Svona hófst pistill sem birtist í Flugufréttum í febrúar 2002. Hann kom upp í huga minn um áramótin þegar margir liðnir atburðir rifjuðust upp þegar gluggað var í gamlar veiðibækur. Höldum áfram með pistilinn:
Ég fór að veiða í rokinu á öskudaginn. Það gekk vel, reyndar alveg ótrúlega. Var í Grenlæknum og átti góða stund með Pjetri vini mínum á bakkanum rétt ofan við brúna. Vorum búnir að ná nokkrum við Grashólmann og vorum í kaffipásu að velta fyrir okkur þjóðmálunum þegar við heyrðum "búmm", djúpa hljóðið sem heyrist einungis þegar stórir fiskar lenda eftir heimsmetstilraun í hástökki.
Auðvitað óð ég útí,var með sökklínu enda hylirnir djúpir og straumurinn nokkur við vesturlandið. Á endanum var ein eftirlætisflugan mín,Wolly Worm, straumfluga númer sex. Byrjaði efst í hylnum.Línan lagðist vel, algert draumakast og það hreinlega lá við að fiskurinn stykki upp á móti flugunni og tæki hana á lofti, þvílík var græðgin í honum. Þetta var fallegur silfur gljáandi sjóbirtingur sem sannarlega kunni að berjast, sex veiðimannpund eða svo. Já, þetta var góður dagur. Úr Grenilæknum fór ég í Laxá í Þing með viðkomu í Hlíðarvatni, Hítarvatni og Elliðavatni!
Heilsárs sport
Já, það er dásamlegt að stunda heilsárs sport eins og fluguveiðar og stytta veturinn með kastæfingum, hnýtingum og endurupplifun ævintýranna eins og ég gerði á öskudaginn. Ég fann nefnilega fimm ára gamla dagbók sem ég skrifaði í allt sem ég hugsaði og sýslaði í sambandi við veiði. Í bókinni voru upplýsingarum hvað ég hafði hnýtt á dag, hugsað, keypt, við hverjar var rætt um veiði og að sjálfsögðu frásagnir og myndir úr veiðitúrum. Hver einasti fiskur skráður, lengd og þyngd, athugasemdir um tiktúrur veiðifélaganna og jafnvel um bullið í þeim sem skrifa um veiði.
Mesta eftirsjáin
Mest sé ég eftir því að hafa ekki haldið út með dagbókarskrifin. Hætti þegar líða tók á sumarið en margt þarna lýsir vel þankagangi veiðimanna og eftirvæntingunni eftir fyrsta veiðitúrnum, eins og þetta frá 5. maí vegna fyrirhugaðs túr í lækinn sex dögum síðar:
Hnýtti einn Rambó fyrir morgunverð. 4 stiga frost í nótt og Mýrdalssandur lokaður vegna veðurs. Spáin á netinu gefur þokkalegar vonir, en hvenær hafa þessar langtímaspár ræst? Fékk hugmynd að einfaldri silungaflugu; silfurlitaður öngull, búkurúr koparvír og grár íkorni í væng. Lítur vel út í huganum,hnýti hana á morgun.
Ég man enn þá allar áhyggjurnar en vitaskuld var verðið frábært og veiðin góð. Nú er ég aftur byrjaður á veiðidagbók enda veit ég núna hvað minningarnar geta stytt veturinn og ég skora á alla veiðimenn að gera slíkt hið sama, það ætti enginn að sjá eftir því.
-þgg