Veiðistaðurinn minn:
Fellshylur
,,Það liggur við að mér verði illt af því að nefna ekki einhvern veiðistað í Laxá í Mývatnssveit sem ,,veiðistaðinn minn", heldur Fellshyl í Hofsá", segir Stefán Jón Hafstein.
Fjandi erfiður
Hugurinn reikar að Vörðuflóa í kvöldsól, Brotaflóa á sólríkum sunnudagsmorgni með torfurnar uppi, og svo upp og niður ána þar sem ævintýrin hafa gerst. En Fellshylur verðskuldar nánari athugun vegna þess að hann er svo fjandi erfiður. Hann gæti þess vegna heitið Refsivöndur. En fallegra orð er Ráðgáta. Ég hef lent í ævintýrum við hylinn en líka staðið á barmi örvæntingar, ekki vegna veiðileysis, upp úr því er ég vaxinn, heldur vegna ráðaleysis. Stunið eftir endalausar tilraunir: Hvað get ég gert? En almættið og Hofsá bara hlegið og Fellshylur sett upp sitt dularfulla bros sem minnir mig á óræðni Mónu Lísu sem enginn fær skilgreint.
Fiskur út um allt
Hofsá kemur þarna rennandi í tveimur kvíslum undir hárri brekku, þær sameinast í streng sem er efsti hluti Fellshyls, síðan breiðir hún úr sér á móts við mikla klöpp sem stendur undir brekkunni og er þar djúpt, svo líður áin áfram á langri breiðu afar rólega uns hún fellur aftur í hraðari kvíslar tugum metra neðar. Undir brekkunni er bratt og erfitt að veiða, sunnan megin er sléttur malarbakki og aðgrunnt.
Þarna er fiskur um allt. Mest bleikja og hún heldur sig á ótrúlega grunnu vatni, en líka úti í strengnum og á dýpinu. Lax stoppar stutt í Fellshyl og sést oft bylta sér og í göngu upp strenginn en tekur illa þótt hann freisti manns mikið. Svo er sjóbirtingur í hylnum og hann getur verið dávænn. Því miður er minkur á bakkanum og séð hef ég fiskana stökkva helsærða undan honum á lognspegli, og lómurinn er alltaf að. Sem sagt, allt litrófið.
Oft í ökkladjúpu vatni
Þarna er bleikjan komin upp í ána og breytir þá um hegðan frá því niður við ós. Hún er ,,komin í lífríkið" eins og Jensen myndi segja. Ég hef veitt þarna með honum og Pálma og Sigga Páls og Hafþóri Róberts, svo ekki vantar leiðbeinendur!
Auðvitað tekur bleikjan skrautflugur eins og nobblera og Flæðarmús, en þar er á óvissan að róa. Maður sér hana oft á ökkladjúpu vatni gófla í sig smápöddum og vill ekkert annað. Eða hring eftir hring í yfirborði þegar hún tekur ,,þurrflugur". En, því miður, oft er eins og hylurinn sé fisklaus. Ég kom að hylnum eitt árið marga daga í röð, oft á dag, alltaf í logni og spegill yfir, og hvergi lífsmark að sjá. Sat og beið, trúði ekki að fiskurinn væri ekki til. Hún sást aldrei. Ekki kvikindi sem tók. Fyrr en síðustu vaktina. Þá voru hringir um allt! Ég hef farið inn í bleikjurnar og séð hvað þær éta: Það er allur fjandinn og stundum verður maður að hitta á einmitt á eitt af því. Eða, þær eru galtómar! Hafa ekki étið í marga sólarhringa. Og þá taka þær einfaldlega ekki sama hvað maður gerir.
Hvaða flugur?
Um flugnaval gæti ég haldið langt erindi. Sístar eru flugurnar sem hún tekur niðri í ós, skrautflugurnar, en þó gefa þær stundum. Púpur í náttúrulitum, Héraeyra, gráar og svartar smápöddur eins og MME, lirfulíkingar og það sandsmáar. Einnig skærar púpur, stundum. En bestar eru að mínu mati CDC flugur og púpur og þá helst úr smiðju Marc Petitjeans. Aðferðir? Dauðarek, hægt stripp, hratt stripp, í yfirborði, á yfirborði, undir yfirborði - stundum þetta allt og oft ekki neitt af þessu.
Ég get ekki gefið nein ráð um Fellshyl nema að koma vopnaður öllu tiltæku úr heimi lífríkis, með mikið af þolinmæði og láta hvergi bugast þótt Refsivöndurinn sé í ham. Eitt get ég þó sagt: Bleikjan er miklu nær en þú heldur, ekki vaða!