2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
26.7.2020

Haustverkin í flugnadeildinni - heilræði

 

Sorglegt.  Síðasti túrinn að baki og ekkert eftir nema pakka.  Eða, búa í haginn fyrir næstu veiðiferð.  Undirbúa sig vel fyrir næsta sumar með góðum frágangi að hausti.   Takið eftir stangahólkunum.   Pokarnir þurfa að vera þurrir og stangirnar líka, margur hefur farið flatt á því að láta kork og poka mygla veturlangt.  Sjáið aflakassann.  Hann þarf að skola vandlega, ekki vill maður ýldulykt um jólin í húsið!  Og flokka og raða dótinu í töskuna því sumum hættir til að skapa óreiðu í þessu öllu þegar veiðihugurinn er sem mestur.

Í pistlum Rafns heitins Hafnfjörðs hér á flugur.is leggur hann mikla áherslu á góðan undirbúning fyrir veiðiferðir.  Og undirbúningurinn hefst á hausti þegar síðustu veiðiferð lýkur:

Rafn sagði: 

,,Ég byrja venjulega eftir síðustu veiðiferð á haustin að undirbúa þá fyrstu næsta vor með því að ganga vel frá veiðigræjunum, þurrka línurnar og hreinsa með sérstöku hreinsiefni, þurrka blautar flugur, troða dagblöðum í blauta vöðluskó, svo þeir haldi lögun sinni og hengja upp vöðlurnar, svo lofti vel um þær.
 
Þegar þessu er lokið lít ég í minnisbókina og rifja upp veiðiferðirnar frá sumrinu. Lít yfir fluguboxin og rifja upp hvaða flugur reyndust best og hvaða flugur mér fannst vanta. Einnig læt ég sérfræðing fara yfir línurnar, segja mér hvaða línur voru farnar að trosna. Henda þá þegar þeim sem eru orðnar sprungnar og kaupa nýjar - strax.  Ekki geyma það fram að næsta vori, því þá getur ýmislegt verið gleymt. Fara einnig strax yfir vöðlurnar og láta gera við ef þarf, eða kaupa nýjar, því oft eru útsölur á veiðigræjum á haustin - ekki á vorin. Þeir sem hnýta sjálfir byrja á því strax að hausti, eftir síðustu veiðiferð, meðan öll smáatriði eru enn ofarlega í huganum. Setja síðan það sem helst vantar á jóla - eða afmælisgjafalistann."
 
Þetta eru gullvæg orð.
 
 
Hafi hjól og línur lent í söltu vatni, sandi eða álíka VERÐUR að skola þetta allt vel.  Sökkvið bara í fötu fullri af vatni og dragið út línu með hjólið í kafi.  Línur safna á sig miklu reki og skít yfir sumarið.  Vindið línuna upp á hjólið úr fötunni, gegnum klút, svo óhreinindi strjúkist af.  Sumir bóna líka á þessu stigi.  Það er gæfulegt.  Aðrir líta eftir hvort dropi af olíu geti ekki hjálpað hjólinu.  Gangið svo frá í tösku þegar allt er orðið þurrt.  Klippið gamla tauma af flugulínum og hendið.  Ein besta fjárfesting fluguveiðimannns er í góðri línu.  Ef einhver lína er trosnuð eða stöm borgar sig að hugsa um nýja á útsölum.
 
 
Algjört lykilatriði er að flugnaboxin séu þurr.  En hér má endurraða.  Í síðasta túr lentum við í hörku látum og gleymdum að raða skipulega í boxin meðan við reyndum nýjar og nýjar flugur.  Svona benda er ekki á vetur setjandi.  Nú röðum við öllum flugunum aftur á sinn stað!
 
Flugnalagerinn þarf athygli við.  Við flokkum og röðum flugum úr öllum boxunum sem við notum þegar við göngum til veiða og setjum í stór box sem eru ,,lagerinn".  (Þessu má sleppa, raða bara og flokka í ákveðin box í vestisvasann ef menn vilja).
 

 
Þessi veiðimaður var  búinn að flokka allar sjóbirtingspúpurnar sínar í eitt box. Svo er hann með annað box fyrir straumflugurnar sínar.  Laxaflugurnar eru svo væntanlega í enn einu boxinu og þá er það upptalið.
 
Þessi veiðimaður fer aðra leið enda á hann mikið af flugum:
 

Hann setur allar púpurnar sínar í eitt stórt box eða kassa, straumflugurnar í annað, bleikjuflugur í það þriðja og laxaflugur í það fjórða. Hann er samtals með fimm stór box sem hann velur úr í smærri box fyrir hvern veiðitúr.  Og skilar svo aftur inn á lagerinn eftir hendinni.  Svo er hann með nokkur smærri ,,sérhæfð" box: flottúpur í lax, þyngdar túpur í lax, agnarsmáar þurrflugur í nokkrum boxum, og svo sérval héðan og þaðan.  Silungaflugnaboxin eru í einni tösku, laxaflugurnar í annarri.  Hann gengur síðan til veiða með ,,úrval dagsins" í litlum boxum í vestisvasanum eftir því hvar hann veiðir hverju sinni.  Hugmyndin er að skila aftur inn á lagerinn að loknum hverjum túr til að hann muni örugglega eftir að þurrka flugurnar og bæta við ef eitthvað vantar inní áður en það gleymist.
 
Og þá eru það vöðlurnar:
 
 
Rándýrar gore-tex vöðlur.  Þær verða að vera þurrar þegar þeim er pakkað til vetrar.  Sumir hengja þær upp í þurrum skáp.  Aðrir kjósa að rúlla þeim upp eins og strigapoka án þess að brot myndist í þeim.  Hvoru tveggja er í lagi.  Þær verða bara að vera þurrar og hreinar.  Þvo má vöðlur í þvottavél og eru leiðbeiningarnar á ,,heilræðasíðu" hér á vefnum.  
 
Nú er allt klárt:
 
1) Flugur flokkaðar í box og þurrar.
2) Vöðlur hreinar og þurrar á vísum stað, skór þurrir líka.
3) Stangir í hólkum og þurrar í pokum.
4) Hjólin skoluð og ef til vill smurð.
5) Línur yfirfarnar, lagðar í bleyti, strokið af þeim og hugsanlega bónaðar áður en þær eru undnar upp á hjólin.
6) Aflakassar og pokar hreinsaðir og hnífar líka.
7) Enginn banani í vestisvasanum!
 
Og þá er maður klár í næsta túr.  Hvenær sem hann verður.  En á meðan hnýtir maður í götin á lagernum.
 
Ps.
Heilræði frá Stebba Hjaltested:
 
Þegar maður gengur til veiða velur maður úrval dagsins í eitt eða fleiri box eftir atvikum og hefur á sér.  Síðan hefur maður tómt box lika í vasanum.  Í hvert skipti sem maður klippir af flugu og skiptir setur maður blautu fluguna í tóma boxið.  Í lok dags endurraðar maður svo.  Þetta tryggir að litur smitast ekki milli flugna, eða bleyta, og maður hugsar vel um það hverju sinni hvaða flugur er best að velja fyrir daginn, og hverjar megi fara í hvíld.  Stebbi vill meina að best sé að hafa lagerbox tiltæk í veiðitúrum og hafa skipulag á þeim svo maður finni starx það sem vantar, og sjái um leið hvað vantar þegar að er gætt.

Endurbirt heilræði af Flugur.is greinarsafni
Höfundur SJH
 
12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði