2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
14.6.2020

Meistaraveiðiskapur með þyngdar flugur - endurbirt heilræði

Tékkneska aðferðin við púpuveiðar er líklega veiðnasta leiðin þar sem aðstæður bjóða. Hér er henni líst, hvernig á að setja upp tauminn og flugur, og hvernig á að veiða jafn vel og tékknesku meistararnir. Nú er tími til að þróa sig! Stefán Jón Hafstein.

Fyrir nokkrum misserum tóku að berast fregnir af "tékknesku"aðferðinni í erlendum tímaritum um fluguveiðar. Meginlands-Evrópumenn eru miklir snillingar í fluguveiðum. Tékkarnir og Pólverjarnir hafa sópað til sín verðlaunum og athygli á alþjóðlegum mótum þar sem keppt er.

 

Þrjár í röð

Í fyrsta lagi eru nymfurnar þeirra sérstakar. Þær eru sér kaptíuli, því hægt er að nota þess aðferð þeirra með öllum þeim nymfum og púpum sem hugurinn girnist. Aðeins eitt skilyrði gildir: Þær verða að vera mjög vel þyngdar og fara rakleiðis til botns. Tékkarnir veiða með þrjár á taumi. Og maður þarf ekki að kunna að kasta!

Þessi aðferð mun henta mjög vel í sæmilega hröðu straumvatni (ekki stöðuvötnum), vatnið þarf ekki að vera dýpra en í mjóalegg, en má alveg taka manni í læri eða mitti. Sem sagt: alveg kjörin víða á Íslandi. Þessi aðferð er síðri ef ekki ónothæf í djúpum hægum hyljum.

1) Níu til tíu feta stöng er nauðsynleg. (Ekki styttri, Tékkarnir nota rúm 10 fet.) Taumurinn er jafn langur stönginni,8-10 pund að styrk efst. Á hann eru hnýttar þrjár nymfur vel þyngdar. Það er alveg nauðsynlegt að láta þær sökkva hratt, í því er galdurinn fólginn. "Kúpur" (púpur með kúluhaus) eru alveg kjörnar.

2) Bilið milli flugnanna er haft 50 sentimetrar. Þetta er oft lögboðin lengd milli flugna í fluguveiðikeppni (að minnsta kosti sumsstaðar) og virkar greinilega vel. Auðvitað er ekkert sem bannar mönnum að breyta þessu bili. Það er góð viðmiðun til að byrja með. Tvær efri flugnanna eru hnýttar við tauminn með hefðbundnu lagi (dropper). Stubburinn frá aðaltaumi í efri flugunar er um 10 cm.

3) Taumurinn grennist niður í 6-4 pund, eftir því hvað menn treysta sér til fyrir fremstu flugu. Ég myndi ekki bjóða vænum urriða neitt minna en 6 pund.

Niðurstaða: Taumurinn í heild er ca 9-10 fet. Frá fremstu flugu upp í þá næstu eru 50 cm, og 50 cm í þá efstu. Sem sagt, þrjár flugur á fremsta metranum.

4) Þar sem taumur og lína mætast þarf að vera eitthvað sem augað getur fylgt. Til dæmis tökuvari (strike indicator). Vegna þess að nymfurnar eru mikið þyngdar er ekki víst að venjulegur tökuvari fljóti. En að mínu mati nægir hann vel eigi að síður, hann gegnir hlutverki sínu vel þótt hann sökkvi örlítið. Málið er einfaldlega það að maður þarf að geta fylgt línunu enda eftir með augum til að sjá tæpar tökur. Sumir láta sér nægja skærlitt garn þar sem taumurinn er hýttur við flugulínuna.

 

Veiðin.

5) Köstin eru stutt. Veiðimaðurinn velur sér góðan stað, við steina sem gott væri að láta flugur sökkva,eða streng sem fellur fallega fram. Hann dregur út svo sem einn metra af línu fram af stönginni og er það allt og sumt. Nú eru úti þrjú fet af línu og 10 fet af taumi. Þessu vippar maður upp fyrir sig í strauminn. Upp og aðeins út á við. Nymfurnar sökkva hratt niður að botni og koma á fleygiferð í átt til manns. Ekki er ástæða til að taka inn slaka, heldur horfa bara fast á tökuvarann eða annað sem gefur til kynna hvernig línan hreyfist. Um leið og vart verður við kipp, hik eða rás út úr straumi þarf að bregða við.

6) Nú kemur línan niður með straumi til móts við veiðimanninn. Hann lyftir stönginni til að taka inn slaka án þess að draga nymfurnar upp frá botni.

7) Þegar nymfurnar þyrlast niður fyrir hann lætur veiðimaðurinn stangaroddinn fylgja þeim eftir og lækkar stöngina að vatninu til að láta hana vísa niður á við á eftir línunni án þess að taka í.

8) Línan réttir svo úr sér og ef engin taka er á því augnabliki má undirbúa næsta kast. Rétt er að lyfta stangarendanum varlega upp til að athuga hvort fiskur taki einmitt þá.

9) Línunni er ekki kastað. Henni er í raun vippað aftur upp fyrir veiðimanninn. Ekki er raunverulega um kast að ræða. Ekki er þörf á bak kasti. Stöngin er tekin snöggt upp og línan lögð upp fyrir veiðimanninn með einni hreyfingu. Nú eru flugurnar lagðar aðeins meira út -þvert-en áður. Og allt endurtekið.

10) Þessu næst kemur ef til vill þriðja kastið, sem er enn þverara en hinni fyrri, en þá er kominn tími til að færa sig niður með bakkanum um 2-3 skref eða meira, og byrja aftur að kasta næstum beint upp fyrir sig.

Athugið:

Aldrei nein bak köst. Bara vippa þessu rétt upp fyrir sig og passa að lína og taumur leggist, fylgjast síðan vel með, lyfta stangaroddinum þegar flugurnar koma og lækka hann aftur þegar þær fara niður fyrir veiðimanninn. Sára einfalt.

Gætið að því að kasta mismunandi þvert svo flugurnar berist niður með straumi eftir mismunandi brautum. Ekki veiða alltaf sama punktinn.

 

2. hluti.

Hvað er svona gott við þessa aðferð?

 

1) Veiðimenn velja sér líklegt vatn til að byrja með. Lesa, skoða straum og steina, og láta flugurnar þar sem þeir halda að sé fiskur. Nymfurnar eru þungar, þær fara rakleiðis niður og berast frjálslega með straumi eins og æti þar sem fiskurinn liggur. Hann þarf ekki að elta fluguna. Bilið á milli flugnanna tryggir mismunandi dýpt í vatni, hámarks kynningu með lágmarks fyrirhöfn. Tékkarnir láta því nægja eitt rennsli á hvern punkt, eru fljótir að kasta einu sinni til þrisvar þar sem þeir standa - mismunandi þvert - og færa sig fljótt neðar til að flugurnar finni "nýja" fiska. Annað hvort tekur hann fljótt eða ekki.

2) Rek flugnanna á að vera frjálst. Veiðimaðurinn má ekki "toga og tékka". (Orðaleikur! ) Hann á að bregða við um leið og línan hagar sér afbrigðilega. Hann á að vera sérstaklega vel á varðbergi þegar flugurnar eru komnar vel niður fyrir hann og straumurinn lætur þær "sveiflast" að landi. Þetta er hin vel þekkta dauðastund í öllum fluguveiðum. Ef flugurnar eru komnar alveg niður fyrir veiðimanninn og liggja beint án þess að taka hafi fengist, borgar sig að gefa smá kipp áður en þær eru rifnar upp í næsta kast. Þessi erting kveikir oft í fiski sem hefur elt án þess að taka.

3) Samkvæmt tékkunum á þyngsta flugan á að vera í miðjunni. Þetta er umdeilt. Bretarnir veiða oft með þrjár flugur á firnalöngum taumi í stöðuvötnum og segja að fremsta flugan eigi alltaf að vera stærst og þyngst. Þeir sem veiða mikið með tvær flugur á einum taumi hérlendis (dropper) hafa fyrir venju að hnýta þyngstu og stærstu fluguna fremst. Rétt er að menn kanni þetta hver fyrir sig.

Þetta er áhugaverð aðferð þar sem vatnið býður uppá. Kosturinn er að mínu mati að hún hvetur mann til að lesa vatn í staðinn fyrir að þrusa bara út og vona það besta. Þá er hún spennandi (maður er að veiða við tærnar á sér!) og verður að læðast varlega. Ekkert gerir til þótt veður sé vont og blási, maður er ekki að kasta. Og yfirferðin er mikil: maður kannar mikið vatn á stuttum tíma. Og svo er þetta mjög árangursrík aðferð. Hún hefur verið notuð víða eftir að spurðist um og hvarvetna hlotið mikið lof sem ein veiðnasta aðferð sem völ er á - þar sem aðstæður bjóða.

 

Heilræði:

Gott er að klemma línuna við stöngina með vísifingri þeirrar handar sem heldur á. Þegar rek línunnar stöðvast í vatninu, eða tökuvarinn rásar afbrigðilega, á að bregða við með því að lyfta stönginni. Þar með festist flugan í kjaftvikinu á fiskinum. Haldið bara við. Þessar tökur er í raun mjög lúmskar. Það kemur oft ekki í ljós fyrr en eftir smá stund hvort um er að ræða stóran fisk. Þá er betra að hafa ekki mjög stífa bremsu á hjólinu ef hann ákveður að taka á sprettt!

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði