2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
13.6.2020

Línufrumskógurinn - endurbirt heilræði á Flugur.is

 

Flestir silungar halda sig svona nokkurn veginn rétt undir yfirborði. Á eins til þriggja metra dýpi. Þar éta þeir. Laxinn er kyndugri skepna, en hægtsökkvandi lína í stað flotlínu getur gert gæfumun við algengar aðstæður. Hann getur neitað að elta alveg upp á yfirborðið. 

 Allir alvarlega þenkjandi fluguveiðimenn þekkja spurninguna: Hversudjúpt er nógu djúpt? Ég man þó eftirnokkrum há alvarlega þenkjandi fluguveiðimönnum sem segja fyrirlitlega: "Annað hvort veiði ég á flotlínu,eða ég veiði ekki neitt". Þeir nota þá væntanlega venjulegan girnistaum á línuna, og flugan syndir í eða rétt undir yfirborðinu. Þetta eru menn sem eiga heima í öðru landi en okkar. Eða eiga bara að fá að njóta sinnar sérvisku. Enskir aðalsmenn gengu dögum saman (og gera sumir enn) með bökkum og köstuðu ekki nema á fisk sem þeir sáu taka uppi. Annað þótti þeim óíþróttamannslegt. Sama viðhorf gildir um þá sem veiða bara á flotlínu, "annað hvort kemur fiskurinn upp eða ég vil hann ekki". Flott viðhorf. Ég er í hópi þeirra sem skammast mín ekki fyrir að senda fluguna niður til fisksins.

 

Hvernig á að sökkva?

Fyrsta flugulínana mín var að ráði færustu sérfræðinga hægtsökkvandi lína. Það er gott ráð að byrja á henni. Flugan helst þá nokkurn veginn þar sem flestir fiskarnir eru sig við meðal aðstæður.Nú nota ég næstum aldrei slíka línu. Reyndar er það frekar vitlaust. Flestir silungar halda sig svona nokkurn veginn rétt undir yfirborði. Á eins til þriggja metra dýpi. Þar éta þeir. Laxinn er kyndugri skepna, en hægtsökkvandi lína í stað flotlínu getur

gert allan gæfumun við algengar aðstæður. Hann getur neitað að elta alveg upp í yfirborð, en látið freistast fari flugan aðeins niður. Það hef ég sannreynt mér til mikillar gleði. Samt er ég ekki hrifinn af þessari línu. Það sem ég tók til ráða var að setja sökktaum á flotlínuna. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það einna gjöfulasta aðferðin við silung í straumvatni, og mjög sannfærandi aðferð við lax líka, þótt ég kjósi nú að fá hann alla leið upp. Það er bara ekki alltaf hægt.

 

Sökktaumar

Lengi vel gerði ég mig ánægðan með ofna sökktauma frá þekktum framleiðendum. Þessir taumar eru þægilega mjúkir og leggja fluguna fram, og þeir fást mismunandi þyngdir. Maður festir þá við flugulínuna með "lykkju í lykkju" og setur stuttan girnisbút við hæfi framaná. Með því að nota hrattsökkvandi taum á flotlínu getur maður náð flugunni niður; einungis tekur nokkrar sekúndur að skipta um tauma við breytilegar aðstæður. Ókosturinn við þá var hve dýrir þeir eru, endast illa, og eiga til að vera óáreiðanlegir. Ég lét því plata mig til að kaupa línu með sökkenda (sink tip).

 

Vinsælar línur

Línur með sökkenda eru vinsælar meðal veiðimanna. Þær sameina kosti flotlínu (auðvelt að sjá hvar hún liggur á vatninu, sekkur ekki til botns við fætur manns) en fremsti hluti línunnar sekkur hratt niður þangað sem ætlað er að fiskurinn liggi. Vonbrigði mín með þessa línu voru þó nokkur. Vegna þess hve sökkendinn á línunni er miklum mun þyngri en aðrir hlutar hennar kemur stundum slynkur á stöngina þegar ég nota þessa línu. Þó ráðið er í raun einfalt til að forðast slynki: Kasta með víðum bug, hægt. Mér finnst þetta þó frekar óhönduglegt. Fræknir veiðimenn segja að mismunurinn milli framleiðenda sé mikill. Ég keypti mína línu af einum virtum framleiðanda, og ætla ekki að eyða þúsundum og aftur þúsundum króna í leitinni að þeirri einu sönnu. En stöku sinnum dreg ég þessa línu fram og nota þegar mig þyrstir í blóð. En oftast er um annað að ræða. Ég held nefnilega að ég sé búinn að finna réttu aðferðina til að sökkva flugu.

 

Taumar úr línuefni

Nú hafa framleiðendur kynnt til leiks frammjókkandi tauma sem eru gerðir úr sams konar efni og flugulínan sjálf.(Polyleaders) Þeir eru tengdir við hana með lykkju í lykkju. Framan á þessa tauma hnýta menn einfaldlega girnisstubb við hæfi til að hnýta fluguna á. Þetta prófaði ég og var ánægður. Þessir taumar endast almennt von úr viti. Held ég. Þeir eru í mismunandi lengdum og sökkhraðinn er allt frá því að vera enginn (flot) upp í dúndursökk sem slær við mestu sökklínum. Þessir taumar (polyleaders) eru frá fimm fetum og upp í tíu fet, en sagt er að þeir séu svo lögulega hannaðir að þeir leggi fram upp í fimmtán feta girnisenda sem við þá er tengdur. (Ég sé nú ekki þörfina á þeim ósköpum við flestar aðstæður.)Sökkhraðastigin eru a.m.k. sjö. Taumarnir hæfa mismunandi línuþyngdum. Þar með er maður kominn upp í úrval möguleika sem margföldunartaflan ein ræður við.

Ég verð þó að játa eitt: Eftir að hafa fjárfest í miklu safni tauma komu gallar í ljós. Sumir slitnuðu við minnsta átak, og var greinilega galli í framleiðslu. Aðrir voru með mjög stuttum girnisenda fremst, sem þýddi að erfitt var að setja taumefni úr girni framan á þennan verksmiðju framleidda taum. Ég mun ekki láta uppi að sinni hver framleiðandinn er, bið menn bara að leita álits vina og félaga áður en lagt er í stórinn kaup. Þegar ég geng til veiða kýs ég að hafa þrjá sökkhraða til að tengja við eina flotlínu, og þá er nú ekki vitlaust að hafa báðar lengdir ( fimm og tíu fet) til að velja úr. Ég áætla að þessi búnaður dugi við lang flestar aðstæður: Flotlína með þremur góðum taumum með mismunandi sökkhraða. Þó aðeins að því gefnu að einn þeirra sé taumur sem kallast því heillandi nafni "extra super fast sink", og við nefnum hér dúndursökk.

 

Verstu aðstæður

En segjum að við séum með flotlínu og 10 feta dúndursökkvandi taum. Flugan fer hreinlega ekki lengra niður en þessi 10 fet og kannski rúmlega það. Ekki dugar að lengja girnistauminn svo nokkru nemur, flugan sekkur ekki með honum. Hér vil ég kalla til sögunnar það vara afl sem getur bjargað í miklu vatni og kulda að vori. Dúndursökklínu. Stórir hyljir með miklu vatni geyma fiska sem liggja alveg við botn. Línan þarf að fara alla leið niður. Þótt þetta séu fremur leiðinlegar línur að kasta, þá hafa þær mun meira fram að færa en línur með sökkenda. Þær eru í betra jafnvægi, og þær fara hraðar niður og dýpra. Við erum sem sagt að tala um veiðar af fullum þunga. Ekki eru þær nettar. En heilögu vatnadísir: Þegar stórfiskur tekur í kolsvörtu djúpinu með þessu líka firna höggi! Þá vitum við að það er ýmislegt á sig leggjandi. Ég kýs því að eiga kost á dúndursökklínu við erfiðustu aðstæður. Þá dugar hitt hreinlega ekki, á það hef ég reynt.

 

Frumskógur

Til að bæta enn á frumskóginn hafa framleiðendur nú komið með línur þar sem maður skiptir um fremsta hluta línunnar eftir þeim sökkhraða sem maður kýs. Bakstyki línunnar er alltaf hið sama. En frampartur hennar er mis sökkhraður. Hér er því komin fjölbreytt útgáfa af línu allt eftir vali manns hverju sinni. Í fljótu bragði getur maður ekki séð muninn á því, og hinu, að setja bara sökktauma framan á línuna. En hér eru samt blæbrigði. Þær línur sem við kaupum eiga að vera í fullkomnu jafnvægi sem slíkar. Þungir taumar framan á þær raski jafnvæginu. Þegar hins vegar skipt er um fremsta hluta línunnar sjálfrar segja menn að öllu sé til haga haldið hvað varðar jafnvægi línunnar í kasti.

 

Hvert er úrvalið?

Flugulínur kosta talsvert mikla peninga og verða að standast ákveðnar kröfur. Þetta er ekki ósvipað og í tölvuheiminum, fari maður inn í eitt kerfi, er maður eiginlega háður því. Þess vegna er rétt að gera sér grein fyrir því hvers konar safni maður vill koma upp.

Dæmi 1: Veiðimaður getur komið sér upp einu hjóli með þremur spólum. Þar eru flotlína, hægtsökkvandi lína og sökklína. Hann skiptir um spólur eftir þörfum og notar bara venjulega frammjókkandi girnistauma á allar línurnar. Lengstan taum á flotlínuna, stystan á sökklínuna. Hér er enginn veikleiki, en talsvert safn af línum og spólum að kaupa og bera.

Dæmi 2: Veiðimaður kaupir línu sem hægt er að skipta um framendann á. Þetta eru í raun "þrjár línur í einni". Hann gengur bara með eitt hjól og eina spólu til veiða, sem er kostur, og mismunandi framendar eru til taks í vasanum. Línan er ávallt í jafnvægi. Einfalt. En veikleikinn er trúlega sá að við verstu aðstæður dugar sökkhraðasti endinn ekki til að koma flugunni nógu langt niður.

Dæmi 3: Veiðimaður kaupir flotlínu, og við hana notar hann fjölbreytt safn mismunandi sökkhraðra tauma. Hann sparar sér hægtsökkvandi línu, en hætt er við að nokkurt lag þurfi til að njóta þess að kasta flotlínu með 10 feta dúndursökkvandi taumi framaná. Eins og í dæmi tvö mun hann tæpast geta veitt nógu djúpt til að þóknast öllum aðstæðum. Hann bætir sér upp þann veikleika með því að kaupa dúndursökkvandi línu og hefur á spólu í vestinu.

Dæmi 4: Veiðimaður veiðir bara á flotlínu og hirðir ekki um þá fiska sem ekki nenna að elta flugu í yfirborðinu. Einfalt. Sígilt. Heldrimannslegt. Flott. En hætt er við að suma daga hafi hann lítið fyrir stafni nema kasta.

Dæmi 5: Veiðimaður notar flotlínu að öllu jöfnu. Þegar hann telur sig þurfa að sökkva vel niður notar hann þyngdar flugur. Hægt er að bjarga sér með því að lengja tauminn svo mjög að vel þyngd flugan nái að sökkva alveg til botns þó svo að í djúpuvatni sé. Óhægt er þó um vik að nota lengri en 20 feta taum. Sé flugan mjög þung er nánast ómögulegt að kasta svo löngum taumi og því vonlaust að ná flugunni á mikið dýpi. Auðveldara í stöðuvötnum en straumvatni.

Rétt er að taka meðvitaða ákvörðun um hvar maður staðsetur sig í þessum frumskógi. Án þess getur maður nefnilega ekki stundað meðvitaðar veiðar.

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði