Þegar þú þræðir línuna upp eftir stönginni þarftu oft að leggja hana niður við jörð og hjólið getur rispast. Taktu af þér höfuðfatið, legguðu stangarendann með hjólinu inní og dragðu línuna í gegnum lykkjurnar án áhyggju!
Ekki draga línuna út þannig að stöngin bogni, heldur dragðu fyrstu faðmana beint fram af stangaroddi, það er skrítið en margir brjóta stangir við að draga úr fyrstu fetin af línu.
Athugaðu alltaf haldið í stangarhaldara áður en lagt er af stað, maður veit aldrei. Segulhaldarar eru taldir bestir. Hægt er að hnýta stuttan girnisbút í stangarhaldara og festa við stuðara (þann fremri) og við rúðuþurrku (þann efri) svo að þeir fari ekki langt ef þeir losna.
Flugnastærðir:
Öngulnúmerið segir til um flugnastærð, fluga á öngul númer 12 er númer 12. Að öðru leyti er kerfið frekar mikið rugl. Því hærra sem númerið er því minni er flugan, allt upp í 28, sem er agnarsmátt kríli. Stærðirnar eru á jöfnum tölum, því er engin fluga númer 17. Stærsta flugan í almenna kerfinu er númer 2, en síðan kemur fluga númer 0/1 sem er stærri, og enn stærri er fluga númer 0/2 og svo áfram. Flestar flugur sem við notum eru á bilinu 2-16.
Taumar:
Einfaldasta kerfið er sverleiki sem gefinn er til kynna með fjölda x-a. 4x taumur er ca 5-6 pund að styrk, 0x taumur er ca 13 pund að styrk, því fleiri x því grennri taumur. Þetta á við svokallaða super strong tauma sem eru grennri en hefðbundnir miðað við styrk. Þegar komið er upp í tauma sem meira en 0x erum við að tala um svera tauma fyrir stórar flugur (og fiska), svo sem Maxima 20 punda, sem margir þekkja. Þá er sverleiki gefinn upp í mm.
Hér er mjög einföld tafla:
Notaður ,,super strong" girni fyrir smáflugur, því það gefur meiri styrk miðað við sverleika:
4x-6x fyrir smáflugur og þurrflugur.
2-3x fyrir kúluhausa og votflugur.
0x-1x fyrir straumflugur og stærri flugur.
Í stærri ám/vötnunum með stórum fiskum notum við girni upp á 15- 25 pund og þá er sverleikinn mun meiri. Veiðivötn og straumflugur: 14-18 punda girni, Laxá í Aðaldal, 25 punda girni (minnst) og þá að hefðbundnum sverleika.
Taumur tekin úr pakka:
Lang bestu taumarnir eru fullfrágengnir og tilbúnir í pökkum í viðeigandi lengdum (Dæmi: 7? 0x = sjö feta taumur með sverleika 0X eða ca 15 punda álagsþol). Þeir eru sverir aftur og mjókka fram, oft með lykkju á svera endanum til að tengja beint við lykkju á flugulínu. Vandamálið hefst oft þegar greiða þarf úr þeim úr pakkanum án þess að flækja. Taumurinn er hringvafinn í pakkanum. Setjið hringinn upp á gleiða fingur annarar handar. Vindið sverari endan fyrst svo hann losni utan af hringvafningnum, síðan leysir maður þetta sundur lykkju fyrir lykkju uns taumurinn í heild liggur laus, þá þarf að strekkja hann milli handa.
Hvað þarf að kasta langt?
Venjulega: stutt. Flestir fiskar veiðar nærri veiðimanni, innan við 10 metra. Venjulega er betra að læðast varlega nær fiskinum en þenja löng köst í áttina að honum.
Þarftu að vaða?
Ef svo, skaltu fara varlega. Í straumhörðum ám lyftir maður ekki fæti frá botni heldur þreifar sig áfram. Maður veður á hlið upp í straum. Ekki niður með straumi, því ekki er víst að maður komist til baka! Ef farið er yfir straumharða á borgar sig að tveir fari saman og taki traustu handartaki í yfirhöfn eða vesti hvors annars undir handarkrika. Þeir sem vaða mikið ættu að eiga vaðstaf til að hafa í beltinu. Já, aldrei vaða án þess að hafa vöðlubelti vel strekkt. Til eru vesti með björgunarbúnaði sem blæs þau út. Ef þú ert mikill vaðfugl ættir þú að eignast slíkt.
Veikir taumar?
Taumar lenda í meiri ævintýrum en okkur grunar: slást við jörð þegar við gætum ekki að kasti, lenda í botni eða verða fyrir rekandi rusli. Gæta verður að taumi öðru hverju með þvi að draga tauminn milli fingurgóma. Minnsta misfella gefur til kynna að girnið hafi skaddast og þá þarf að skipta. Skaddað girni er uppskrift að misstum fiski.
Vindhnútur?
Menn kalla það vindhnúta þegar girnistaumurinn fær með einhverjum dularfullum hætti hnút á sig án þess að maður ,,hafi gert neitt?. Þessir hnútar veikja tauminn um að minnsta kosti 50%. Þess vegna þarf alltaf að skipta um girni þegar maður verður var við þetta fyrirbrigði. Vindhnútar eru í raun ekki neinir vindhnútar, heldur ,,slæm köst hnútar". Þeir myndast þegar lína, girni og fluga lenda saman í loftinu af því að kastið er lélegt. Klippið alltaf á hnútinn og hnýtið girni saman á ný.
Að hnýta fluguna á
Lærðu hnútinn og æfðu þig að skipta áður en þú ferð að veiða, maður á að geta skipt um flugu á 30 sekúndum. Flestir hnútar sem gefa sig gera það vegna þess að maður herðir þá ekki nógu vel. Vættu hnútinn með munnvatni um leið og þú herðir. Æfðu þig að halda vel um girnið meðan þú herðir til að hnúturinn herðist rétt. Notaðu bara nýtt girni, gamalt girni verður stökkt og girni þolir ekki sólarljós langtímum saman við geymslu.
Þarftu nýja línu?
Besta aðferðin til að létta sér veiðina og auka ánægjuna er að veiða með góðri línu. Hreinsaðu línuna oft. En gömul lína verður lúin, hún verður þreytt og stöm, splæstu í nýja, það er svo miklu skemmtilegra að veiða með góðri línu! En einfaldast er að taka línuna niður í vaskafat með volgu sápuvatni, strjúka klúti yfir hana þéttingsfast til að hreinsa skít af og síðan bera bón á hana. Sérstakt línubón fæst í verslunum, en einnig má nota bón sem ætlað er á mælaborð bíla og úða yfir línuna, og vinda svo gegnum klút inn á hjólið aftur.
Viltu sleppa?
Einfaldasta leiðin til að sleppa fiski er að þræða sig niður með girnistauminum með tvo fingur þar til maður nær taki á flugunni, heldur bara við, og fiskurinn sér um að hrista sig af! Til eru sérstakar tangir til að losa flugu og sleppa fiski.
Viltu fæla fisk?
Þá skaltu vaða með látum. Engin önnur aðferð er jafn góð til að fæla fiska frá þér en að vaða með látum í möl eða með skellum og smellum. Ef þú vilt ekki fæla fisk skaltu forðast að vaða og gera það bara varlega. Ekki skvetta, ekki láta mölina glamra undan þér.