Jónas býr í kroppi krists, Corpus Christi, í Texas. Hann segir aðstærður utan við strönd ríkisins henta afskaplega vel til fluguveiða. ,,Þannig háttar til að fyrir utan ströndina er stórt og mikið rif, sem nær frá Louisiana, suður með strönd Texas og niður til Mexíkó. Innan rifsins er sjávarlón með grunnsævi, dýptin gjarna eitt til tvö fet. Eins og gefur að skilja er afskaplega mikið líf við þessar aðstæður og ég tala nú ekki um vegna þess að þar sem stóru og vatnsmiklu árnar renna út í lónið myndast djúpir álar sem rjúfa rifið á nokkrum stöðum. Innan rifsins er búið að grafa skurð til að auðvelda skipaumferð með ströndinni frá Mexíkó til Flórída. Álana og skurðinn notar fiskurinn til þess að kæla sig í mestu hitunum."

Jónas rær til veiða. Takið eftir hvað hann situr hátt í bátnum. Fyrir aftan hann er statíf fyrir stöngina og hólf þar sem hægt er að geyma háfinn og annað sem til þarf við veiðarnar.
Þótt einstaka maður sinnti fluguveiðum á svæðinu áður en Jónas kom þangað, var það meira að vilja en mætti. ,,Þarna blæs stundum, er það sem við Íslendingarnir köllum ,,góða flugugolu". En viðhorfið þarna úti er að varla sé hægt að kasta flugu þegar eitthvað hreyfir vind, auk þess sem þeir kasta ekki flugu fyrir fisk nema þeir sjái hann. Hér á landi stundum við blindveiðar og það hef ég gert með góðum árangri, t.d. í Þingvallavatni síðan sautjánhundurð og eitthvað, eða þar um bil. Ég man satt best að segja ekki eftir því að hafa nokkru sinni kastað flugu fyrir fisk sem ég hef séð í Þingvallavatni. Ég notaði því bara hina hefðbundnu íslensku aðferð, sem enginn á svæðinu hafði trú á og ég náði strax töluverðum árangri og veiði ekki minna en margur maðurinn sem hefur áratuga reynslu á svæðinu."
Jóans segir að fluguveiðin sé í sókn við strendur Texas, ,,en megnið af veiðinni er afskaplega gróf og óaðlaðandi. Það er mjög algengt að menn séu með lifandi beitu, smáa fiska sem eru lifandi þegar þeir þræða þá upp á öngulinn. Það er dálítil kúnst að beita þarna, því öngullinn má ekki koma út í gegnum beituna, því þá er eins víst að menn festi í botninum sem oft er mjög gróinn. Þeir sem ekki nota lifandi beitu eru gjarnan með gervibeitur, plastlúrur, og það sama er uppi á teningnum þar, önglarnir verða að vera ,,upside-down" til að losna við botnfestur. Reyndar á það sama við um fluguveiðarnar. Þótt ég veiði yfirleitt með flotlínu, þá þyngi ég fluguna að ofan, þannig að öngullinn snúist við og verði ,,öfugur" í vatninu."

Veiðimaður sem Jónas kom upp á bragðið með þrjá Red Fish.
Það er í sjálfu sér hægt að vaða um þetta svæði, enda dýpið ekki mikið. Jóans segir hins vegar að það sé bæði erfitt að vera lengi að vaða um í tveggja feta djúpu vatni, ,,auk þess sem botninn getur verið hættulegur. Eina stundina getur botninn verið harður og góður, en aðra stundina geta menn stigið ofan í gljúpan sand og lent í erfiðleikum, auk þess sem töluverðar líkur eru á því að menn stigi á skötu. Það finnst skötunni ekki skemmtilegt og launar veiðimanninum gjarnan með sársaukafullri stungu. Þess vegna er vinsælt að veiða úr kajökum."
Jónas segir það ekkert tiltakanlega erfitt að kasta úr kajak. ,,Þetta eru ekki þessir hefðbundnu mjóu kajakar þar sem menn sitja neðarlega, heldur 75 sentímetra breiðir bátar þar sem veiðimaðurinn situr á einskonar flotholti þar sem auðvelt er að athafna sig við köstin. Þeir sem eru óvanir eru yfirleitt ekki lengi að ná tökum á þessu. Og aðferðin er einföld, ég ræ út, leita að fiski eða stöðum þar sem líklegt er að hann haldi sig. Oft er farsælt að byrja á mörkum grynna og dýpis, þar set ég út rekakkeri og læt bátinn reka hægt undan vindi meðan ég kasta á báðar hendur."
Jónas hefur veitt einar átta fiskitegundir úti fyrir ströndum Texas. ,,En þarna er mest veitt af tveimur tegundum, Speckled Trout sem er gaman að veiða veturna, ef vetur má kalla, því yfirleitt er vetrarveðrið eins og á bestu sumardögum heima á Íslandi. Þessa fiska er gaman að veiða á flotlínu, sérstaklega hrygnurnar, sem eru mun stærri er hængarnir. Þær eru kallaður gyltur, og segir sú nafngift töluvert um stærðina. Hin algenga fiskitegundin er Red Fish og hann getur verið mjög stór. Hver veiðimaður má hirða þrjá fiska á dag, en sleppa öðrum. Það má einungis hirða fiska sem eru á bilinu 50 til 65 sentímetra langir. Minni fiskum á að sleppa og þeim stærri líka og það er töluvert algengt að menn seti í dreka sem eru lengri en 65 sentímetrar!"
-þg