Á pallinum.
Ég sat á pallinum við veiðihúsið og horfði yfir Húseyjarkvíslina bugðast fyrir neðan mig á leið sinni í Héraðsvötnin. Vindurinn var hægur að suðvestan og rigningin á leiðinni. Undanfarna daga hafði þó innlögnin verið ráðandi á daginn, en lægt að kveldi. Milli kl. 21 og 22 var nánast dottið í stafalogn og gárótt áin breyttist þá í undurfagran spegil sem faldi leyndardóma og gersemar á bak við silfraðan haminn.

Fuglalífið fjölskrúðugt, branduglan sást nokkrum sinnum.
Það var komið að kveldi miðvikudags. Við félagarnir, Danni og hundurinn hans Bilbó höfðum verið við ána síðan á sunnudagskvöld í góðu yfirlæti, veitt öðru hvoru en aðallega verið að skoða svæðið, veiðistaðina og náttúruna sem þarna er. Einnig vorum við að skima eftir þeim stóra, annað hvort birtingi eða laxi og hafði hann sýnt sig öðru hvoru en samt gátum við ekki talist sigurvegararnir í þeim leik.
Ég fékk mér rauðvínssopa og lét bragðið blandast eftirkeimnum af grilluðu hrefnunni sem við höfðum borðað stuttu áður, þvílík sæla. Svona finnst mér best að njóta síðustu stundanna við árnar, áður en maður leggst til hvílu í síðasta sinn á veiðislóð og brunar aftur í stressið og "ó-menninguna".

Bilbó veiðihundur við árbakkann.
Skagaheiðin.
Við félagarnir lögðum af stað í þessa veiðiferð á föstudeginum fyrir viku, gistum í Svínadal í Borgarfirði og héldum svo áfram á laugardeginum norður í land, nánar tiltekið í Skagafjörðinn. Ferðinni var fyrst heitið á Skagaheiðina, hina margrómuðu gullkistu silungavatna. Þegar við komum að bænum Ketu var falast eftir veiðileyfum og var það auðsótt og sanngjarnt. Síðan tók við slóði upp á heiðina sem á fáa sína líka. Heilbrigð fjallageit hefði ekki farið hratt þar yfir og var okkur tíðrætt um gæði vegarins alla leiðina upp að Selvatni, en það eru um 5,5 km og tók það okkur um 50 mínútur að klöngrast þetta á jeppanum.

Bilbó að sækja bleikju í þokunni.
Á heiðinni var mikil þoka og útsýni því ekkert, en við fengum ágæta teikningu af svæðinu niðri á Ketu og það hjálpaði okkur mikið. Ákveðið var að byrja veiði í Selvatni en sjá svo til um morguninn hvað annað yrði prófað. Við veiddum vel það kvöld, eina átta eða níu sæmilega fiska, urriða, en aðallega bleikju. Því næst var skimað eftir hentugum stað til að tjalda. Það var torsótt þar sem jarðvegurinn var grýttur og ósléttur. Var því brugðið á það ráð að halla sætunum aftur og sofa í bílnum. Um morguninn var þokunni létt en kaldur vindur nísti inn að beini þegar við gerðum okkur klára. Síðan braust sólin gegnum skýin og heiðin umhverfðist í paradís fluguveiðimannsins.

Selvatn á Skagaheiði.
Við veiddum vel þann dag, bleikjan var út um allt vatn og var stöðugt í fæði, tók flestar flugur sem prófaðar voru og ætla má að við höfum náð vel að hundrað fiskum. Við hættum að veiða um þrjú leytið þar sem vindurinn var farinn að blása heldur hressilega og sólin farin að horfa eitthvað annað.
Sléttuhlíð í Skagafirði.
Þá var haldið niður slóðann og stefnan sett á bæinn að Hrauni í Sléttuhlíð, en þar var Danni í sveit á unga aldri og síðar vinnumaður fram á 17. ár. Í Sléttuhlíðarvatni byrjaði hann sinn veiðiferil og á góðar minningar af þeim ævintýrum.

Danni með bæinn Hraun í Sléttuhlíð í baksýn.
Við áttum ágætis stund við vatnið og engu síðri í litla læknum sem rennur úr því. Þar eru þokkalegir urriðar undir bökkum sem skjótast út að sækja skordýrin sem straumurinn ber fram hjá þeim. Það er gaman að kljást við pundara í læk sem er varla einn og hálfur metri í þvermál, gróður á báða vegu og ótal leiðir til að missa fisk.

Fréttaritari með pundara úr Sléttuhlíðarlæk.
Þegar þeirri veiði lauk brunuðum við aftur að Varmahlíð. Komum okkur fyrir í veiðihúsinu við Húseyjarkvísl og ræddum komandi daga með barnslegri tilhlökkun, steiktum bleikju af heiðinni og sætar kartöflur með, dýrindis matur og hollari en nokkurt detox.
Húseyjarkvísl í Skagafirði.
Við sváfum vel yfir okkur á mánudagsmorgninum, vel þreyttir eftir þvælinginn daginn áður og ekki alveg jafn brattir og plönin gerðu ráð fyrir. Við náðum þó að komast á veiðistað um ellefu leytið og veðrið var eins og best er á kosið fyrir mannskepnuna, örlítil gára og sól í heiði, þó sjálfsagt finnist fiskunum betra að fá smá vætu. Við ákváðum að byrja á stað sem merktur er númer tíu á kortinu, þar kemur beygja í ána til austurs og síðan örlítill beinn kafli sem svignar síðan aftur norður í átt til sjávar. Norðan við beina kaflann er hóll með nokkrum bústöðum og trjágróðri sem veitir veiðistaðnum ágætis skjól í innlögninni. Að mörgu leyti er þetta því ákjósanlegur staður af náttúrunnar hendi með smá hjálp frá tvífætlingunum. Þarna var nóg af fiski, urriðar að taka frá beygju til beygju og þungt skvamp heyrðist reglulega þegar gráðugir fiskarnir hámuðu í sig krásirnar sem flutu hjá.

Þurrflugan góða, peacock og grissly!
Það var því ekkert annað að gera en að setja saman fjarkann og velja sér þurrflugu. Ég setti langan grannan taum á, um það bil eina og hálfa stangarlengd og valdi mér síðan flugu sem ég hnýtti í vetur eftir einhverju tímaritinu að ég held, einföld að uppbyggingu, peacock fjarðrir tvær hringvafðar og síðan grissly fjöður nett vafin á sama hátt. Veit ekki hvað hún heitir en ég hnýtti nokkrar svona, eina númer 20, aðra númer 16 og svo tvær númer 14. Þessi númer 16 varð fyrir valinu enda aðstæður frábærar.
Það leið ekki á löngu þar til 43cm urriði negldi fluguna, ágætis fiskur. Stuttu síðar tók 54cm hængur, sá barðist ágætlega, fór tvisvar alveg yfir á hinn bakkann. Síðan tóku þeir hver á eftir öðrum, 51cm hrygna tók strax á eftir hængnum og síðan hélt þetta áfram. Allir tóku þeir sömu fluguna og margir negldu hana rétt undir yfirborðinu þegar ég var að byrja að draga inn. Best var að kasta beint út í miðja á og láta síðan strauminn flytja fluguna í 45 gráðu boga að bakkanum en halda örlítið við, til að finna tökuna.
Danni ákvað að reyna að kasta fyrir ofan sig með tökuvara en það gekk heldur verr, fékk þó einn ágætan sjóbirting með þeirri aðferð á peacock, en þurrflugan átti daginn, kvöldið og reyndar veiðiferðina alla og tók hún yfir 20 fiska.

Félagarnir Danni og Bilbó á veiðistað nr. 10.
Við þvældumst víða með Húseyjarkvíslinni þessa 3 veiðidaga en hylurinn fyrir neðan sandeyrina fyrir ofan gömlu brúna reyndist einnig geyma marga fiska. Þó voru þeir flestir frekar smáir, en héldum okkur sjá lax á því svæði. Best var að koma að staðnum vestan megin og byrja efst á sandinum og veiði sig niður undir brú. Þeir tóku á öllu því svæði en mest samt í hyl austan megin rétt fyrir ofan brúnna.

Mynd tekin ofan af gömlu brúnni, best er að byrja að veiða þar sem sandeyrin byrjar.
Sá stóri.
Á veiðistað númer 15 lenti ég í smá ævintýri, ég taldi mig þekkja sambærilegar aðstæður úr Straumunum í Borgarfirði. Á þessum stað rennur litað vatn úr Héraðsvötnum inn í Kvíslina og myndast því rás fyrir tæra vatnið undir litaða vatninu með bakkanum vestan megin. Þar er ágætt að standa og kasta, ég valdi hægsökkvandi línu og rauða Francis nr. 12 með gulltvíkrækju, þarna vildi ég setja í urriða eða snemmgenginn lax og því var sjöan brúkuð ef heppnast skyldi. Stuttu eftir að ég byrjaði að kasta á litaða vatnið fékk ég högg en brá ekki nógu skjótt við. Hélt áfram að kasta mig niður eftir bakkanum og sá svo hreyfingu fyrir neðan mig, fyrst hélt ég að þetta væri taka en taldi mig svo sjá eitthvað annað, alveg við bakkann. Ég kastaði því vel út og lét strauminn grípa fluguna og bera að bakkanum, og viti menn, um metra frá kom þung og snögg taka. Fiskurinn reif vel í og hreinsaði sig tvisvar á nokkrum sekúndum, alveg trítilóður. Svo mikil voru lætin að mér snarbrá og rétt náði að lyfta stönginni áður en hann reif sig lausann. Ég stóð eftir með þvílíkan hjartslátt og ætlaði varla að trúa því sem hafði gerst. Önnur eins læti hef ég varla upplifað í veiði og mikið var ég svekktur. Hvað hafði ég gert vitlaust? Átti ég að gefa út taum eða bara sleppa hjólinu? Var hann kannski bara svona illa festur að hann hefði alltaf rifið sig af?

Veiðistaður nr. 15, jökulvatnið rennur inn í Húseyjarkvísl frá Héraðsvötnum.
Hann var stór og silfraður, hvort það var birtingur eða lax veit ég ekki, enda hafði viðureignin bara staðið í 10-15 sekúndur en mikið langaði mig að skoða hann betur!
Ég kom svo aftur við á þessum veiðistað daginn eftir, fékk þar fljótlega tvo urriða en þeir voru á bilinu 38-43 cm ef ég man rétt, sá stóri var kannski farinn upp eftir, niður eftir eða vildi bara ekki heilsa mér aftur. Ég prófaði aðrar flugur; laxaflugur, straumflugur, þessa helstu liti en lítið gekk. Þó setti ég undir flugu sem ég hnýtti í vetur með bláu skotti af heimskautaref, silfri, rauðu og hvítu í búk og fékk nokkur góð högg, en alltaf virtust þeir vera að narta í skottið á henni. Síðan fékk ég gott högg og loksins almennilegur fiskur á, tók vel í sjöuna. ,,Sá neglir straumfluguna," hugsaði ég, ,,þessi er örugglega fjögur til fimm pund." Eftir smá átök kom þó í ljós að þetta var urriði sem hafði húkkað sig í fluguna hægra megin við tálknin og þess vegna var átakið svona öflugt, hann var samt 48 cm og í ágætis holdum en ekki sá stóri sem ég hafði séð daginn áður.
Afslappaðir landkönnuðir.
Eftir þetta trítluðum við hér og þar með bökkunum, veiddum suma staði en bara horfðum á aðra. Veðrið smá versnaði þegar leið á vikuna og það var nánast ekki veiðandi á miðvikudeginum, mikill vindur og bleyta í loftinu enda spáð rigningu næstu daga.
Það er fiskur um alla Húseyjarkvíslina, en mikið af því er í minni kantinum, þó leynast ágætir inn á milli og vel þess virði að gefa sér góðan tíma í að kynnast aðstæðum.
Veiðihúsið er til fyrirmyndar; uppþvottavél, heitur pottur, góð sturta og 3 ágætis herbergi. Öll áhöld eru á staðnum og vel haldin. Þó mætti merkja veiðistaðina, að því er ég best sá er einungis veiðistaður númer 14 merktur og það á röngum bakka miðað við veiðikortið. Fyrir þá sem eru nýir á veiðislóð getur þetta tafið fyrir og valdið óþarfa þvælingi. Kortið er samt ágætt og fallegt en of smátt til að það nýtist vel við árbakkann á jafn víðfemu svæði og Húseyjarkvíslin er.
Ég er kominn aftur á pallinn á veiðihúsinu með rauðvínsglasið í hendi og hugsa um liðna daga, mikið var þetta skemmtileg og fjölbreytt ferð. Skyldi sá stóri gefa sig fyrir næsta holli?