2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
7.5.2020

Laxaveislan 2010 - úr safni Flugur.is

 Hérna er sagt frá frábærri laxveiðiferð hjóna í Norðurá árið 2010. Áin full af laxi og sólin skein á mannskapinn. Það er fátt skemmtilegra en að standa við á í góðu veðri með laxinn í tökustuði. Gefur þetta ekki skemmtileg fyrirheit fyrir sumrinu 2020? Núna kemur í árnar árgangurinn úr hrygningu 2015 laxanna. 

 Ég var kominn í laxaveisluna 2010 og fisklaus eftir eina og hálfa vakt. Svolítið eins og að vera á trylltu sveitaballi en engin dama til í dans. Daman við hliðina á mér var hins vegar í bullandi séns, veiðifélaginn var eiginkonan sem var komin með fimm upp áður en ég komst á blað. Aðrir félagar á stöngum voru allir í góðum málum og nú kom í ljós að ég hef þroskast sem veiðimaður. Var alveg afslappaður. En viðurkenni fúslega að þegar kom að mér um miðja aðra vakt valdi ég Litla foss og setti á gamalreynda Sun Ray sem ég veit að heillar laxa; sú gamla og slitna fór inn í fyssið og ég strippaði af þeirri ákveðni sem oft hefur gefið fisk: Fyrsti kom á land skömmu síðar.

Sá fyrsti hjá mér er á leiðinni í land

Við vorum hópur hjóna í Norðurá upp undir Holtavörðuheiði sem heitir númer II. Skarpar júlílægðir höfðu skapað fullkomnar aðstæður fyrir 1800 laxa til að bruna upp fyrir Glanna og koma sér fyrir í hyljum árinnar uppi á dal og fram á heiði. Fólkið sem var í hópnum á undan var að sögn al ókunnugt laxveiðum og flestir á því stigi að láta vindinn slæma flugum út - en höfðu tekið 38 fiska á tveimur dögum. Talaði um að hætta á toppnum. Vatnið í ánni var alveg kjörið fyrir flugur þegar við komum að. Ég reisti strax lax í Símastreng, og svo annan, og þá tók sá þriðji og slapp, en félaginn á stönginni missti líka. Þetta var góð byrjun á fyrsta stað.

Við vorum tveir í hópnum sem höfðum veitt þarna áður. Sá dagur var dýr. Um nóttina fyir fjórum árum gerði foráttu áhlaup og áin fór í hið fræga kakó. Reyndari veiðimenn hefðu setið í húsi þann dag en við fórum út í brjálæðið og tókum þegar yfir lauk 2-3 laxa, mest var fjörið þegar gekk niður um kvöldið og mig minnir að ég hafi reist 20 laxa á klukkutíma. Okkur fannst við eiga smávegis inni útaf þessum hálf mislukkaða túr, en fengum margfalt borgað aftur þessa tvo sumardaga.

Vindur blés reyndar svo hressilega mest allan tíman að varla var stætt við veiðistaði á heiðinni, og lítið reynt, en skárra í dalnum og þar var líka nóg að gera.

Við Poka, sem er foss þar sem heiðin tekur við, var svo mikið af laxi að oft voru margir á lofti. Reyndar orðinn aðeins tregur að taka í þessum ærslum. Lax virtist um alla á, bara mis mikið en ekki mis lítið. Maríulax kom á fyrsta kvöldi og um hádegi annan dag höfðu allir fengið fisk og sumir marga. Félagi minn á stöng og eiginkona var í miklu stuði: Þrír á fyrstu vakt þegar ég bara reisti og missti. Aðferð hennar var einföld: Rauð frances númer 12 á gullkrók í 45 gráðu horni niður og tekið á reki eða hægu strippi.

Falleg morgunveiði.  Guðrún Sigurðardóttir. 

Aðferðir mínar voru miklu fjölbreyttari og að sama skapi árangurslausari: Sun Ray gára, hálftommur upp í tvær tommur eftir straumlagi, svört Frances, kónn Frances, Black and Blue, Collie Dog, Silver Doktor, Dimmblá, Green Butt og fleiri, flugur númer 16 og upp í 12-14. Eða mismunadi yfirborðstúpur, ekki tók´ann Blue Charm en kíkti á hana með gárubragði og líka Iðu. Mest varð ég var á Sun Ray með gáru.

Lítil Sun Ray gárutúpa reyndist vel.

Vatnið fór hratt sjatnandi báða dagana og staðir breyttu um svip á klukkutíma fresti að því er manni fannst. Strekkingsvindur gerði sums staðar erfitt fyrir og stundum var hann til hjálpar, að minnsta kosti gerði vindgáran manni auðvelt að nálgast staði óséður.

Þetta var leikglaður lax, sýndi sig mikið og elti oft, lét reisa sig hvað eftir annað og var stöðugt í. En tökur voru misákveðnar og duttu niður í nánast ekki neitt þegar sólfar varð mikið þriðju vaktina. Sú var til muna rólegust.

Þegar skuggi kom á hylinn hófst takan aftur.

Eitt vakti athygli mína. Eins og við var að búast bar lítið á stórlaxi, sem telst stór ef hann er yfir 70 sm í Norðurá og ber að sleppa. Hópurinn hitti á einn slíkan. En það var eins og laxarnir þarna séu af mörgum ólíkum stofnum! Líklega er það raunin eftir seiðasleppingar undanfarna áratugi. Sumir laxanna voru virkilega fallegir fiskar á bilinu 5-6 pund, 65-68 sm. sumir og vel á sig komnir með mikinn baráttuvilja. Aðrir voru langir og mjóir og greinilega ekki af sama sauðahúsi. Við settum ekki í neina kettlinga, en þarna voru greinilega smáir smálaxar á ferð líka. Það leyndi sér ekki þegar þeir stukku að þeir voru mun smærri en hinir. Sem óinnvígður Norðurármaður og leikmaður í laxfiskafræðum furðaði ég mig nokkuð á hve útlit og lögun var fjölbreytt. Og eftir fyrstu vaktina vakti það umtal hópsins hve linir fiskarnir hefðu verið á færi. Það var reyndar ekki mín reynsla þegar leið á ferðina. Og félagarnir voru sammála, fiskarnir voru mjög mislyndir á færi. Varla voru þeir allir þreyttir og göngmóðir sem tóku fyrsta kvöldið! Gaman væri að fregna frá þeim sem þekkja til ,,stofnsins" í Norðurá hverju sætir?

Baula alltaf með sjónarspil.

Laxaveislan var mátuleg. Ekkert svall og maður varð að vanda sig. Við enduðum með 14 á stöngina og hópurinn allur með yfir 30 laxa sem var stórfínt. Ekkert var ókeypis í þessari veiði. Maður varð að sækja fiskana og veiða vel til að ná þeim. En það var merkilegt að sjá hve miklu sterkari Sun Ray og Frances flugurnar eru öðrum. Ég reyndi úrval flugna með ólíkum aðferðum til að sjá hvað dygði best. Kastaði í mismunandi horni eftir straumlagi og strippaði með ólíkum hraða. Enginn lax tók örsmáar flugur á hröðu strippi. Hann vildi einfaldlega ekki sjá það. Eiginkonan (methafinn með átta laxa) tók sína lang flesta með sígildri aðferð á rauða Frances, ég mína flesta á Sun Ray í yfirborðinu. Svört Frances gerði líka lukku hjá hópnum en aðrar síður. Í djúpum rennum hjápaði að hafa kón á Frances. Á okkar stöng bar varla við að þyngdar túpur færu undir. Í vísindaskyni reyndi ég samt Snældu í lok tveggja vakta og sjá: Lax var á strax í bæði skipti! Annar slapp en hinn fór í poka.

Við þessar aðstæður hefði maður getað aukið heildarveiðina með tvennum hætti að mínu mati: Fara mun hraðar milli staða en við gerðum, og rífa upp 1-2 tökufiska í hvelli á hverjum stað. Við dunduðum okkur við hylji og strengi og prófuðum margt áður en haldið var áfram. Því alls staðar vissi maður af fiski. Og svo hefði maður örugglega tekið mun fleiri upp með því að renna Snældu eða Frances túpu eftir hylnum í lok hverrar yfirferðar, það sýndu fáfengilegar tilraunir í þá átt. En hvaða máli skiptir svo sem hvort maður veiðir meira eða minna í svona túr sem getur varla orðið betri hvort sem er? Er maður ekki að þessu til að hafa gaman af því? Það tókst vissulega.

 

 

 

 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði