2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
16.7.2020

Pétur Steingrímsson: Cosseboom flugurnar

 
Cosseboom Special! 

 Cosseboom Special

Byrjunarvöf:  Flatur silfurþráður á einkrækjur.  Ávalur silfurþráður á tvíkrækju.

Stél:  Dökkgrænt endurskinsflos eða Antron garn.

Bolur:  Dökkgrænt endurskinsflos eða Antron garn.

Rif:  Ávalur silfurþráður.

Vængur:  Hárknippi úr gráum íkornahala.

Skegg:  Lituð gul fjöður úr hænuhnakka.

Höfuð:  Svartur þráður.

 

Góð laxafluga við flestar aðstæður. 

 

 

Höfundur þessara ágætu flugna er John C.Cosseboom. Árið 1922 var hann við veiðar í ánni Margaree í Nova Scotia. Þá hnýtti hann fluguna Cosseboom Special. Fyrst sem streamer, síðar var hún bundin á hefðbundna laxafluguöngla. Þessi gerð gengur einnig undir nafninu Cosseboom Miramichi. Hún er mikið notuð í amerískum ám, sérstaklega í norður Ameríku.

 

Til eru mörg afbrigði af Cosseboom og sumt góðar laxaflugur. Eg hef reynt 6 gerðir af þeim og mæli sérstaklega með þrem þeirra. Cosseboom Special, Cosseboom Yellow og Cosseboom Black, sem hefur gefið mér flesta laxa af þessum flugum.

Eg vil hvetja alla laxveiðimenn til að hafa þessar þrjár gerðir með sér á laxveiðar í sumar og nota þær óspart.

 

 

 

Cosseboom Gul

 

Byrjunarvöf:  Flatur silfurþráður á einkrækjur, ávalur silfurþráður á tvíkrækjur.

Stél:  Gult flos.

Bolur:  Gult flos (betra að vefja það yfir flatan silfurþráð).

Rif:  Flatur silfurþráður (betra að nota ávalan silfurþráð).

Vængur:  Hárknippi úr gráum íkornahala.

Skegg:  Grá hanafjöður hringvafin. (Í sumum tilfellum er betra að hafa skeggið gult.)

Höfuð:   Rauður þráður.

 

 

Cosseboom Black

 

Byrjunarvöf:  Flatur silfurþráður á einkrækjur, ávalur silfurþráður á tvíkrækjur.

Stél:  Svart flos.

Bolur:  Svart flos.

Rif:  Ávalur silfurþráður. (Það fer vel á því  að hafa rifin á öllum Cosseboom flugum úr flötum silfurþræði og vefja ávölum þræði aftanvið rifin. Ekki samt uppá flata þráðinn.)

Vængur:  Hárknippi úr gráum íkornahala. 

Ofaná væng: tvær til þrjár sverðfjaðrafanir af Páfugli.

Hliðar:  Spegilhana-hnakkafjaðrir. (Má sleppa.)

Skegg:  Lituð svört fjöður úr hænuhnakka.

Höfuð:   Svartur þráður.

 

 

Þegar flugur eru með hringvafið skegg er betra að "brjóta saman"  skeggfjöðrina áður en skeggið er vafið. Þá er engin hætta á að fanir lendi undir vafningana. Fanirnar eru lagðar saman þannig að þær snúi allar í sömu stefnu.

 

Eg birti ekki uppskriftir af fleiri Cosseboom-flugum vegna þess að til eru margar aðrar flugur jafn góðar og jafnvel betri. En hafi einhver áhuga á því að fá uppskriftirnar skal eg með ánægju verða við því.

 

Veiðisaga:

 

Bílvegir voru ekki gerðir að Laxánni eða meðfram henni fyrr en eftir 1940. Austur að ánni frá Nesi lá slóð fyrir hestakerrur. Stundum komust menn þessa troðninga á bílum, sem hátt var undir. Miklu oftar skildu þó veiðimenn bílana eftir heima við bæ eða einhversstaðar á túninu nær ánni. Einn sumardag eftir hádegi komu tveir menn, sem áttu veiði í Neslandi. Báðir vel yfir miðjan aldur og annar vel í holdum.

 

Bílinn skildu þeir eftir á túninu skammt austan við bæinn. Þeir röltu síðan niður túnið í átt að ánni. Skammt utan við túnfótinn var gaddavírsgirðing og hlið á henni fyrir umferð um vegarslóðann. Hliðgrindin var úr timbri, létt og auðvelt að opna hana og hæðin rúmur metri.

 

Skammt frá slóðinni, sem lá niður að ánni stóð afgirt beitarhólf fyrir kýrnar. Með þeim í girðingunni var mjög stór hornótt kýr. Hún hafði nýlega verið keypt og ekki búin að samlagast hópnum. Hún hafði þann leiða vana að setja undir sig hausinn, róta upp jörðinni með fótunum og bölva eins og mannýgur tarfur.

 

Ef hún sá fólk á ferli hljóp hún í áttina til þeirra skakandi hausnum og bölvaði óspart. Aldrei gerði hún neinum manni mein en hafði gaman af að elta fólk ef það hræddist hana. En það gerðu margir, því öll var framkoma hennar í fremra lagi geigvænleg. Veður var rigningarlegt þennan dag og heimafólk að raka saman hey á túninu.

 

Veiðimennirnir töluðu við fólkið um stund en síðan héldu þeir áfram göngunni niður að ánni. Kýrin kom auga á þá. Hún kom hlaupandi í áttina til þeirra með illum látum. Hún gat ekki komist út úr hólfinu en samt urðu mennirnir skelfingu lostnir. Þeir hlupu í átt að túngirðingunni eins og um líf eða dauða væri að tefla.

 

Fólkið reyndi að kalla til þeirra að kýrin væri meinlaus. Því vildu þeir ekki trúa og hvorugur linaði á sprettinum. Þegar þá bar að túngirðingunni hljóp sá léttari rakleitt yfir hliðgrindina með stöngina og allan sinn búnað. Sá gildari reyndi ekki að stökkva yfir grindina. Hann kastaði stönginni og veiðidótinu yfir girðinguna og tróð sér í fátinu milli strengja í gaddavírsgirðingunni. Þar stóð hann fastur og komst hvorki fram né aftur. Maðurinn braust um fast í girðingunni og kallaði hástöfum á hjálp .

 

Heyskaparfólkið hljóp til og greiddi manninn úr girðingunni. Hann var ómeiddur en ákaflega móður orðinn af allri áreynslunni. Kýrin starði undrandi á allan þennan fyrirgang. Hún hafði aldrei áður heyrt svona hljóð koma úr nokkrum mannsbarka. Svo hristi hún hausinn og fór að bíta gras. En veiðimennirnir héldu áfram för sinni niður að Laxá.

 

Sá minni fékk Kirkjuhólmakvíslina en feiti maðurinn átti að veiða Skriðuflúð. Hann byrjaði að kasta og fór mörgum sinnum yfir veiðistaðinn með fjöldann allan af flugum en ekkert gekk. Það gerði svolitla úrkomu. Þegar eftir var rúmur klukkutími af veiðitímanum skipti veiðimaðurinn enn um flugu. Hann valdi Cosseboom Black tvíkrækju númer 6. Eftir fáein köst tók lax. Viðureignin tók 20 mínútur og skepnunni var landað á sandeyri neðan við Kirkjuhólmabrot, 14 punda hængur. Veiðimaðurinn náði tveimur öðrum löxum á Skriðuflúð fyrir lok veiðitíma, 12 punda hrygnu og annari 6 punda. Hinn maðurinn náði góðum urriða í Kirkjuhólmakvísl.

 
Endurbirt frá meistara

Pétur Steingrímsson

 

 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði