2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
18.5.2020

Fullt af fiski í Færeyjum! - úr safni Flugufrétta


Fluguveiðar eru ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við heyrum minnst á Færeyjar enda eru eyjarnar 18 sæbrattar og undirlendi lítið sem ekkert. Það gefur því augaleið að lítið er um langar og miklar ár í eyjunum. Engu að síður eru veiðimöguleikar miklir í Færeyjum og töluvert um að fluguveiðimenn sæki eyjarnar heim, sveifli þar flugustöngum og leiki sér við sprettharða sjóbirtinga.

Níels Valur Jónharðsson býr í Vágur á Suðurey og hefur búið þar í rúm tvö ár. Níels er forfallinn fluguveiðimaður og hann viðurkennir að hafa ekki átt von á því að vera að flytja í fluguveiðiparadís þegar hann pakkaði sínu hafurtaski og flutti til Færeyja, "en ég var mjög hissa þegar ég komst að því að hér er hver einasti lækur og allir pollar fullir af silungi og hér stunda ég fluguveiðar allt árið um kring."

Að sögn Níelsar er ekki mikil hefð fyrir fluguveiðum í Suðurey né í Færeyjum. "Þó er meira um þær í nyrðri eyjunum en hér í Suðurey. Fólk hér vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar það sá mig á vappi í fluguveiðigallanum, í vöðlum, jakka og með háf. Fólk kímdi en brosið fór fljótt af þeim þegar það sá að ég veiddi ansi vel í bæjarlæknum þar sem engan grunaði að fisk væri að finna. Gömlu karlarnir í Vágur urðu ansi hissa þegar þeir áttuðu sig á því að hversu mikill urriði væri í læknum sem bæði er frekar lítill og ansi grunnur. Ég hélt skrá yfir veiðina til þess að byrja með en hætti skrásetningu þegar ég var búinn að bóka yfir 700 veidda urriða," segir Níels.


Níels með einn úr bæjarlæknum.

Ástæðan fyrir því að urriðinn er í hverjum polli í Færeyjum er að sögn Níelsar sú að Færeyingar hafi ræktað upp urriða sem víðast því þeir notuðu hann sem beitu þegar þeir réru til fiskjar. Nokkuð er af pundsfiskum, eins og gengur og gerist, segir Níels, mikið af þriggja til fjögurra punda urriðum og nokkuð af stærri fiski. "Hér eins og heima eru til tröllasögur eins og af urriðunum í Vágey en þar þótti ekki óalgengt að menn veittu allt upp í 12 kílóa fiska en best finnst mér sagan af þeim sem veiddist á Straumey fyrir hundrað árum eða svo. Sá var seldur á uppboði og var við söluna hvorki meira né minna en 23 kíló. Já, þeir kunna að segja sögur hér í Færeyjum," segir Níels sem bætir því við að urriðinn vaxi og dafni í eyjunum því þar á hann enga óvini, "eyjarnar eru alveg lausar við mink."

Níels segir sjóbirtinginn haga sér öðruvísi í Færeyjum en við Ísland. "Heima erum við vön því að birtingurinn gangi til sjávar á vorin og komi aftur í árnar að hausti og fram eftir vetri. Mér finnst hins vegar að urriðinn hér sé að ganga inn og út allt árið um kring. Lítill lækur getur verið stútfullur af fiski einn daginn, tómur þann næsta en smekkfullur af fiski þann þriðja, já og svona gengur þetta allt árið um kring. Veðurlag er slíkt að hér er grænt gras allt árið og að sama skapi viðrar til veiða alla mánuði ársins, ef ekki er þeim mun hvassara," segir Níels sem helst notar ekki þyngri græjur en fyrir línu númer þrjú. "Ef ég set í bolta, þá bara glími ég við hann með þessum létta búnaði."
Þótt Níels hafi mest talað um urriða er nokkuð um laxveiðar í Færeyjum en mest í vötnum, segir Níels. "Á Straumey er vatn sem heitir Leynavatn og úr því rennur Leynaá. Þar er líka Saxun sem er gamalt bátalægi sem lokaðist einhverju sinni í óveðri. Á báðum þessum stöðum er lax sem mér er sagt að sé af Elliðaárstofni. Bannað er að veiða laxin í ánum sem renna í og úr þessum vötnum, en Færeyingar veiða laxinn í vötnunum.


Árnar í Færeyjum eru ekki þær vatnsmestu en fullar af fiski.

Níels segist ekki hafa mikinn áhuga á að veiða laxinn í vötnunum en þeim mun meiri áhuga á urriðanum sem hefur sama smekk fyrir flugum og sá íslenski. "Ég veiði mikið á Black ghost, Black Zulu, Peacock, Alder og flugu sem ég hannaði sjálfur og kalla Iron Maiden," segir Níels sem gjarnan vill vera Íslendingum innan handar við fluguveiðar í Færeyjum. Hægt er að komast í samband við Níels á 
Fésbókinni.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði