Hjörtur Sævar Steinason var með eftirlætis fluguna sína Watson's Fancy í vasanum þegar hann sökk á bólakaf í Meðalfellsvatn á sunnudaginn. Hjörtur var þarna með fjórum félögum sínum og ætlunin var að dorga með beitu í gegnum ís en brúka Watson's Fancy ef allt annað brygðist.
Eins og lesendur Flugufrétta muna þá hét Hjörtur því að veiða eingöngu á þá ágætu flugu Watson's Fancy í alls kyns útgáfum sumarið 2018 en nú var kominn veturinn 2019 og því ekkert að því að prófa eitthvað annað. Flugufréttir höfðu mælt sér mót við Hjört til að ræða Watson's Fancy tilraunina þegar fregnir bárust af því að Hjörtur hefði fallið í gegnum ís ofan í jökukalt Meðalfellsvatn.
Hvernig er slík lífsreynsla?
"Hún er erfið. Hún er köld. Það bærist eitthvað innra með manni eitthvað þungt sem erfitt er að útskýra. Maður meyrnar, manni þykir allt í einu vænt um alla. Svo fer maður allt í einu að hugsa: "Úff þetta hefði getað farið illa" en það kemur ekki strax. Og svo fer maður að hugsa hvernig tilvistin sé hinum megin, hvort maður fari upp eða kannski niður en hugsar svo að það geti ekki verið. Maður fer upp að veiðilendunum eilífu þar sem maður getur sett undir Watson's Fancy. Já hvernig ætli hún reynist þar?"
En hvað viltu segja við þá sem hyggjast e.t.v. fara að dorga í gegnum ís um helgina eða á næstu vikum og mánuðum? Einhver varnaðarorð eða heilræði?
"Maður á fyrst að tala við einhverja sem eru kunnugir staðháttum. Þegar komið er að vatninu á maður að taka 2-3 skref út á ísinn og hoppa. Fara svo 2-4 skref í viðbót og prófa að bora þar. Ef ísinn er 10 sm þykkur eða meira er kannski ástæðulaust að bora mikið dýpra. Gæti verið botnfrosið og ekki gott að fara með borinn í grjót. Þá er rökrétt að færa sig kannski svona 10 metra frá landi og bora þar. Ef ísinn er enn 10-15 sm þykkur eða meira þarf ekki að hafa miklar áhyggjur.
Rauður hringur utan um vökina þar sem þeir félagar fóru fjórir í vatnið.
En maður hefur samt alltaf varann á. Það getur verið straumur undir ísnum sem orsakar þynningu, það geta verð kaldavermsl, það geta verið heitar uppsprettur og ugglaust eitthvað fleira sem veldur því að ísinn nær ekki fullum styrk.
Það er líka gott að hafa meðferðis langa spýtu eða stöng sem hægt er að nota til að vega sig upp á ísinn ef maður fer niður um vök. Það er ekki alltaf hægt að treysta ísbrúninni. Í flestum tilfellum er ástæðulaust að fara langt frá landi. Fiskurinn er yfirleitt á grynningum og þar sér maður maður oftast til botns. Það fer svolítið eftir því hversu þykkur ísinn er og hvort það sé snjór á honum."
En svo er það Watson's Fancy ævintýrið. Hvernig gekk það? Varla stóðstu við það að veiða eingöngu á Watson's Fancy í alls kyns útgáfum síðasta sumar?
"Ég verð nú að segja að ég veiddi minna en ég ætlaði mér. En jú ég stóð við það að veiða bara á WF. En það var mjög erfitt, sérstaklega í Veiðivötnum þegar menn voru að fá hann á hinar ýmsu flugur en mér gekk nánast ekkert. Það upplifði ég líka í Hlíðarvatni. Og þó að það hafi verið erfitt á stundum þá ætla ég að gera þetta aftur næsta sumar og jafnvel næstu sumur."
Hjörtur hnýtir Watson's Fancy í öllum útgáfum og stærðum, grunnlitirnir alltaf þeir sömu. Neðst til vinstri má sjá orginal Watson's Fancy silungaflugur.
Hvar gekk þér best með Watson's Fancy síðasta sumar?
"Mér gekk best á silungasvæðinu í Vatnsdalsánni rétt eftir miðjan ágúst. Það var norðan þræsingur og ekkert að gerast þegar við mættum á svæðið en það rættist úr þessu og þegar upp var staðið hafði ég landað 12 fínum fiskum á alls kyns Watson's Fancy útgáfur."
Ætlarðu aftur út á ís til að dorga þennan veturinn?
"Að sjálfsögðu. Við erum allir heilir og búnir að ná í okkur hita. Svo á eftir að taka upp þáttinn með Gunnari Bender sem við vorum að undirbúa og hann verður sýndur á Hringbraut. Maður fordæmir ekki skóginn þó falli eitt laufblað."
Ef þú mættir hafa með þér eina flugu á eyðieyju í risastóru stöðuvatni, hvaða fluga myndi það þá vera?
"Watson's Fancy. Það er engin spurning. Ég er farinn að hallast að því að ef hann tekur ekki WF þá sé bara enginn fiskur á svæðinu."
-rhr
Úr safni Flugufrétta
Upphaflega birt í febrúar 2019