Flugur.is skelltu sér í heimsókn í Varmá í Hveragerði í bjarta veðrinu í gær. Það var alveg heiðskírt, hvasst og fremur kalt en sólin skein í heiði þegar nokkrir félagar röltu í átt að Bakka svæðinu í Varmá um 3 leytið í gær. Það er pínu labb að ánni frá bílastæðinu því ekki er ráðlegt að fara seinasta spottann á bílum.
Fyrir þá sem ekki þekkja til er Bakka svæðið neðsta svæðið í Varmá. Þarna er svæðið í kring marflatt og áin rennur um gróna bakka, oft þó nokkuð djúp. Áin bugtar sig og beygir, grefur sig undir bakkana, þrengist og myndar djúpar lænur inn á milli. Hérna gildir að lesa svolítið í aðstæður og standa ekki alveg við bakkann þegar egnt er fyrir sjóbirtinginn.
Einn prýðilegur hylur á Bökkunum.
Þegar Flugur.is komu á svæðið voru menn í góðu tómi en temmilega bjartsýnir á að sjóbirtingurinn myndi vera duglegur að sýna sig enda oft talinn ljósfælinn fiskur. Við þurftum þó ekki lengi að bíða til að afsanna það þennan daginn því það var fiskur á báðum stöngum innan 5 mínútna. Þessi taktur hélst í rúman klukkutíma og því allir komnir með nokkra fiska fljótt. Hrikalega skemmtilegt og fiskurinn var grimmur, til að mynda renndu sér fiskar nokkrum sinnum á tökuvarann án þess þó að halda. Þá var prufuð þurrfluga en þeir létu reyndar ekki ginnast við því.
Við röltum svo niður eftir Bakkanna og rákum í fiska víða. Sennilegast um 25 fiskar á land á nokkrum klukkustundum. Mest bjartur og lítill geldbirtingur en þó toguðust nokkrir í 50-58 cm á lengd. Fiskarnir tóku allir litlar púpur í stærðum 14-18 og á grannan taum. Phesant tail, Perdigon, Midge og Hot Chick til dæmis. Virkilega skemmtilegur dagur sem endaði í prýðis smörrebrauði á Matkránni í Hveragerði. Flugur.is þakka Varmá fyrir virkilega skemmtilegan og bjartan veiðidag.
Þú færð veiðileyfin í Varmá hérna!
Við þetta má bæta að Flugur.is heyrðu í einum veiðimanni við Elliðaárnar í vorveiðinni á kvöldvakt gærdagsins. Sá var sáttur eftir góða vakt, landaði 6 urriðum og þar af 3 mjög flottum 54-60 cm löngum. Góður dagur það. Veiðileyfin í Elliðaárnar fást líka hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur.