
Við vorum, ég og konan mín, Kristín Kjartansdóttir stödd á silungasvæðinu neðan virkjunar í Aðaldalnum.
Við gengum upp með ánni og ég benti konunni á nokkrar endur sem að syntu undan bakkanum með ungaflokk á eftir sér og við stoppuðum aðeins til að virða þetta fyrir okkur.
Þar sem að við stöndum sé ég að fiskur er að vaka rétt við bakkann og sé að þetta er ekki einn af þessum "tittum" sem að eru gjarnan alveg í flæðarmálinu, heldur var þetta alvöru fiskur sem að glefsaði letilega í það sem að rann til hans með straumnum.
Við ákváðum að skoða þetta betur og ég gekk nær bakkanum og í því buslaði einn andarungi undan bakkanum, nokkuð stálpaður ungi og bara einn fyrir utan kolluna sem að flaug upp. Við fylgdumst aðeins með honum djöflast frá bakkanum, sem að hann gerði með nokkrum látum og buslugangi og ég var einmitt að hugsa um hversu dæmigert þetta væri, maður sér fisk vaka og hann er fældur burt af buslandi öndum, lómum eða álftum.
Nema hvað, við sjáum þennan fisk vaka aftur á sama stað og unginn æðir áfram talsvert fyrir ofan hann, þar sem að hann síðan hverfur niður með látum. Þá segir konan mér að hún hafi séð annan fisk vaka fyrir ofan hinn og ég sagði að það gæti passað, en ég væri nokkuð viss um að þetta hefði bara verið unginn að stinga sér.
Svo líður og bíður og aldrei kemur unginn upp og ég loksins átta mig á því að þetta var rétt hjá okkur báðum, þarna var fiskur að vaka og þarna fór unginn niður, hann var bara dreginn niður. Enda áttaði ég mig á því eftir smá pælingar að enginn ungi kafar með þessum látum.
Eftir að við vorum búin að átta okkur á þessu ákváðum við að kasta flugu upp í þessa fiska og reyna að ná sönnunargagninu, þó svo að dökkmálaður tennisbolti hefði sennilega hentað betur en fluga, miðað við það sem við höfðum séð. Ég færði mig aðeins ofar og við köstuðum svolitla stund. Þegar ég gekk svo niður bakkann kom ég að unganum þar sem að hann hafði náð að staulast upp á litla þúfu undan bakkanum. Það fór ekki á milli mála að þetta var sami ungi, þar sem að hann var í dauðakippnum, af sömu stærð og augljóslega særður.
Við fórum með ungann heim í "kamp" og skoðuðum hann vel og það var augljóst að það var rifið í hann allavega tvisvar.
Hann var hamflettur lítillega á öðru lærinu en mun meira skaddaður hinum megin, þar var lærið hamflett og kviðurinn opinn og garnir lágu út. Þetta finnst mér benda til þess að þarna hafi verið fiskur á ferð sem að tók of stórt upp í sig en samt fiskur á að giska 1-2 kg, miðað við þá fiska sem að við síðan veiddum á þessum slóðum.
Og miðað við þá ágiskun og þá staðreynd að þarna var nokkuð stálpaður ungi á ferð ( eins og sést á myndunum) þá veit maður það að urriðinn er grimmur og ræðst bara á það sem að honum sýnist þegar honum sýnist. Hann hefði allavega aldrei náð að éta þennan fugl í einum bita.
Ég hef heyrt sögur af ungum, músum og öðrum kvikindum sem að fundist hafa í maga urriða en aldrei orðið vitni að neinu svona fyrr, samt sem áður veit eg að urriðinn er til alls líklegur og hef (mér sjálfum) það til sönnunar að ég lenti í því fyrir rúmum tuttugu árum síðan þegar ég var að veiða á Múlatorfu að urriði tók svartan Toby á flugi. Ég var að kasta Toby ( þegar það mátti í den ) í átt að litlum hólma, og í eitt skiptið, þegar spúnninn var kominn hálfa leið yfir flötinn, stökk upp í hann urriði og gleypti niður í maga. Þess má geta að þetta var stærsti urriði sem að ég hef fengið í Laxá, hann vóg 4,5 kg.
Saga send inn af Kristjáni Kristjánssyni í júlí 2012
Takk Kristján