Friggi er ein af þessum flugum sem ná að skjóta sér upp á himinn veiðimanna. Sumarið 2013 var hún all heit í umræðunni og Flugufréttir frumsýndu hana fyrstar fréttamiðla á Íslandi. Í kjölfarið hófst svo áhugaverð umræða um hvað væri ,,hönnun" og hvað ekki, á flugum.
Baldur Hermannsson sýndi Friggann við opnun kvikmyndahátíðar þar sem hann hnýtti í erg og gríð. Svartir með grænum afturenda og rauðir sem virtust einkar bleikjulegir enda kom í ljós að þeir hafa gefið vel í sjóbleikju. Við vitum að þessi fluga er komin í umferð hjá mörgum, ekki síst sem ákaflega þung túpa sem má koma niður í þröngar holur þar sem laxinn liggur.
Stærsti lax sumarsins í Elliðaánums sumarið 2013 var 15 punda hængur. Fiskurinn var einn af mörgum sem hefur fallið fyrir Frigga sem er sköpunarverk Baldurs Hermannssonar.
Baldur hefur skráð vörumerkið Frigga og hönnunina sjálfa og uppskrift flugunnar birtist fyrst í Flugufréttum í ágúst 2013 með góðfúslegu leyfi Baldurs.
Baldur segist hnýta Frigga í 3 stærðum, 1/2"-1" og 1 1/2" og litasamsetningarnar sem hann framleiðir fluguna í eru um tíu talsins.
Uppskriftin:
Búkur: Plaströr
Búkefni: Ice-yarn
Búkvöf: Silfur
Vængir: Skagfirskt hross (enda hannaður fyrir Flókadalsá í Fljótum og vötnin þar)
Hringvöf: Hani
Keila: Silfur tungsten.
Friggi var ekki hugsuð sem laxafluga, heldur var urriði og sjóbirtingur í huga Baldurs þegar fyrstu drög voru lögð að flugunni. Frumútgáfan var reyndar nokkuð stærri og var notuð til þess að draga aftur úr báti á Flókadalsvatni. Sú útgáfa gengur undir nafninu Báta-Friggi.
Fyrsti maðurinn sem veiddi á Frikka var bróðir Baldurs, Friðrik Ásgeir Hermannsson lögfræðingur en hann lést árið 2005. Baldur segir reyndar að Friðrik, sem kallaður var Friggi, hafi talið fluguna vera Nobbler og talaði um hana sem slíka til að byrja með. ,,Þegar ég sá hann með fluguna var ég fljótur að benda honum á að þetta væri ekki Nobbler. ,,Hvað heitir hún þá," spurð'ann og ég svaraði að bragði, þessi fluga heitir Friggi," segir Baldur Hermannsson sem hér birtir uppskriftina af Frigga og biður lesendur Flugufrétta (og flugur.is) að virða vörumerkið og hönnunina.
,,Mér finnst ekkert að því þótt menn hnýti fluguna fyrir sig og treysti því að menn fari ekki út í fjöldaframleiðslu á Frigga, til þess hafa þeir ekki leyfi," segir Baldur.
--
Það var svo einnig í Flugufréttum haustið 2013 að Jón Ingi Ágútsson sá mikli flugnafrömuður gerði miklar athugasemdir við í aðsendri grein að Baldur kallaði sig hönnuð Frigga. Allir eiginleikgar flugunnar væru þegar komnir fram í öðrum flugum og ekki hægt að gera tilkall til einkaréttar á ,,hönnun" flugu sem væri gædd áður þekktum persónueinkennum. Því síður að banna mönnum að hnýta hana og selja.
Jóni Inga finnst það skjóta skökku við að hægt sé að skrá vörumerkið Frigga og hönnunina. Jón Ingi segir þetta fyrsta ,,einkaleyfið" á flugu sem gefið hefur verið út í heiminum og dregur stórlega í efa að hægt sé að gera slíkt tilkall.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttalögmaður aðstoðaði Baldur við skráningu Frigga og hann sendi okkur þetta í framhaldi af skrifum Jóns Inga:
...Að baki hönnunar- og vörumerkjaverndinni búa þau einföldu og sanngjörnu sjónarmið að eðlilegt sé að hönnuðurinn sjálfur njóti góðs af hugmynd sinni og hönnun, fremur en ótengdur þriðji aðili, sem ekkert hefur til hönnunar eða markaðssetningar flugunnar lagt.
..Nægir í því sambandi að vísa til bókar Einars Fals Ingólfssonar og Kjartans Þorbjörnssonar - Í fyrsta kasti - sem út kom árið 2007, en í þeirri bók er að finna viðtal við Grím Jónsson járnsmið, höfund annarrar vinsællar og vel heppnaðrar alíslenskrar veiðiflugu, Snældu, sem flestir veiðimenn þekkja. Í nefndu viðtali (nánar tiltekið á bls. 54-55) rekur Grímur sögu Snældu og greinir meðal annars frá því að skráður höfundaréttur og hönnunarvernd vegna flugunnar séu hans eign.
Flugur.is taka ekki afstöðu til þeirra sjónarmiða sem hér koma fram, annars vegar hjá Baldri og hins vegar Jóni Inga. Margir hnýta reyndar Snælduna og selja víða. Og ótaldir nota fluguna Frigga og við höfum fengið leyfi Baldurs til að hnýta hana til eigin nota. Hér er hún:
Hægt er að ná í Baldur á bhermanns@internet.is