Í tveggja daga túr er eins dags tökuleysi nokkuð hátt hlutfall. Á allar stangir í öllum hyljum, breiðum og strengum! Í næstum heilan dag fékk enginn töku á neinum stað þar sem við vissum þó af laxi. Þetta furðulega tökuleysi lýsti sér í því að ekki fékkst högg né var lax reistur, bara dauði. Eitt er þó skemmtilegt við svona ástand: Maður reynir allt!
Smæstu örflugur á reki eða strippi, stórar flottúpur á reki eða með gáru, langhalar á reki, strippaðir eða gáraðir, númer 10-16 og svo stærra: Straumflugur líka og loksins þegar maður setti niður þyngda túpu beint á legustaði kom ekkert viðbragð heldur. Ég bar þetta undir vanan veiðimann og leiðsögumann: ,,Jú, það er bara stundum eins og slökkni á ánni frá upphafi til ósa?. Sjálfur var hann að leiðsegja í annarri á samtímis og þar var ástandið þannig að ef laxinn sá flugulínuna var vonlaust að ná honum. Slík var styggðin. Við vorum undir heiðum himni í bjartri sól, það kólnaði hressilega á kvöldin og var kalt fram undir níu á morgnana. Hjálpar ekki. En svo komu skot. Allt í einu um tíuleytið að morgni tóku fjórir á einum klukkumtíma í einum hyl, þrír á sömu fluguna. Eða aðra stund: Ég reisti fjóra í gárubragðið og þar af tvo í sama kasti, á sömu breiðunni. En enginn tók.
Gaman samt
En þetta er skemmtileg glíma á sinn hátt. Ekki síst vegna þess að þar sem þetta var eini bókaði laxveiðitúr sumarsins var ég ákaflega vel undirbúinn. Í vetur bað ég félaga minn Óskar Pál að hnýta nokkrar góðar í box til að hafa með. Ekki vantaði neitt upp á handbragðið og nú var ég kominn með fluguna hans nýju frá í fyrra, Avatar, og eitt leynivopn að auki.
Sun Ray tók einn og reisti nokkra
Oft hnippi ég í Dr. Jónas til að fá heilræði og flugur fyrir svona túr og ég bætti nokkrum við í safnið til að vera öruggur, sérstaklega er ég á því að Sun Ray túpurnar hans séu góðar. Í vetur skimaði ég nokkur gömul eintök af Flugufréttum í leit að hugmyndum. Sá þar viðtal við Einar Fal Moggaljósmyndara og veiðimann þar sem hann lýsti ,,flugunnni sinni?. Mér fannst hún svo ljómandi spennandi að ég bað hann um nokkur eintök, þetta er flottúba á álrör, frænka Sun Ray en með Temple Dog væng og lifandi í vatni, Einar Falur lofaði mér hjálp og nú var hún í brjóstvasanum.
Úr því að Ásgeir fékk á Viagra taldi ég víst að sama myndi virka hjá mér.
Nokkrum dögum fyrir túrinn sá ég frétt á flugur.is um nýja túpu frá Ásgeiri Ebenesar Þórðarsyni, Viagra, sem tók 16 punda hrygnu í Soginu. Heimsókn til hans leiddi til þess að ég gekk út með mjög svo spennandi safn af léttum og kóntúpum sem ,,gátu ekki klikkað?.
Spenningur
Svo var ég orðinn svo spenntur að ég raðaði öllum mínum laxaflugum í box upp á nýtt, flokkaði eftir stærðum og gerðum og gerði svo sithvort ,,fyrsta val? boxið handa okkur hjónum, keypti nýja króka á flottúpurnar og hélt ég væri góður. Sá svo langtímaspána á yr.no og ákvað að renna við í búð til að kaupa bjartviðrisflugur. Fékk vitrun, og bað um Brá. Þau í Veiðiflugum áttu hana, en þessa flugu fékk ég einn sólardag hjá Palla í Veiðihúsinu. Við vorum saman í Elliðaám á heiðríkum sólardegi og hann setti í fiska en ég enga, og flugan hans var Brá. Eigin smíð sem hann gaf mér með þeim ummælum að hún væri góð í sól. Ég tók nokkrar. Brá er með hvítum löngum væng yfir silfur búk, aðeins svartur kragi. Bætti svo við í Silver Sheep safnið, hafði það langala númer 14-16, henti svo inn minni Black and Blue langhölum líka og sagði félaga mínum í hópnum sem var með mér á staðnum að gera slíkt hið sama. Við tókum líka smáan Haug til að vera vissir.
Þetta fannst mér góður undirbúningur. Enda vaknaði ég klukkan fimm morguninn sem við áttum að hefja veiðar síðdegis og gat ekki sofnað aftur.
Hefst nú veiðin!
Leitin að laxinum
Fyrsta vakt var að kvöldi og við fundum lax í einum streng en ekki vildi hann taka, fórum þá á stað sem gaf okkur vel í fyrra og sá gaf mér starx á Sun Ray, gjörbreyttur strengur frá fyrra ári en einkar fallegur og ég montinn að hafa lesið ólgurnar fyrir neðan steinana rétt með flottúbunni. Félagi í hópnum fékk líka lax svo þetta leit alls ekki illa út fyrir morgunvaktina. Enda byrjaði hún vel: félagi á stöng og lífsförunautur tók tvo á Brá í morgunsárið - skafheiðríkt - og þeir komu í hvelli. En þá var slökkt á Norðurá í heilan sólarhring. Enginn fékk fisk fyrr en síðla næsta morguns, síðustu vaktina.
Á sumum stöðum var slatti af laxi. Í einum hyl sáum við tólf laxa í fallegum röðum og þar af tvo mjög væna. Í nokkrum strengjum höfðum við staðsett laxa sem stukku og þráköstuðum og allt mjög vandvirknislega og þeim mun ítarlegar sem ekkert lét á sér kræla.
Þetta þýddi að allt var reynt.
Barið
Meðal þeirra sem fengu að synda
Litlar gárutúbur og örtúbur voru sendar með örmjóar rákir yfir vatnsflötinn. Ég lengdi tauminn heil ósköp og strippaði örflugur #16 eða lét þær reka. Sun Ray fékk auðvitað að fara með gáru eða á reki. Smáflugur sem eru pottþéttar fóru í 45 gráðu horni niður, og svo þvert, og svo upp og andstreymis: Rauð og svört Frances, Avatar, Haugur, Black and Blue, Silver Sheep og álíka sterkt úrval ásamt Brá og nokkrum öðrum. Fínu túpurnar fóru niður í alls konar afbrigðum af köstum og reki. Þar sem vatnið var gott og sólin björt prófaði ég straumflugu eins og Black Ghost. Þegar komið var undir kvöld fékk þýska Snældan að spreyta sig á dauðareki þvert þar sem ég vissi að lax lá. En nei.
Ég er alls ekki frá því að góður veiðimaður hefði getað sært upp fisk. En þetta innilega staðfasta viðbragðsleysi hjá öllum löxum á öllum svæðum á allar stangir var einfaldega ótrúlegt! Einn hyl prófaði ég án þess að vita hvort þar væri fiskur. Ekkert líf. Sun Ray, frances, Black ad Blue með kón plús nokkrar aðrar hefðu átt að vekja viðbragð, einhver þeirra. Ég taldi staðinn fisklausan. Um kvöldið kom félagi og sá þá að þarna var lax stökkvandi um allan hyl. En fékk engan í fluguna.
Mest allan tíman var mikið rok og ekki ský á himni.
Hvað virkaði svo?
Fyrri laxinn minn kom á Sun Ray tveggja tommu flottúpu á reki, sá síðari á Silver Sheep langhala #14 í yfirborðinu. Ég reisti nokkra: Fékk flott viðbrögð á Frances gárutúpu með gulum haus, Túpan hans Einars Fals reisti lax oftar en einu sinni. Sun Ray reisti nokkra á gárunni og svo fékk ég gott högg á Black Ghost í vindbörðum hyl. Mest varð ég hissa á að fá ekkert á bláar og bjartar túpur sem Ásgeir Ebenesar lét mig fá, ekki á Avatar, og aldrei neitt viðbragð á Frances flugu!
Félagi minn á stöng og eiginkona fékk á Black and Blue langhala, Brá tók tvo, og hún missti fisk á Black and Blue og annan á Haug. Einn félagi í hópnum fékk á Silver Sheep og síðan þrjá á vænglitla Haugs/Nagla týpu #14.
Hópurinn endaði með 10 laxa, 3 stangir í tvo daga, sem er minna en þriðjungur af veiðinni á sama tíma á sama svæði í fyrra. En samt langt yfir landsmeðaltali! Sá sem tók Silver sheep #14 í yfirborði brunaði út með línuna af sexunni sem loksins var hægt að nota undir lok ferðar þegar hávaðarassgatið Bogarfjörður lét loksins lygna. . Þegar nær dró sá ég að annar lax fylgdi honum eins og skuggi í baráttunni, fór í hringi kringum félagann og synti svo samhliða lengi vel. Þetta stóð í drjúgan tíma og skildi ég að ástin er alltaf sterksta aflið. Ákvað að taka hart á og leyfa örlögunum að ráða: færi hann færi hann í friði. Um kvöldið fór hann í pottinn og nú verður hrygnan að finna annan sér við hlið. Hefur allt sumarið til þess.
Ég hef allt sumarið til að hugsa um hvort ég hafi gert rétt. En hann dó ekki til einskis. Einkar ljúffengur um kvöldið. Þannig lauk viðburðaríkum veiðitúr.
Endurbirt skrif Stefáns Jón Hafsteins