Veiðin á ION hófst í gær ásamt Villingavatnsósi. Það fengust 12 fiskar á fyrsta degi, engin tröll en frá 50-69 cm fiskar og flestir vel haldnir. Veðurskilyrði voru mjög strembin og vatnið lagt klaka að mestu. Það var þó hægt að brjóta aðeins úr ósnum á Villingavatnsá og toga upp 2 fiska þar en rest kom í Þorsteinsvíkinni þar sem heitt vatn kemur út í. En við ætlum nú meira að segja frá stórum fiskum vorsins þeir eru orðnir þó nokkrir.
Í Tungufljóti í morgun kom 100 cm sjóbirtingsdrjóli á land. Mynd af honum fylgir hér fréttinni efst og er frá Bæring Jóni Guðmundssyni.
Í Eldvatni kom þessi 89 cm fiskur á land á dögunum, þar er veiði búin að vera fín. Hópurinn sem veiddi ána um páskana fékk marga væna fiska en þessi var sá stærsti. Meðallengd veiddra og slepptra fiska í Eldvatni á vorvertíð er heilir 73 cm, frábær meðallengd. Myndin er fengin af facebook síðu Eldvatn í Meðallandi.
Í Tungulæk eru stærstu fiskar vorsins helviti ríkulegir. Lengstu fiskarnir veiddust 1 og 7 apríl, 92 og 91 cm langir takk fyrir. Svo hefur lækurinn bætt um betur með einum 88 og tveimur 87 cm fiskum.
Í Tungufljóti höfum við séð reglulega séð myndir af fiskum um og yfir 80 cm. Sá stærsti sem við höfum séð mynd af er þessi 86 cm. Mynd fengin af heimasíðu Fish Partner á facebook.
Í Geirlandsá hafa komið mjög flottir fiskar á land í vor. Bæði 96 og 97 cm fiskar, heldur betur höfðingjar þar á ferð. Hér að neðan er mynd af 96 cm fiskinum sem kom á land í Ármótum sem gefur iðulega mest alla veiðina á vorin. Mynd fengin af láni á votnogveidi.is.
Einhverjir svakalegustu fiskar vorsins eru hins vegar úr vorveiðinni í Ytri Rangá. Þessir tveir tilteknu fiskar eru feykilega langir en eins og það væri ekki nóg þá er þykktin á þeim þannig að spikið virðist ganga úr úr hliðunum á þeim. Ótrúlega vöðvaðir og nóg af kjöti. Flottir fiskar sem stækka og stækka. Fyrri er 93 cm og veiðimaður Jóhannes Hinriksson sem sér um sölu veiðileyfa í Ytri, mynd fengin að láni hjá Jóhannesi. Seinni er hrygna sem mældist 89 cm og er ekki síður þykk. Mynd fengin hjá Lax-á. Hreint út sagt ótrúlegar skepnur.
Það hefur verið fín veiði í Eyjafjarðará það sem af er vori, rúmlega 100 fiskar komnir á land og margir vel ríkulegir. Hér að neðan er einn þykkur 83m fiskur af Munkaþverárbreiðu, hann tók Olive Skull. En það var svo bætt um betur. Smelltu hérna til að sjá myndband af rosalegum sjóbirtingi ættuðum að norðan úr Eyjafjarðará. Stór og feitur fiskur sem á nóg inni.
Í Húseyjarkvísl eru stærstu fiskarnir í kringum 80 cm þetta vorið en þar eru stórir sjóbirtingar á sveimi. Til dæmis er hérna einn frá vorveiðinni 2016 sem losaði 102 eða 3 cm. Veiðimaður Hörður Birgir og mynd frá veiðimenn.com.