Frá Presthyl niður að Þvottastreng tekur við nokkuð langur djúpur og straumlítill kafli af Laxánni. Á miðri leið milli Presthyls og Þvottastrengs stóðu tveir hólar í móanum, skammt frá árbakkanum. Þeir hétu Ferjuhólar. Sá stærri var malarhóll. Hann er horfinn því mölin úr honum var notuð í veginn meðfram ánni.
Minni hóllinn stendur enn- og þar býr álfkona. Ofanvert við hólinn og skammt niðurfyrir hann heitir Ferjuhóla-dráttur. Í honum eru slæmar festur. Þar var dregið fyrir silung. Lax liggur sjaldan í þessum hluta árinnar. Þó minnist eg þess að hafa einusinni fengið lax á stöng rétt fyrir ofan hólinn. Hann hefur trúlega verið á göngu.
Heldur þótti lélegur staðbundinn silungur úr þessum drætti. En yfir flugnatímann veiddist þar flökkusilungur og hann var betri matfiskur.
Stór og fagur hvammur er í Hvammsheiði á móti Ferjuhólum og dregur heiðin nafn af honum. Á hjalla uppi í miðri heiðinni norðan við hvamminn stóðu beitarhús frá Nesi. Þau voru notuð framyfir 1940. Þá varð beitarhúsamaður að fara austuryfir Laxá á hverjum degi.
Oft voru það erfiðar ferðir, því alltaf varð að nota bát. Það leggur aldrei tryggan ís á ána frá Álftaskeri og alla leið niðurfyrir Tjörn. Stundum tók það meira en 3 klukkutíma að moka bátinn gegnum krap austur yfir ána.
Frá ómunatíð hefur verið lögferja í Nesi. Þegar eg man fyrst eftir var talsvert um það að ferja þurfti fólk yfir ána. Oft voru það menn með hesta og voru hestarnir látnir synda á eftir bátnum. Sat þá maður á afturþóftu og hélt í beislistaumana. Stundum voru ferjaðir tveir hestar í senn. Ekki mátti taumurinn vera of slakur. Þá skapaðist hætta á því að hestarnir flæktu fætur í þeim. Ekki mátti heldur halda of fast í taumana. Þá gátu hestarnir náð með fætur upp á bátinn að aftan.
Skammt neðan við Ferjuhóla er lítil klöpp í árbakkanum heiðarmegin. Hún heitir Litla-Ferjuklöpp. Þar var ferjað yfir fólk með hesta. Dálítið neðar í austurbakka árinnar er stór klöpp, sem heitir Ferjuklöpp. Þar var alltaf ferjað göngufólk. Oft stóð fólk uppi á klöppinni og kallaði á ferju. Mátti vel heyra ferjukallið heim i Nes.
Báturinn var geymdur á hvolfi uppi á vesturbakka þegar hann var ekki notaður daglega.
Stutt neðan við ferjustaðinn er góður veiðistaður, sem heitir Þvottastrengur. Þar er straumhart og þess vegna voru hestar ferjaðir yfir ána á efri-ferjustað lengra frá strengnum. Við Þvottastreng var þvegin ull á hverju sumri, en ekki þvottar svo eg muni. Vafalaust hefur það verið gert á fyrri tíð. Í heimabrunnum var vatnið svo steinefnaríkt að sápa freyddi ekki í því. Vatn í þvotta var sótt í tunnur úr Laxá í mínu ungdæmi. Sjálfrennandi vatn kom ekki í Nes fyrr en eftir 1940. Þá var lögð leiðsla austan úr Hvammsheiði.
Þvottastrengur gefur besta laxveiði fyrripart sumars. Það er samt alltaf hægt að finna þar lax ef veiðimenn hafa þolinmæði til að leita að honum. Best er að veiða Þvottastreng fyrst af bakkanum frá bátalægi niður í straumtaglið þar sem strengurinn endar. Svo má vaða.
Spölkorn neðan við bátavör gengur smá horn fram í ána. Þar myndast lítil straumröst út frá bakka. Þar rétt ofanvið er landgrunn eða flös, sem nær fáeina metra út frá bakka. Úti á flösinni eru tveir steinar, sem veiðimenn geta staðið á til að ná lengri köstum. Skammt neðan við flösina myndast bylgja í vatninu þar sem strengurinn byrjar. Þar liggur alltaf lax.
Neðantil við Þvottastreng er lítil hæð á bakkanum. Ofan við hana myndast vik. Vaða má úr vikinu fáeina metra út frá bakka og veiða þannig niður að straumtagli og vel niður í strauminn þar sem hann lítur út eins og bókstafurinn V. Allar þessháttar straumrastir í Laxá eru heimkynni laxa. Einnig allar rastir, sem liggja út frá bökkunum. Víða eru þannig staðir afar viðkvæmir og þarf að fara mjög varlega til að styggja ekki laxinn.
Úti í miðri ánni ofarlega í Þvottastreng og niðurfyrir miðjan strenginn er ekki nema hnédjúpt vatn. Um alla flúðina eru samt djúpar holur og lænur, sem þarf að varast og þræða grynningar á milli. Það er mikið völundarhús og auðvelt að villast þannig að erfitt reynist að finna rétta leið til baka. Enginn ókunnugur ætti að reyna það. Tvisvar hef eg farið með veiðimenn þarna út og þeir fengu í bæði skiptin lax. En það var torsótt. Aðeins á einum stað er hægt að komast þetta eftir ýmsum krókaleiðum. Það er miklu skynsamlegra að nota bátinn.
Neðan við Þvottastreng tekur við Kirkjuhólma-breiða. Hún er oftast veidd frá bakka- en hægt að veiða mest af henni af bát . Einnig kvíslina austan við Kirkjuhólmann. Allur bakkinn er veiðanlegur frá enda Þvottastrengs niður að enda á Skriðuflúð. Þegar breiðan er veidd af bát er betra að hafa öryggistaug á akkerinu. Þarna eru víða slæmar festur í botninum.
Neðan við Þvottastrenginn er sléttur grasbakki. Neðst við hann er hylur, sem geymir laxa- og þeir liggja oft skammt frá bakka. Þarna verður að fara mjög gætilega. Rétt neðan við hylinn er hægt að vaða út. Ekki fara strax meira en metra frá bakka, því þarna er von í laxi ef rétt er á haldið. Fara 2 metra niður í sömu fjarlægð frá bakka og færa sig þá lengra út. Veiða þannig niður í röstina við Kirkjuhólmahornið. Vaða svo aðeins til baka upp og til lands. Veiða má vestur og norður úr Kirkjuhólma. Vesturúr er veitt frá grjóthrófinu niður að norðurenda hólmans. Síðan má vaða meðfram norðurbakka Kirkjuhólmans niður að straumröst við norðausturhornið.
Norðan við hólmann er Kirkjuhólma-brotið. Veiða má það frá bakkanum norðan við hólmann. Síðan má vaða skammt út frá norðurbakka neðan við svolítinn hyl og veiða þannig niður að straumröstinni. Ofan við hana er hægt að vaða lengra út og kasta inní lygnuna norðanvið hólmann og veiða einnig svæðið ofanvið brotið norð-austur úr hólmanum. Best að reyna þarna fáeinar flugur, því mikil von er þar í laxi. Neðsti hlutinn af Kirkjuhólmabroti er svo veiddur frá bakka niður að tanganum. Þar tekur við efri hlutinn af Skriðuflúð. Stundum er Kirkjuhólmabrotið veitt af bát. Vafalaust er það sérviska- en mér hefur gefist best að nota ekki bát á þessum stað.
Af tanganum neðan við Kirkjuhólmabrot er góður veiðistaður. Djúpt er við bakkann neðan við tangann. Þar er flúð, sem nær austurfyrir miðja á. Lax liggur gjarnan í kantinum skammt frá landi- en síður úti á flúðinni. Neðan við tangann á svæðinu niður að Skriðuflúð fást sjaldan laxar. Samt er rétt að fara aðeins yfir það.
Skriðuflúðin er veidd frá bakka. Á bakkanum eru tvær litlar þúfur og svolítið bil á milli þeirra. Þar er byrjað að veiða Skriðuflúð og haldið áfram niður að broti. Skriðuflúð er mjög fallegur staður. Hún er með skemmtilegustu fluguveiðistöðum í Laxá. Flúðin nær ekki alveg þvert yfir ána. Ofan við flúðarhornið heiðarmegin er hyldjúp gjá og djúpur áll niður með heiðinni. Neðan við flúðina er annað brot sem nær jafnlangt austur en ekki jafnlangt vestur og efri flúðin.
Á Skriðuflúð er byrjað með stuttum köstum og síðan lengri. Þar getur enginn maður kastað of langt, því lax liggur oft austarlega. Stundum er reynt að veiða heiðarmegin en þar fást ekki margir laxar og straumlag óhagstætt.
Einusinni var amerískur veiðimaður á Skriðuflúð að kvöldlagi snemma í ágúst eftir sólríkan dag. Hann hafði ekkert hreyft lax allan daginn og búinn að reyna bæði stórar og smáar flugur af mörgum gerðum. Orange Hairy Mary er með bestu sólskinsflugum. Hana var hann ekki búinn að reyna- en hún kom uppí hendi mannsins þegar hann var að leita í fluguboxinu. Orange Hairy Mary nr. 10.
Hann fór eina ferð yfir flúðina og síðan lengdi hann köstin þar til flugan féll eins og dropi niður á vatnsflötinn ofan við flúðarhornið. Hann gat ekki kastað lengra. Allt í einu kom harður hnykkur á stöngina og línan brunaði á fleygiferð út af hjólinu. Veiðimaðurinn reysti stöngina og hljóp sem fætur toguðu uppeftir bakkanum. Laxinn tók strikið alla leið upp að Kirkjuhólmabroti og þar beið hann um stund. Maðurinn náði undirlínunni inn á hjólið. En Adam var ekki lengi í Paradís. Laxinn fór af stað og hentist til baka niður ána. Ofan við Skriðuflúð breytti hann um stefnu og fór austur að flúðarhorninu. Þar stakk hann sér niður í gjána en línan festist í flúðarhorninu.
Það var um tvennt að velja. Setjast niður með stöngina og bíða þess að laxinn færi að hreyfa sig, eða vaða fram á flúðarhornið og reyna þannig að losa línuna. Þangað er vætt en það er hættulegt. Straumurinn er harður og flughálar klappir og stórgrýti í botni.
Maðurinn beið nærri hálfa klukkustund, en laxinn lá sem fastast. Þá ákvað hann að reyna að vaða fram á flúðarhornið. Veiðimaðurinn og leiðsögumaður hans óðu báðir fram á flúðina með stöngina og háfinn. Ferðalagið var erfitt en þeim tókst að komast fram á hornið. Línan losnaði auðveldlega og laxinn var þar ennþá. Hann fór að hreyfa sig og synti niður á neðri flúð!
Mennirnir óðu niður á neðri flúðina þó erfitt væri. Þá svamlaði laxinn niður af neðri flúð og langleiðina niður að Oddahyl. Mennirnir reyndu að vaða lengra niður. Neðanvið neðri flúð tók við dálítil sandeyri. Hún sést frá vesturbakkanum eins og svartur blettur í vatninu. Á sandrifinu var meira en hnédjúpt vatn en lítill straumur. Þarna á sandinum tókst veiðimanninum að þreyta laxinn svo að þeir náðu honum í háfinn. Til allrar hamingju hélt laxinn ekki áfram lengra niður, því ógerlegt var að vaða lengra.
Veiðimaðurinn vildi endilega drepa laxinn og láta stoppa hann upp. Ógerlegt var að drepa hann þarna úti í djúpu vatni. Þeir urðu að færa hann lifandi í háfnum alla leið til lands. Það var torsótt en heppnaðist að lokum. Þetta var 24 punda hængur.
Pétur Steingrímsson.