2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
21.5.2020

Risaurriðar í Þingvallavatni - úr safni Flugur.is

Vorið 2020 hefur verið gjöfult á risaurriða á Þingvallavatni. Við höfum sagt frá ógurlegri veiði við Ölfusárós, Villingavatnsós, Kárastaði, Þorsteinsvík og margir hafa rifið upp risafiska í Þjóðgarðinum. Urriðinn hefur verið að vaxa og dafna eftir að veiðimenn fóru að hlúa að stofninum og sleppa fiskinum aftur. Það hefur sýnt sig að þessir fiskar verða fjörgamlir og það helst mikið fjör í þessum þykku fiskum því nóg er fæðið í vatninu. Við horfum nokkur ár tilbaka fyrst sínum við nokkra fiska frá 2013 en svo kemur frásögn frá 2001 þegar urriðastofn vatnsins átti undir mikið högg að sækja. 

Vorið 2013 hefur verið einstaklega gjöfult á risaurrðiða í Þingvallavatni.  Stofninn er greinilega á uppleið og menn kunna betur á fiskinn en áður. Flugufréttir hafa sýnt fágæta fiska og flugurnar sem þeir taka.  Fyrir 10 árum heyrði það til einstakra tíðinda ef menn fengu risafiska. Lítum á þá og rifjum upp gamlar sögur sem Flugufréttir sögðu á sínum tíma.

Byrjum á einum sem er ákaflega duglegur á Þingvöllum:


Tommi Za hefur hefur sett í fjölda svona fiska á Þingvöllum og sagt okkur lauslega frá.  Hann veiðir djúpt til að byrja með á vorin, með sökklínu af sundmaga og notar straumflugur.  Nýjasta hjá honum er að nota Zonkera sem Flugufréttir frumsýndu:


Hnýttar af Jóni Inga Ágústssyni (í smiðju hans í Tælandi) og hefur Tommi notað þær í nokkrum afbrigðum vorið 2013.


Vorið 2012 náði Tommi þessum á Black Ghost Sunburst.


Og svona myndir hafa flogið víða síðstu 2-3 árin.  

En hverfum 10 ár eða svo aftur í tíman.  Þá þóttu svona tröll fáséð, en Flugufréttir komust samt á snoðir um nokkra!

Í maí 2001 endurtók sig lygileg veiðisaga frá sumrinu 2000 þegar veiðimaður tók átján punda fisk á sama stað, sömu flugu og sömu stöng á árið áður þegar hann dró 15 punda urriða. 

Sumarið 2000 var Andrew Horne sá lánsami veiðimaður sem kastaði Peacock númer 12 fyrir smábleikjur á Öfunsnáða og uppskar draum allra silungsveiðimanna: hinn eina sanna Moby Dick.  Nema ennþá stærri fiskur tók hjá honum ári síðar.  Og tveimur árum áður var Hrafn Ágústsson að veiðum ekki langt frá og fékk heljartöku.  Sögurnar eru hér.

Venjuleg bleikjutaka
Andrew býr í Keflavík og hafði veitt vel um morguninn, látið til leiðast að fara með félögum aftur í vatnið og stefndi á Öfugsnáða. Þar stóðu þeir þrír í röð þegar tekið var í Peacockinn klukkan 21.20: "Þetta var eins og venjulega bleikjutaka" segir Andrew, og bætir við: "Það var lítil taka og ég var hissa, kallaði á hina, "nei sko það er fiskur!"" Um leið stökk tröllið á milli þeirra tveggja, svo sem tíu metra úti. "Það var merkilegt að sjá hann eins og lax, silfurbjartan, ekki með rauðum deplum eins og venjulega á urriða". Og svo fór línan út!

 

 

Fjórum sinnum út
Hver einasti veiðimaður getur sett sig í spor Andrews þegar urriðinn strikaði út með næstum alla línuna. Ekki einu sinni. Ekki tvisvar. Ekki þrisvar. Heldur fjórum sinnum. "Það voru kannski 20 metrar eftir af undirlínunni þegar minnst var" segir Andrew.

Góður veiðimaður
Andrew er greinilega góður veiðimaður. Hann var í 30 mínútur að þreyta flekann og var ekki með neinn tröllabúnað. ABU Garcia stöng fyrir línu sex, Cortland hjól og intermediate línu; en flugan sem fiskurinn tók var númer 12. Það er vel gert að landa svona stórum og sterkum fiski á þennan búnað. Hiklaust má jafna við að hann hefði náð 25 punda laxi við venjulegar aðstæður.

Bleikjuæta
Fiskurinn var rannskaður og reyndist vera átta ára urriði  með bleikjubein í maganum og ekkert annað. Hvað hann var að hugsa með að taka Peacock númer 12 er ráðgáta, en vekur hverjum veiðimanni von: Hér eftir er ekkert ómögulegt!

"Ég hitti mann sem er búinn að veiða á Þingvöllum í 40 ár og hefur aldrei veitt stærri urriða en 2 pund" segir Andrew.  Hann hafði samband við Þingvallavatnsurriðafræðing landsins, Össur Skarphéðinsson, sem sagðist ekki vita til að stærri urriði hefði verið tekinn á flugu í vatninu.

Stóri fiskurinn í maí ári síðar var 80 sentímetrar á lengd, sá fyrri var 6 sentímetrum lengri.  Sá fyrri var mun erfiðari á færi en hinn.  En því verður ekki neitað að seinni fiskurinn er ekki bara stærri, hann er mun fallegri í vextinum, ekta ísaldarurriði, stuttur, þrekinn og silfraður.  Svona fiskar eru sómi Íslands og vaxtarlagið má sjá á ekta fiskum í Þingvallavatni, Veiðivötnum og Laxá í Þingeyjarsýslu.

Draumafiskurinn tekur
"Ég hef veitt á hverju ári í vatninu síðan 1976" segir Hrafn Ágústsson, "og aldrei veitt meira en einn og einn urriða, enda ekki beint á þeim veiðum".  Það átti eftir að breytast.  Svo háttaði að Hrafn fékk gefna flugu frá vini sem á hvíldi sú helgi að hana mætti nota í urriða í Þingvallavatni.  Það var svo þegar kom að veiðitíma að Hrafn var sem oftar í bústað við vatnið og hafði draumfarir eigi sléttar: vitjaði hans í draumi flugan góða sem honum hafði áskotnast.  "Hún sat svo sterkt í mér þegar ég vaknaði að ég setti hana í vestið" segir Hrafn, en var þó ekki frekar í urriðahugleiðingum en áður  "Það var hægur andvari, lítil gára" segist honum frá,  "ískalt og steindautt vatn að sjá"; engin bleikja að taka.  Mun þá Hrafn hafa sagt við sjálfan sig, "Jæja, heyrðu, nú skelli ég á strímernum", en draumflugan var einmitt þeirrar tegundar.  Eftir tvö köst "sýnist mér sem ég sjái eitthvað í gárunni" segir veiðimaðurinn.  Ekki beint að hann sæi hvað það væri, frekar að gáran væri ekki jöfn á tilteknum stað.  Þetta var skammt undan landi. Nú er rétt að geta þess að Hrafn var auðvitað með einhendu, fyrir línu sex, og ekki nema sex punda taum, en til allrar lukku hafði hann sneitt framan af girninu þriggja punda enda sem hann notar í bleikju.  Út fór flugan og um tvo metra fyrir framan punktinn þar sem Hrafni sýndist gáran í yfirborðinu eitthvað dularfull.

Eitthvað rosalegt

Ekki hafði hún lent almennilega á vatninu þegar hún var tekin.  Eitthvað rosalegt kom úr vatnsgárunni á fullri ferð og greip fluguna og stöðvaði ekki andartak heldur strikaði á fleygiferð beint út.  "Ég vissi ekkert hvað þetta var" segir veiðimaðurinn um dýrið sem fór á siglingu burt með línu og undirlínu sem rann út af hjólinu með ógnarhraða. 

"Ég hef tekið 20 punda lax á flugu en það var bara grín" segir Hrafn um þennan slag sem nú fór í hönd.  Línan var næstum öll komin út þegar veiðimaðurinn sá loks hvað þetta var, skrímslið stökk og djöflaðist "250 metra úti"; þá fyrst stöðvaði fiskurinn hlaupið.  Hrafn tók á öllu sem hann átti til að þræla fiskinum að landi, en þó ekki með of miklu afli því taumurinnn var fyrir annan stærðarflokk en þennan.  Fiskurinn fór tvisvar út með alla línuna.  Slagurinn stóð í 40 mínútur.  Þegar hann loksins þokaðist nær landi mundi veiðimaðurinn eftir því sér til gleði að þegar hann var við veiðar vikuna á undan hafði hann brotið bleikjuháfinn sinn.  Í stað hafði Hrafn gripið stærri háf með lengdu skafti og hefði líkast til aldrei getað náð fiskinum án hans.  En það vildi hann svo sannarlega.

Sá stóri reyndist 13 pund
"Þetta var í fyrsta skipti sem ég reyni að veiða urriða" segir Hrafn, og ætlar svo sannarlega að beina sjónum að þeirri tegund í þjóðgarðinum.  Fiskurinn fór upp á spjald og ekki bara til að monta sig af honum: "Ég vil að sem flestir sjái  hann, við verðum að bjarga þessum stofni" segir veiðimaðurinn.  Hrafn telur líklegt að þessi fiskur sé úr sleppingu Landsvirkjunar á seiðum frá 1992, enda uggaklipptur.  "Það má því sjá að vöxturinn er rosalegur".  Urriðinn er nánast fullkominn, vöðvarnir ótrúlegir og stirtlan og sporðblaðkan eins og best verður á kosið fyrir fisk sem drottnar í ríki sínu.   Draumurinn um að endurreisa þennan konunglega stofn hlýtur að knýja á þegar svona saga er sögð;  Þingvallavatn gæti orðið eitt af heimsins mestu veiðivötnum nái urriðinn fyrri styrk.

Flugan.
Straumflugan sem urriðinn stóri tók er "eftirlíking af síli" segir Hrafn, með gulan hárvæng og ljósbláan búk,  "en ég held að það hefði ekki skipt neinu hvað þetta var, hann tók með þvílíkum hvelli um leið og hún lenti". 

Spurður um almenn ráð fyrir veiðimenn í Þinvallavatni hlær Hrafn: "vera í hlýjum sokkum!"   Vatnið er kalt og varasamt að því leyti.  Hrafn veiðir alltaf með flotlínu og löngum taumi, 20 fetum, og lætur mjókka alveg fram í þriggja punda girni fyrir bleikjuna.   Og notar tvær flugur, "botninn tekur mikið af flugum" segir hann: "til að vera í fiski þarf að veiða nálægt botni,   meðfram köntum".  En nú þegar hann er kominn með urriðann í blóðið tekur við ný könnun á Þingvallavatni. Ef þið sjáið mann með stórfiskaglampa í augum við vatnið í vor, þá er það að líkindum Hrafn.

Ath: Veiðimálastofnun hefur varað við því að menn neyti stóru urriðana vegna kvikasilfurs í holdi þeirra:
Barnshafandi konur ættu alls ekki að leggja sér þá til munns. Margir veiðimenn kjósa að sleppa þeim, eins og Tomma Za sem sagt er hér frá, hann veiðir marga fiska og það stóra, en sleppir alltaf Þingallaurriða.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði