2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
12.6.2020

Kennsla fyrir byrjendur - endurbirt heilræði

 

Ertu byrjandi í fluguveiðum? Viltu fá hugmydir og aðstoð til að auka sjálfstraustið? Hér færðu haldgóðar og einfaldar upplýsingar í ítarlegri grein sem er 10-11 bls. löng. Fyrsti hluti fjallar um tækin, annar um veiðina, þriðji svarar algengum spurni

 1. kafli :

 

Tími til að byrja

Þetta er pistill fyrir byrjendur. Þeir sem lengi hafa ætlað sér að taka loksins skrefið örlagaríka og gerast fluguveiðimenn munu gera það nú. Fluguveiðar eru ekki erfið grein mannlegrar sköpunar. En. Það er alveg nauðsynlegt að fá leiðsögn við að kasta. Og smá hugmyndir um hvernig maður ber sig að. Ekki vegna þess að til sé einn sannleikur. Þvert á móti. En það er gott fyrir sjálfstraustið að hafa leiðbeiningar í kollinum. Þessi grein er til að hjálpa fleirum að komast yfir þröskuldinn og fara inn á hinar víðu veiðilendur. Þær eru óendanlegar. En einhvers staðar verður að byrja.

1) Konur

Mig grunar að margir tvístígandi verðandi fluguveiðimenn séu konur. Hér er mitt ráð: byrjið. Fluguveiði er sérlega gott kvennasport - ef við látum eftir okkur að nota svo óhátíðlegt orð. Innsæi kvenna er mikilvægara en kappsemi karla þegar fiskar eru annars vegar. Kraftar karlanna minna virði en næmi konunnar. Konur: Ykkar tími er kominn. Karlar. Munið að þetta er fáguð íþrótt fyrir fínar hreyfingar og tilfinningasemi. Þetta er fyrsta heilræðið til karla. Leyfið bæði karllegum og kvenlegum eigindum að njóta sín.

2) Flókið mál?

Fluguveiði er sáraeinföld ef maður vill, og hún er uppfull af leyndardómum sem manni endist ekki lífið til að kanna. Mitt ráð er það sem Stefán Jónsson heitinn gaf mér: gefðu þig leyndardóminum á vald, vertu í þessu af lífi og sál, og þú munt fá mun meiri ánægju út úr því en ella. En flókið mál er þetta ekki. Ekki einfalt heldur, en í því felst galdurinn.

3) Græjudella?

Nei. En eins og næstum allt annað sem varðar fluguveiði er svarið líka já. Græjudella getur verið hluti af flugveiði, en þarf alls ekki að vera það, og ég mæli gegn því. Ein góð stöng, eitt einfalt hjól. Góð stöng í alla veiði kostar innan við tuttugu þúsund krónur, er níu feta löng, fyrir línu númer átta. Frambærilegt hjól sem endist lengi þarf ekki að kosta meira en 6-7000 krónur. Og svo mikilvægir smáhlutir: veiðimannagleraugu (til að vernda augun), smáklippur á girnistauminn, nokkrar flugur. En listinn yfir "hjálpartæki" veiðimannsins er óendanlegur og um hvert þessara tækja stendur lifandi og heit umræða. Geymdu hana. En. Ekki kaupa það alódýrasta í byrjun. Það reynist dýrt að lokum. Fáðu ráð hjá góðum veiðimanni sem þú treystir.

4) Leiðsögn?

Ég byrjaði sjálfur að kasta flugu samkvæmt bæklingi sem ég keypti í búð. Eyddi svo mörgum dýrmætum veiðistundum eigrandi um eyðimörk fáfræðinnar. Þetta er ekki "gerðu það sjálf/ur" athöfn. Leiðsagnarþörf er kannski helsti þröskuldurinn fyrir þá sem vilja byrja. Fyrsta skrefið er að fá leiðsögn. Fara á kastnámskeið. Og svo er hitt: fluguveiðimenn eru ótrúlega gjafmildir á ráð og hafa óendanlega gaman af því að miðla til annarra. Þú gerir vini eða kunningja í hópi fluguveiðimanna stóran greiða með því að biðja um hjálp. En númer eitt: lærðu að kasta hjá góðum kennara. Það marg borgar sig.

5) Kastið

Það flóknasta. Því miður. Og lykillinn að velgengni. Undirstöðuatriðin verða að vera á hreinu. Ástæðan er ekki sú að venjulegt fólk geti ekki komið sér upp aðferð til að slæma út flugu. Megin ástæðan er sú að án leiðsagnar lendir maður í því að festast í óvana. Þá þróast maður afskaplega hægt sjálfur. Framtíð þín sem fluguveiðimanns er fólgin í því að verða góður kastari. Enginn góður veiðimaður er lélegur kastari, enginn lélegur kastari er góður veiðimaður.

6) Stöngin

Það mikilvægasta og það eina sem er verulega mikilvægt í græjum. Ekki ganga blindur inn í einhverja veiðibúð að biðja um "stöng". Því miður eru ekki allir afgreiðslumenn vandanum vaxnir. Sumir eru meiri sölumenn en veiðimenn. Aðrir flækja málið um of með erfiðum spurningum sem þú vissir ekki einu sinni að hægt væri að spyrja, hvað þá að svara. Ég hef mínar skoðanir á stöngum, en fer ekki út í vörumerki. Þetta má segja: Kauptu eins dýra stöng og þú hefur efni á - upp að vissu marki. Ég endurtek: hægt er að fá mjög góða stöng fyrir innan við 20 þúsund krónur - lífsförunaut. Eyddu meiru í stöng, minna í hjól. Hentug stöng fyrir íslenskar aðstæður, og byrjanda sem vill geta veitt lax og silung jöfnum höndum, er níu - níu og hálfs - feta stöng, fyrir línu númer átta. Flóknara er málið ekki.

7) Hjól og lína

Einfalt hjól gerir allt sem gera þarf. Sá afgreiðslumaður í veiðibúð er ekki mikils virði sem ekki getur leiðbeint og sett línuna upp á hjólið fyrir þig. Flestir byrja á flotlínu, og uppgötva fljótt að þeir þurfa líka sökklínu, hægtsökkvandi eða hraðsökkvandi. Til að lina kvölina sem fylgir völinni legg ég til að þú fáir þér fyrst flotlínu. Á enda hennar lætur þú búðarmann setja lykkju til að auðvelda þér að skipta um tauma. Á tauminn sjálfan setur þú líka lykkju og tengir þetta tvennt saman eins og afgreiðslumaðurinn kennir þér.

Taumafræðin eru frumskógur, en hafðu þetta í huga:

a) Þú getur keypt girnistaum sem er frammjókkandi, oft merktur þekktum framleiðendum. Framan á hann hnýtir þú svo viðbótargirni, eftir eðli veiðanna. Ef þú ert í Elliðavatni setur í ca 2-4 punda girni framan á, ef þú ert í Soginu að veiða lax gætir þú þess að ekkert grennra en 20 pund sé fremst. Spurðu búðarmanninn út frá þeim veiðum sem þú stundar.

b) Nú er algengt að nota tauma sem eru svokallaðir "polyleaders", gerðir úr sams konar efni og línan, en með mismunandi sökkhraða. Sumir fljóta, aðrir fara hratt með fluguna niður. Þeir eru ekki ódýrir, en endast oft vel. Framan á þá hnýtir þú svo girni, ca 1 metra eftir því sem við á. Aðrir taumar eru "ofnir" taumar, eða "braided", og gegna alveg sama hluverki og "polyleaders". Þeir eru góð framlenging af línunni, leggja fluguna vel fram og eru með mismunandi sökkhraða.

Hvort sem þú notar frammjókkandi girnistaum, "polyleader" eða ofinn taum, er hnýtt á hæfilegt girni framan á sjálfan tauminn. Þetta er spottinn sem flugan er hnýtt á. Hann eyðist eftir því sem maður skiptir oftar, en auðvelt að að sjá við því með því að endurnýja hann. Í þeim tilgangi gengur maður með girni á sér á litlum spólum. Það er af mismunandi sverleika eftir veiðum hverju sinni.

Dæmi: 1.5-3 punda girni er mjög fínt. Margir framleiðendur merkja sverleika girnis með brotum úr millimetrum, eða tölustafnum X. Því fleiri X, því grennra girni. 6x er hárfínt og gott í smábleikju. 1x er ágætt í smáflugur fyrir sæmilega urriða í straumvatni. Laxinn er ekki nærri jafn vandlátur á taumefni, fyrir hann notarðu 15-20 punda girni, jafnvel sverara ef þú ert í Laxá í Aðaldal, Selá eða Soginu. En það er nú orðið ansi mikill kaðall.

Heilræði: Finndu verslun sem þú kannt vel við, ræddu við verslunarmanninn og byggðu upp traust og kunningsskap. Sjálfur tengi ég línu, taum og girni saman með lykkju í lykkju. "Polyleaderinn" tengist línunni með lykkju í lykkju, girnið tengist svo við hann með lykkju í lykkju, eða með blóðhnúti. Þetta er ekki fínlegt og gæta þarf vel að reglulega hvort lykkjurnar séu traustar. Aðrir munu segja þér að læra betri hnúta að treysta ekki ruglinu í þessum manni. Kosturinn við "lykkju í lykkju" er einfaldleikinn þegar manni er kalt eða þarf að flýta sér. Ókosturinn er hættan á því að lykkjan skaddist og gefi sig. En það er ókostur sem varðar alla tauma. Þess vegna þarf að gæta að reglulega hvort allt sé í lagi. Byrja hverja veiðivakt á því að treysta tauma með því að reyna á þá. Líka hnútinn sem heldur flugunni.

2. kafli:

Nú förum við á veiðar

Við skulum ekki tefja okkur á því að ræða hvernig allt er græjað, frá hjóli og fram í flugu, því það lærir þú af öðrum. Að setja stöng rétt saman, þræða línu, setja upp taum - það er lítið mál, sem þú færð hjálp við. Fáðu hjálp, alveg endilega, því annars sóar þú tíma sem betur væri varið í veiðar.

Veiðileyfi

Á þessum síðustu og verstu tímum þorir maður varla að anda orðinu. En þú þarft veiðileyfi. Margir gera þau mistök að halda jólin strax, fara "í fína á" því það er jú draumurinn. Það eru mikil mistök að fórna peningum í dýr leyfi sem maður er ekki veiðimaður til að nýta almennilega. Ódýr silungsleyfi fást um allt land. Þeir sem lengst ganga vilja meina að maður eigi að æfa köst í vötnum þar sem enginn fiskur sé, því þá trufli ekki veiðivon. Svo langt geng ég ekki. Farðu mörg góð kvöld í silung, vötn eða smásprænur sem ekki kosta mikið, og æfðu þig að kasta, bregða við fiski, landa og njóta lífsins. Þá færðu mun meira út úr veiðiferðinni þegar, og ef, þú skyldir vilja á dýrari mið. Sem er alls ekki víst.

Flugan

Kannski aðal málið. Þú spyrst fyrir um góða flugu fyrir það vatn sem þú ætlar að veiða í. Og færð ábendingar. En eitt gleymist. Að segja þér hvaða stærð á að nota. Stærðin skiptir kannski mestu, og flestir þeirra sem byrja kjósa of stórar flugur. Það er nefnilega þægilegra að hnýta þær á, og svo getur fiskurinn ekki viljað eitthvað "svona lítið". Silungar borða ótrúlega smáar lirfur og flugur. Farðu heldur niður í #14 þótt þér finnist þægilegra að hnýta á #10. Og svo er annað: "flugur" eru ekki bara þessar flugur með vængjum og stéli. Sjáðu Peacock. Einfaldra getur agn ekki verið, en er ekki beint "fluga". Mörgum byrjanda veitist erfitt að skilja að einfaldar púpur og lirfur, mjög smáar, geta verið besta agnið fyrir silunga. Því sölumenn eru duglegir að selja þær skrautlegustu. Hér á flugum.is er nægilegt lesefni til að hjálpa í þessum efnum.

Brögð

Það sem menn læra alltof seint. "Ég er búinn að standa í allan dag, kasta og kasta, það er fiskur um allt en hann tekur bara ekki". Þessi algenga kvörtun fluguveiðimanna er byggð á misskilningi. Ef fiskurinn er "um allt" þá tekur hann. Hann þarf bara að sjá rétta flugu, við réttar aðstæður, borna fram með réttum hætti. Sem sagt: ef fiskurinn tekur ekki, þá ert þú að gera eitthvað rangt, ekki hann. Skiptu um veiðiaðferð. Það getur falið í sér þetta: skipta um flugu, skipta um stærð á flugunni sem er undir, eða skipta bæði um stærð og flugu. Hitt er kannski mikilvægara: að hreyfa fluguna rétt. Hvort sem er í á eða vatni er mikilvægt að flugan hreyfist rétt. "Rétt" getur verið hvað sem er, og það sem er rétt núna, getur verið rangt á eftir. Það skiptir miklu máli að láta fluguna hreyfast á þann hátt sem vekur áhuga fisksins. Það gerir maður með því að draga fluguna misjafnlega hratt, eða ofboðs hægt, eða misjafnlega rykkjótt í stöðuvatni, eða láta strauminn bera hana á breytilegan hátt í nánu samspili við það hvernig maður dregur línuna inn. Þetta virkar flókið - en þú ert að VEIÐA þegar á því stendur! Já, nú loksins ertu ekki bara flugukastari, heldur fluguVEIÐImaður. Og mundu: þetta lærir maður smátt og smátt. Ekki örvænta heldur skemmtu þér við að spá í þennan innsta kjarna veiðinnar. Og þú ert á réttri leið. Þetta er höfuðgaldurinn við fluguveiðar. Maður er alltaf að!

Sveigjanleiki

Maður temur sér þennan eiginleika aldrei nógu vel. Að vera sveigjanlegur þýðir í mínum huga að vera sífellt að bregðast við aðstæðum. Skipta um brögð sem maður beitir. Vertu skapandi í hverju sem þú gerir. Í sumum gjöfulum vötnum þar sem ég veit af fiski kasta ég sömu flugunni aldrei oftar en þrisvar ef hann tekur ekki. Ef fiskurinn tekur ekki þegar ég veit að hann er búinn að sjá hana, þá er mál að skipta. Eða skipta um stað. Eða skipta um aðferð við að draga fluguna.

"Vindhnútar"

Eitt af þessu sem byrjendur verða fyrir. Á girnistauminn koma hnútar þegar þú kastar. Á veiðimannamáli heitar þeir "vindhnútar", en eru "vond köst hnútar" í raun. Ég ætla að spara mér fræðilegu útskýringuna, en þegar þeir koma á tauminn ertu ekki að láta stöngina vinna rétt: línan á að leggjast bein aftur áður en þú byrjar framkastið. Hitt er freistandi: að láta þessa eilífu hnúta vera. Það er stórhættulegt. Hnútur á tauminum veikir hann verulega. Margur fiskurinn á líf sitt að þakka leti veiðimanns sem ekki skipti um taum þegar "vindhnútur" var kominn á. Renndu tauminum milli fingra til að athuga reglulega hvort allt sé í lagi. Athugaðu í leiðinni hvort flugan sé á, heil og ósködduð. Byrjendur eiga til að slá henni niður fyrir aftan sig, eða slá henni af með of snöggum rykkjum. Já, margt er bölið við veiðar. Ekki batnar það þegar hann tekur.

Heilræði: vertu í sambandi. Sambandi við fluguna. Andlega og líkamlega - þráðurinn milli þín og hennar er línan.

3.kafli:

Algengar spurningar

Það eru ótrúlegustu hlutir sem maður hefur lært og tileinkað sér með harmkvælum sem fluguveiðimaður. Raunar svo margir, að maður er alveg hissa á því að maður skuli nokkurn tíman hafa átt ánægjustund við vatn eða á. Það er svo margt sem maður þarf að brasa við og enginn man að kenna manni. Fluguveiðar eru ekkert sem maður hristir fram úr erminni. Ekki frekar en annað sem gott er í lífinu. Í þessum byrjendapistli vil ég minnast á eitt og annað sem styttir mönnum leið gegnum brasið, í dýrðina.

Algeng spurning

Hvað gerir maður við línuna sem vill hrúgast niður fyrir framan mann við lappirnar þegar maður dregur hana inn með vinstri hönd, en ekki upp á hjólið? Góður punktur. Maður lætur hana bara liggja. Án þess að stíga á hana. (Vinur minn missti risalax í Grímsá þegar lykkja vafðist um ökla.) Maður velur sér stað til að standa þar sem línan liggur til friðs í vatninu, tilbúin að renna út ef fiskur tekur, eða þegar maður kastar næst. Snillingar taka hana til sín í hönk í vinstri hönd, samtímist því að þeir draga hana inn. Klaufar láta línuna leggjast í grjót, þar sem hún festist og eyðileggst. Stundum veiðir maður í straumvatni þar sem straumurinn vill hrifsa slakann og gera manni lífið leitt. Þá fer maður að æfa sig að taka hana upp í hönk, og er á leið með að verða snillingur. Ef þú ert á rólegu kvöldi uppi við Elliðavatn á hnédjúpu vatni ræð ég þér að láta bara línuna liggja, þú getur alveg lært að hanka hana upp síðar. En það verður þú að gera. Ef þú ert í grófu grjóti máttu alls ekki láta hana liggja. Og ef þú ert í þungum straumi er vonlaust að láta hana liggja, straumurinn tekur hana og þú getur ekki kastað.

Sem sagt: það væri snjallt að læra bara strax að taka línuna upp í hönk í vinstri hönd um leið og þú dregur inn.

Að bregða við fiski.

Hvað gerir maður þegar hann loksins tekur? Jahá. Þetta er álíka flókin spurning og: Er guð til? Grunnreglan er þessi: rauðvín með kjöti, hvítvín með fiski. Eða: þú bregður við silungi, þú lætur lax taka til sín slaka áður en þú festir í honum. Á silungsveiðum þar sem von er á miðlungs og smáum fiski er þetta reglan: Um leið og þú finnur tökuna, eða grunar töku, þá þrýstir þú línunni fast að handfangi stangarinnar með vísifingri þeirrar handar sem heldur á stönginni og reisir hana. Þú "læsir" líunni, um leið og þú reisir stöngina. Þá strekkist á línunni og hann er á. Þú munt lenda í fiski þar sem þú finnur aðeins smá högg, og ekkert meir. Þá ertu of seinn að brega við. Þá getur þú reynt að kippa til þín með vinstri hönd, um leið og þú reisir stöngina. Þetta er grófari aðferð en hin, og venjulega sérðu þá fiskinn taka góða skvettu á hinum endanum. Stundum sleppur hann, stundum er þetta upphafið að minnisstæðum slag.

Í öllum venjulegum silungsveiðum gerir þú þetta tvennt: heldur við línuna og lyftir stönginni. Þess vegna er mikilvægt að hafa stöngina ekki mikið reista þegar flugan er úti, heldur láta hana benda niður á vatnsflötinn þar sem flugan er stödd. Þannig færðu gott samband og getur brugðið snöggt við með því að lyfta stönginni.

Þegar von er á harðsæknum urriða getur verið vafamál að bregða of hart við. Við þessar veiðar lærir maður smám saman að bregða við og sleppa lausu - samtímis. Um leið og þú finnur tökuna strekkir maður á línunni, til að festa, en sleppir alveg samstundis til að fiskurinn fái nægan slaka til að djöflast um leið og hann finnur festuna. Trúið mér: þetta verður partur af taugakerfinu. En þangað til... missir maður dýrmæta fiska.

Um laxinn gilda flóknari fræði. Um það mál hafa verið skrifaðar margar bækur. Best er að vona að hann festi sig sjálfur. En stundum er maður ekki svo heppinn. Grunnreglan við laxveiðar er þessi: þegar flugan er komin á ferð í strauminum tekur veiðimaðurinn ca. faðm af línu í lausa hönk milli vinstri handar og hjólsins. Þar dinglar þessi hönk frjáls. Um leið og takan kemur (þú finnur að línan stoppar, eða kippt er ólundarlega í) þá sleppir þú lausu. Kenningin er sú að þá snúi laxinn sér með fluguna og festi sjálfur í. Þegar þú finnur að línan er að byrja að renna út af hjólinu lyftir þú stönginni til að herða aðeins á. Setja fast

Þá ertu gjörsamlega búinn á taugum og ekkert nema æðri máttarvöld bjarga þér frá að hníga niður og drukkna. Ef heppnin er með ertu ennþá með lax á þegar þú kemst til rænu. Þess vegna þarftu að passa að bremsan á hjólinu sé ekki stíf. Laxinn fær þá frið til að strika út án þess að þú rífir úr honum.

Algeng mistök silungsveiðimanna eru að bregða of hart við laxi og rífa fluguna út úr honum. Laxveiðimenn í silungi eru hins vegar alltof svifaseinir. En nú er kominn tími til að óska þér til hamingju.

Þú ert ekki lengur bara með áhyggjur af því að koma flugunni út. Þú ert kominn með áhyggjur af því hvað þú eigir að gera þegar hann tekur. Hvílíkar framfarir!

4. kafli:

Fiskarnir

Við reiknum með því að fyrir tilstuðlan þessa pistils hafi fjölmargir nýir fluguveiðimenn bæst í þann eðla hóp sem nú lemur vötn og ár. Við höfum farið lið fyrir lið yfir það sem byrjandinn þarf að vita svo sumarið verði sem best. Hér er rétt að staldra við. Þegar að veiðivatni kemur er um margt að hugsa. Það sem er gamalreyndum refum nánast eðlislægt, er byrjanda flókið mál. Þess vegna legg ég til að þessi pistill fari í sérstakt úrklippusafn með vatnsheldu plasti utan um, til að taka með sér í veiðitúra og lesa reglulega. Mig hefur alltaf dreymt um að verða klassíker.

Fleira sem þú þarft að vita

Eitt af því sem enginn segir þér, en er alveg nauðsynlegt að vita, er hvernig þú heldur á stönginni meðan þú veiðir. Flestir eru ótrúlega hamingjusamir þegar þeir hafa komið flugunni út, eru búnir að taka línuna réttum tökum og eru að veiða. Standa bísperrtir með stöngina upp í loftið. Það er rangt. Þess vegna endurtek ég þetta. Sambandið við fluguna algjört grundvallaratriði. Þess vegna bendir stöngin alltaf á þann stað sem flugan er. Hún bendir niður á við. Og hún bendir á fluguna. Þannig myndast minnsti hugsanlegi slaki á línunni sem liggur í hönd þér.

Tökum dæmi: fluguveiðimaður kastar í árstraum, þvert, eins og algengt er. Straumurinn grípur fluguna sem rekur niður, og straumurinn grípur líka línuna sem dregst í bug niður undan veiðimanninum - ef hann fylgir ekki flugunni eftir með stangaroddinum. Þar með er kominn slaki á línuna, og veiðimaðurinn tekur ekki eftir, eða finnur of seint, að fiskur tekur. Það sama gildir ef stönginni er haldið uppréttri. Þá myndast smá slaki á línuna sem liggur niður að vatninu. Þegar tekið er í hana á hinum endanum verður stöngin að bogna fyrst, áður en maður finnur tökuna. Flestir byrjendur halda að allar tökur séu áþekkar: bara kippt í. Svo er ekki. Í sumum vötnum, eins og Elliðavatni eða Hlíðarvatni, getur bleikjan tekið svo grannt og svo varlega að ítrustu athygli er krafist. Þá þarf stöngin að vísa niður að vatninu og í átt að flugunni. Þetta er gullvæg regla. Jafnvel risalaxar eiga það til að snuðra við fluguna og rjátla við hana. Ef þú missir af slíkum merkjum er eins víst að þú gangir burt, sár og súr. En þetta eru mikilvægar vísbendingar um að nú sé að færast fjör í leikinn!

Þú munt jafnvel sjá veiðimenn standa með stangaroddinn ofaní vatninu. Þeir veiða djúpt!

Hnúturinn

Gerðu eitt fyrir sjálfan þig: æfðu þig að skipta um flugur. Ef þú tímir að borga góða fjárhæð fyrir veiðileyfi, ættir þú að geta séð af 1-2 klst. í að æfa fluguskiptingar. Freistingin er svo mikil þegar maður er kominn lengst út í á, eða er loppinn á fingrum við vatn, að "æ, veiða bara á sömu fluguna áfram". Vanur veiðimaður skiptir um flugu á 30 sekúndum. Gefðu þér mínútu. Lærðu hnútinn og mundu þetta: Notaðu munnvatnið. Já, kæru vinir. Ég man þegar ég stóð í beljandi straumi, í stórgrýti og ærandi hávaða, og reyndi að hnýta flugu á nýja granna girnið. Alltaf brast hnúturinn. Hvað eftir annað. Trúið mér: ég fer ekki oft á eintal við almættið. Allra síst um hnúta. En þarna lá við. Ég vissi sem sagt ekki að áður en maður herðir hnútinn vætir maður hann með munnvatni. Annars brennur girnið þegar maður herðir.

Og svo er hitt: maður treystir hnútinn. Alltaf. Ég ætla ekki að segja frá því þegar ég var í vaðandi torfu silunga sem tóku þurrflugur eins og óðir, og ég skipti úr straumflugu yfir í Black gnat númer 14 og lét hana detta í opið ginið á - ja, þið hefðuð átt að sjá það gin, stórt var það. En meira sá ég ekki. Flugulínan fór út eins og hendi væri veifað, og þar fór flugan af. Mér lá of mikið á til að treysta hnútinn - sem er alltaf vesen þegar flugan er smá. En það gerir maður.

Fiskurinn

Allt það sem hér hefur verið sagt í snýr að veiðimanninum eða græjunum hans. Það mikilvægasta er eftir: fiskurinn. Okkur hættir til að gleyma honum.

Silungar og laxar eru villt dýr. Þessi dýr eru ekki sérlega skynsöm, og hafa nær engar gáfur. (Ég veit samt að við viljum hefja þessa fiska á stall, og geri sjálfur, en þetta er líffræðileg staðreynd.) Fiskanir fara að eðlishvöt. Þetta er grundvallaratriði til skilnings á þeim. Ef hætta er á ferðum flýja þeir. Miklu fleiri fiskar tapast óveiddir, en þeir sem veiðast - vegna óvarkárni veiðimanna. Það þarf að læðast að fiskum. Ekki vaða með látum. Skruðningur í grjóti berst langar leiðir í vatni. Allt hljóð berst lengra í vatni en lofti. Horfðu, hlustaðu, veiddu varlega. Þessi ráð gef ég frekar til að minna sjálfan mig á, en að ég eigi von á að þið farið eftir þeim. Því miður.

Fluguveiðar

Fluguveiðar eru létt listgrein - eða íþrótt, ef menn heimta að vera óhátíðlegir. En þær kalla á vitræna og skynræna ástund - samtímis. Fluguveiðimaður er veðurfræðingur, skordýrafræðingur, fiskifræðingur - náttúrufræðingur; allt þetta undir einum veiðihatti. Maður er í stöðugu samspili við náttúruöflin, sem alltaf eru breytileg. Sumir skrá hjá sér, færa til bókar: veður/vatn/flugu/stað/tíma - nálgast fiskana vísindalega. Sjálfur fer ég þveröfugt að: læt reynslu, lærdóma og vonbrigði og sigra safnast saman í einhverju sem verður á endanum innsæi. En aðferðirnar byggjast báðar á söfnun upplýsinga og úrvinnslu. Maður er alltaf að læra og er aldrei viss. Og þó. Hvílíkur sigur að sitja eins og ég gerði á bakkanum í fyrra, með litla bróður úti í á að kasta á kunnan stað. Horfði á skýin og hlustaði á vindinn og kallaði svo stundarhátt: Nú tekur hann! Og það gerði 'ann. Í sömu andrá. Heppni? Ekki að tala um. Ég bara vissi að einmitt þá kæmi taka.

Góða skemmtun við fluguveiðar. Hér eftir verður aldrei snúið. Þú ert ný og betri kona. Eða maður. Til hamingju!

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði