Það er langt síðan við á flugur.is kenndum púpuveiðar andstreymis og stærum okkur af því að hafa verið meðal brautryðjenda á Íslandi í þess lags veiðiskap. Á vefnum eru þó nokkrar greinar sem fjalla um málið, en það er ekki úr vegi að rifja upp nokkur grundvallaratriði fyrir þá sem vilja ná betri árangri, eða loksins- læra þessa list. Einföld er hún, en huga þar að nokkrum atriðum.
Fyrst samt: Hér hefur því löngum verið haldið fram að andstreymisveiði með púpur sé lang aflasælasta veiðiaðferðin á silung í straumvatni. Gamla lagið, með 45 gráðu kasti niður fyrir sig með votflugu eða straumflugu er full gilt, og bráðskemmtilegt, en gefur ekki jafn vel. Það er því alls ekki ætlun okkar að tala eina aðferð niður og upphefja aðra. Veiði er skemmtun og maður gerir það sem manni finnst skemmtilegt. Að því sögðu segir maður bara, veiddu eins og þig langar til. En þessi aðferð er góð og skemmtileg.
Hér er ítargrein um aðferðina sem gott er að lesa að lokinni þessari kynningu.
Þær greinar sem hér eru tenglar á gefa mun betri heildarmynd en hér er gefin og mælt er með því að lesendur nálgist þær allar.
Tvær góðar.
Næst nokkur orð um ,,púpuveiðar?. Við á Íslandi höfum notað þetta orð almennt um það sem enskumælandi kalla ,,nymphing?. Þeir nota sem sagt ,,nymphs? þegar við tölum um púpur, sem er ekki alveg það sama, en skiptir ekki máli. Það sem er átt við eru eftirlíkingar af skordýrum á lirfu- eða púpustigi í vatninu. Þetta geta verið ,,kúluhausar? eða þyngdar púpur með öðrum aðferðum, auk lirfueftirlíkinga með eða án kúluhauss. Sumar þessara flugna eru ákaflega góðar eftirlíkingar af skordýri á tilteknu þroskastigi, aðrar skrautflugur sem líkjast ekki neinu nema kannski laginu af skordýri en veiða samt vel. Peacock, sem var númer eitt í valinu á Íslandsflugunum hér á flugur.is er dæmi um svona flugu. Skoðið
greinina um Pheasant tail og Skues til að fræðast um forsöguna.
Aðferðin: Flugunni er kastað upp í strauminn, skáhallt eða beint, og látin reka niður til móts við veiðimanninn sem jafnóðum tekur inn slaka á línunni eftir því sem hún færist nær. Fluguna rekur því með hraða straumsins og mikilvægt að rekið sé frjálst ? línan má því ekki toga í hana. Algengast er að nota flotlínu með taumi sem er ívið lengri en nemur dýpt niður á botn. Til að maður sjái strax og silungur tekur er hafður tökuvari (strike indicator) á línuendanum. Um leið og tökuvarinn stöðvast eða fer í kaf bregður maður við og festir í fiskinum. Ítarlega grein um þetta má lesa hér.
Nokkur afbrigði eru til af þessari veiði. Tékkar þróuðu fengsæla aðferð sem lýst er á vefnum. Þeir nota þrjár flugur í röð á tauminum, sú fremsta er þyngst og ca. 50 sm. á milli. Þannig veiðir maður á mörgum ,,hæðum? í vatninu, eða ólíku dýpi með hverja flugu. Þeir kasta ekki. Aðferðin felst í að hafa ca. 1 metra úti af flugulínu og leggja stangaroddinn fram og láta svo fylgja línuendanum meðan flugurnar rekur framhjá manni í stangarfjarlægð. Kosturinn er augljós: Maður er í þráðbeinu og næmu sambandi við flugurnar. Svona fetar maður sig áfram um veiðisvæðið, kastar aldrei heldur ,,hamrar? í kringum sig og velur álitlegastu blettina. Þetta er svo góð aðferð að hefur komið þeim á heimsmeistararpall ótal sinnum. Flugur þeirra eru þyngdar af vísindalegri nákvæmni svo þær séu alltaf á réttu dýpi. Sjá greinina
Meistaraveiðiskapur. og nánari lýsingu
hér.
Mér hefur ekki fundist þessi aðferð mjög hentug á Íslandi. Þar kemur tvennt til: Árnar okkar eru miklu glærari en í Evrópu og fiskar styggjast frekar, enda sjá þeir veiðimanninn langt að. Árnar okkar eru líka talsvert fjölbreyttari en þær sem ég hef veitt í Tékklandi og Slóveníu, t.d., og oft þarf maður að ná hratt yfir miklu stærra svæði en þarna um ræðir. Það er einfaldlega miklu fljótlegra að kasta með mismunandi línulengd og skanna þannig veiðistaði heldur en að vaða um þá og veiða beint frá sér.
Þá erum við komin að hinni meginaðferðinni. Kasta upp fyrir sig, mislöngum köstum, í mismunandi horni útfrá sér. Þannig getur maður látið flugurnar skára breiður og strengi. Það sem ber að hafa í huga ef maður kastar með tökuvara og 1-3 flugum, er að hafa breiðan bug á línunni í kastinu. Kasta aðeins letilegar en vanalega og láta flugurnar detta fram svo flækist síður. Sumir sveifla þeim einfaldlega frá sér. Almennt er betra að veiða styttra frá sér en lengra og hreyfa sig um. Það helgast af því að því betra samband sem maður hefur við fluguna því betur gengur manni að bregða við. Sé kastað langt upp eða út missir maður líklega af fleiri tökum. Ég mæli hins vegar hiklaust með tékknesku leiðinni þar sem maður veiðir í ólgum eða strengum með góðri straumgáru og þarf að koma flugum hratt niður og vera beintengdur strax. Laxá í Mývatnssveit gefur færi á þessari veiði víða, en hún er síður nothæf að mínu mati í breiðum lygnum og tærum bleikjuám, Vatnsdalsá og Eyjafjarðará er dæmi.
En hver eru þá lögmálin sem þarf að hafa í huga?
1) Fylgstu með! Aldrei hafa augun af tökuvaranum (fiskurinn tekur alltaf ef maður gónir annað). Þetta er einbeitingarveiði. Maður veiðir meðvitað og af einbeitingu með þessum hætti.
2) Maður bregður við strax! Um leið og tökuvarinn hikar eða fer í kaf þá verður maður að bregða við. Í raun er það aðeins of seint þegar tökuvarinn hikar, því þá þegar gæti fiskurinn verið að spíta út úr sér. Þess vegna er mikilvægt að lítill slaki sé á línunni frá stangaroddi og fram í flugu.
3) Varlega! Maður bregður snöggt við, en varlega. Best er að lyfta stönginni snöggt og finna átakið við fiskinn, en gefa eftir um leið ef þarf. Ekki rykkja með afli. Það einkennir oft tökur af þessu tagi að þær eru rólegar. Fiskurinn tekur með því að láta fluguna reka upp í sig frekar en að elta hana með látum (undantekning er á þessu eins og öllu). Ef maður stendur neðan við fiskinn, sem oftast er, nægir að reisa stöngina og finna átakið til að flugan sé föst. Oftar en ekki kemur fyrst smá hik á fiskinn, og þá loks rásar hann af stað eða stekkur.
4) Náðu flugunni niður. Meginstyrkur þessarar aðferðar er að maður veiðir við botn, þar sem fiskurinn tekur mest af fæðu sinni. Margsannað er að fiskurinn þarf að taka sig verulega á til að rífa sig upp og elta straumflugu eða votflugu sem er á reki fyrir ofan legustaðinn. Hér kemur púpan á frjálsu reki að honum og oftast þarf hann að hafa mjög lítið fyrir því að gleypa hana. Þess vegna gerir hann það, af því að þetta er orkusparandi át-aðferð. Hér er komin skýringin á veiðni kúluhausa, að hluta. Þeir fara niður. Maður á því að nota flugur sem eru nægilega þungar til að fara niður undir botn, ef maður festir aldrei er eitthvað að.
5) Breiður bugur í kasti. Var nefnt áður. Sé maður með fleiri en eina flugu á taumi og tökuvara má búast við viðnámi í kastinu og hætta er á flækjum. Hægi maður á sér er síður hætta á þessu. Það er kostur að flugurnar detti fram og sökkvi strax.
6) Inn með slaka! Það segir sig sjálft: Ef mikill slaki er á línunni tekst manni ekki að bregða við um leið og tökuvarinn hikar eða fer í kaf. Því dregur maður inn línu jafn hratt og slaki myndast, annað hvort upp í hönk í höndinni eða niður í vatnið við fætur sér ef aðstæður leyfa. Gott er að hafa smá slaka á línunni alveg fremst við tökuvarann (s-laga hlykk) því það tryggir að línan dregur ekki í fluguna, en að öðru leyti er krafan: beint samband!
7) Alltaf! Hvað þýðir alltaf? Það þýðir að bregða alltaf við ef tökuvarinn hikar. Það gæti verið steinn, það gæti verið gróður, en það gæti líka verið fiskur. Tökur eru mjög misjafnar. Stundum tekur fiskur ákaflega grannt og spítir út um leið. Heilu dagana. Að bregða alltaf við getur verið munurinn á því að fá 10 silunga eða ekki neinn.
8) Prófaðu ólíkar flugur. Margir telja óþarft annað en nota Pheasant tail með kúluhaus við þessar veiðar, kannski í ólíkum stærðum. Ég hef aðra reynslu þótt PT sé mér einkar kær. Stundum dettur fiskurinn í ,,eitthvað allt annað? og vill þá bara það. Þá hef ég líka reynslu af því að þokkalegur veiðidagur getur breyst í frábæran með því að skipta út flugu sem var að gera það, ja, þokkalegt, fyrir aðra sem reyndist enn betri. Ólíkar stærðir og blanda af skrautpúpum og náttúrueftirlíkingum eru því nauðsyn í vopnabúrið.
9)
Reyndu ólíkt straumlag og staði. Að láta púpu detta niður í lænu, vik eða bak við stein er fljótvirk og góð aðferð til að kanna marga staði á stuttum tíma. Fiskarnir hreyfa sig nokkuð um í ánum þótt oft séu þeir staðbundnir. Torfa getur átt það til að hafa sig upp á grynningar ef hlýnar og klak byrjar þar, þótt hún hafi verið niður í djúpum hyl fyrr um daginn. Greinin
Urriðaveiðar í straumvatni fjallar einmitt um þessi mál, hún er
hér.
10) Reyndu nógu margt. Prófaðu tékknesku aðferðina þar sem hún virðist henta. Prófaðu að kasta langt upp í straum og fá rek í 10-15 metra til þín, og gefðu svo slakan aftur niður undan þér svo púpuna reki frjálst sömu fjarlægð niður eftir. Þannig fær maður tvöfalt lengra rek en nemur lengd kastsins. Púpan veiðir hvort sem er bara í vatninu.
Hér er ítargein um það að finna silunginn í vatninu, skýringarmyndir og greining á stöðum.
Hér er svo kennt að lesa vatnið betur, bæði fyrir lax og silung.
Spurningar:
Þarf maður að nota tökuvara?
Nei. En hann er mjög hjálplegur, jafnvel í stöðuvötnum ef taka er naum. Best er að fá sér fjölnota tökuvara, margar tegundir eru til og meginmálið er að hann sjáist vel við erfið birtuskilyrði. Tökuvarinn segir manni ekki bara ef fiskur tekur, með því að hafa augun á honum gerir maður sér betur grein fyrir þeim slaka sem myndast á milli stangarodds og línuenda.
Ein fluga eða margar?
Fer eftir ýmsu. Fremsta (eða eina) flugan þarf að vera svo þung að hún komist til botns og skralli með botni. Næsta fluga (svokallaður ,,dropper?, eða viðhengi) þarf að vera ofar á tauminum, 30-50 sm (eftir dýpt vatnsins) og vera léttari. Vilji maður bæta við þriðju flugunni er kjörið að hafa hana mun smærri og léttari. Mér hefur stundum reynst vel að vera með þriggja flugna úthald og veitt mest á þá efstu. Þá hafa hinar virkað eins og þynging á efstu smáfluguna og ég komið henni dýpra en ella hefði verið. Fiskurinn vildi í þau skipti bara litlar eftirlíkingar, en kom ekki upp í yfirborðið á eftir þeim. Þar sem það er leyft ætti vanur veiðimaður að nota 2-3 flugur.
Hvað á taumurinn að vera langur?
Fer eftir dýpt vatnsins. Hann á að vera ívið lengri en nemur dýpt vatnsins þannig að flugan fari alveg niður undir botn en hafi nægan slaka til að rúlla frjáls.
Notar maður sökkenda?
Sjaldnast og varla nokkurn tíman nema við mjög krefjandi aðstæður í djúpu og köldu vatni og þá ekki með tökuvara. Almennt notar maður flotlínu og taum við hæfi dýpis, það er þyngd flugunnar sem sér um verkefnið sem sökkendi hefur ella.
Þarf sérstakar stangir og hjól?
Nei. En léttur búnaður er skemmtilegri í þessa veiði. Lína 5-6 er miklu næmari á tökur en lína 8-9 . Viðnámið í þungum línum er meira og maður verður síður var við tökur og bregður hægar við. Eins eru sérstaklega framþungar skotlínur óheppilegar af sömu ástæðu.
Höfundur SJH