sem fylgir veiðiferðum. Ég hef aldrei verið að veiða í græðgi einsog sagt er. Auðvitað vill maður veiða, en það er bara allt tilstandið í  kringum þetta, náttúran, að heyra niðinn í ánni, setjast í góða laut og láta sér líða vel.. Svo kemur maður kannski heim með nokkra laxa eða silunga. Ég veiði mikið með Bjarna Ingvari Árnasyni, Bjarna í Brauðbæ og Árna syni hans sem hefur verið í skóla hjá okkur og er föðurbetrungur eins og menn segja, en hann er orðinn hörkuveiðimaður. Við gömlu mennirnir beitum honum bara á staðina. Svo á ég tvo sonarsyni sem eru góðir veiðimenn, en einkasonurinn hefur engan áhuga á þessu, hann vill ekki einu sinni drepa flugu, hvað þá fisk!  Ég er orðinn of gamall til að veiða og sleppa, ég vil koma með mína bráð heim. En ég hef gert það, við vorum þrír í Svartá í fyrra, ég, Bjarni og Árni sonur hans, og veiddum tuttugu laxa en slepptum flestum, tókum fjóra, fimm heim, hinum var sleppt."

Bræðurnir skoða laxinn sem þeir veiddu. 

Svona á að elda lax!

En ertu góður í að elda laxinn?
,,Já, mér finnst það!", svarar hann hlæjandi. ,,Fyrst þegar ég byrjaði að borða lax í gamla daga var ég sáttur við að borða hann einu sinni. Í annað skiptið borðaði ég hann, en í þriðja skiptið fór lítið ofan í mig. Þannig var það alveg þangað til Konráð Guðmundsson fyrrum hótelstjóri á Hótel Sögu kenndi mér að elda lax og síðan get ég borðað lax eiginlega alla daga vikunnar í öll mál. Maður sker laxinn í 2 sentímetra sneiðar, setur hann í kalt vatn, saltar vel og lætur suðuna koma upp án þess að hafa lokið á pottinum. Láta sjóða í svona í mesta lagi eina mínútu. Þá er potturinn tekinn af hitanum, maður kreistir úr sítrónu út í soðið, setur lokið á pottinn og lætur standa í tíu mínútur.. Þá bráðnar laxinn uppi í manni. Konan mín heitin bjó til virkilega góða sósu úr rjóma,tómötum og smávegis af majonesi sem passaði mjög vel við laxinn. Og ristað brauð. Það finnst mér alveg nauðsynlegt og svo auðvitað sítróna með.".
Frystikistan hjá Grími er að verða tóm, enda þarf hún að vera tilbúin í sumar þegar hann kemur heim með fenginn:
,,Ég er búinn að losa mig við allt úr frystikistunni núna. Ég átti oft erfitt með restina á vorin og þá tók maður kannski tíu tólf laxa og lét reykja þetta og gaf vinum, sem maður hefði nú kannski frekar átt að gera á haustin en vorin!" segir hann og hlær.

Elur upp nýja kynslóð veiðimanna

Grímur er að ala upp nýja kynslóð í veiðimennsku - sonarsynirnir tveir hafa fengið bakteríuna frá afa sínum:
,,Já, þeir veiddu báðir sinn fyrsta lax fimm ára gamlir. Sá eldri, Hugi Þeyr, er núna 17 ára og sá yngri, Ásgrímur er 8 ára Það er meiriháttar að kenna þeim. Hugi Þeyr átti litla stöng þegar við fórum í fyrstu veiðiferðina og ég var hræddur um að línan væri ekki nógu góð og ætlaði að hjálpa honum. Nei takk, ég fékk ekki að snerta stöngina. Hann stóð bara keikur með sína stöng, þreytti laxinn og ég var bara aðstoðarmaður við að draga hann að landi. Það var gaman að því. Sá yngri, Ásgrímur, er sérfræðingur í Draugaklettum í Elliðaánum, þar er hann búinn að veiða þó nokkra.. Þetta eru upprennandi veiðimenn. Sonardóttirin er bara fimm ára en líklega prófa ég að kenna henni í sumar. Ég vil endilega hafa barnabörnin með í veiði. Einkasonurinn hefur hins vegar aldrei haft áhuga á veiðiskap, hann vill ekki drepa flugu, hvað þá fisk!"

Saga af sérstökum laxi og hrokafullum veiðimanni

Áður en við kveðjum Grím fáum við að heyra tvær sögur úr veiði, enda ekki komið að tómum kofanum hjá honum.
,,Já, ég var einhverju sinni að veiða í Svartá með uppáhalds veiðitækið mitt, maðkinn... - nei! ég er bara að grínast! Ég stóð á brúnni sem fer yfir Svartá í áttina að Blöndu og sá mjög fallegan lax  uppi við brúarstöpulinn. Ég beitti mínum fallegustu möðkum og renni á hann, og set maðkinn á trýnið á fiskinum. Hann var hinn rólegasti og leit ekki á maðkinn. Allt í einu tók hann kipp og nartaði í sökkuna, ég tók góðan kipp og þetta skeði aftur. Þá dró ég upp, setti sökkuna niður undir öngulinn og renndi aftur bara sökku og beran öngul. Ég varð að sækja þetta ofan í maga á honum. Það er ekki alltaf það alfínasta sem gefur!
Svo er önnur saga í sambandi við veiðistangir. Menn hafa verið mikið með stífar stangir sem mér líkar illa. Ég vil hafa mjúkar stangir og finna fyrir bráðinni. Ég hef farið ofan í línu núll á slíkri stöng. Svo keypti ég stöng fyrir línu eitt og var með hana í ellefu ár. Á gömlu brúnni fyrir ofan Breiðuna í Elliðaánum kemur maður til mín og segir: ,,Ertu að veiða lax á þetta?" ,,Já, ég er að reyna það,"segi ég. Þá spyr hann: .,,Hvað gerirðu ef hann tekur?"  ,,Nú þá reyni ég að landa honum," svara ég.   ,,Já, þú getur sagt það," segir hann þá.  Og ég svara: ,,Já, ég get sagt það, ég er búinn að veiða marga laxa á þessa stöng." Hann gaf sig ekki og spurði: ,,En hvað gerirðu ef stór lax tekur á?" ,,Hvað kallarðu stórlax?" spurði ég. ,,Svona tíu, tólf punda."
,,Ég landa þeim bara líka," svaraði ég.  ,,Já, þú getur sagt svona,"segir hann.  ,,Já, ég get það því ég landaði einum fjórtán punda og öðrum fimmtán punda á þessa."  Hann gekk í burtu. Hugsaðu þér hrokann í sumu fólki!"

Maðurinn með Stanley klaufhamarinn

Grímur hefur aldrei veitt í útlöndum og saknar þess ekki:
,,Við vorum einu sinni nokkrir félagar búnir að skipuleggja veiðiferð til Grænlands, á svæði sem er í þriggja tíma siglingu frá Nuuk. Vorum búnir að greiða ferðina og allt, en þá kom skeyti þar sem stóð að það voraði svo seint á Grænlandi þetta árið að ekki væri fært inn á veiðislóðirnar. Þannig fór um þá veiðiferð til útlanda. Sennilega er mér ekki ætlað að veiða annars staðar en á Íslandi, enda er ég sáttur við það. Heyrðu, ég á eftir að segja þér eina skondna sögu," bætir hann við. ,,Ég sá einu sinni mann veiða í Elliðaánum. Þegar hann hafði komið laxinum á land, skildi hann fiskinn eftir spriklandi í sandinum meðan hann gekk að veiðitöskunni sinni. Kom til baka með Stanley klaufhamar og rotaði fiskinn með honum. Þessi hefur ábyggilega verið smiður
En hver skyldu mestu ævintýri hans í veiðiferðum vera?
,,Veistu, þetta er bara allt ævintýri," svarar hann af einlægni. ,,Það er ævintýri að setjast upp í bíl og vera á leið í veiðitúr. Ég hef lent í brjáluðum veðrum og verið sáttur við það og veitt samt. Það er bara ævintýri að vera í kringum veiði, ekkert annað hægt að segja um það."

Anna Kristine Magnúsdóttir.
Birt upphaflega á Flugur.is í apríl 2010. 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði