2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
7.8.2020

Þurrflugur og litla bragðið - bættu þurrfluguveiðina

 

Áin kraumaði af lífi, skordýrum og fiskum. Vatnsfilman var þakin flugum. Vandinn þarna var að vekja athygli á sinni flugu, einni meðal milljóna og aftur milljóna. Hin hefðbundna aðferð, að láta eftirlíkingu reka með öllu öðru æti á vatninu virkaði ekki.

 Hvílíkur dagur! Ég var kominn langt frá mannabyggð, náttúran söng af gleði og ég með. Áinn iðaði blíð og streymdi með grösugum bökkum inní langan lygnan hyl. Það var hlýtt, það var snörp gola sem ýfði gáru mót straumi. Ég stóð með stöngina og hlustaði. Stöku sinnum heyrðist lítill smellur. Enn sjaldnar skvetta. Ég sá ekki hringi á vatnsborðinu vegna vindgárunnar og straumsins þar sem áin féll gegnum þrengsli inn á hylinn. En ég heyrði að silungarnir voru að vaka. Ég sendi svarta þurrflugu út. Ágætur fiskur tók en reif sig lausann. Klukkan var tvö. Lögskipað hlé. Nú yrði ég að bíða í tvo tíma og bullandi taka um allan hyl.

Þetta var góð æfing í þolinmæði. Ég fór úr nær hverri spjör, borðaði nesti, blundaði, stöku sinnum stóð ég upp í lautinni og skyggndist yfir hylinn. Enn var æðisgengin taka. Fuglar sungu og sólin skein. Þetta var vetrardraumur að rætast.

Þessi tveggja tíma hvíld leið hægt. Og svo varð klukkan fjögur, og þá stóð ég úti í á þar sem takan var áköfust, búinn að hnýta Black Gnat á og hélt henni milli tveggja fingra meðan sekúnduvísirinn silaðist áfram. Ég ætlaði ekki að brjóta reglur á svo fögrum degi.

Golan hafði dottið niður síðasta hálftímann. Nú var logn. Vatnsflöturinn gáraðist hvergi. Um allan hyl kraumaði, stórir hringir mynduðust eftir kröftuga fiska sem tóku af ákefð.

Flugan sveif út. Klukkan 10 sekúndur yfir fjögur tók sá fyrsti. 2-3 punda fiskur sem reif fluguna í sig í fyrsta kasti, fet frá þeim stað sem hún lenti. Hann stökk, stökk aftur, og stökk enn... og var farinn. Ég tók fluguna og blés snöggt á vængina til að þerra þá, sendi hana út. Klukkan 45 sekúndur yfir fjögur tók annar fiskurinn. Flugan lenti fet frá honum, flaut rólega þar sem hann hafði tekið og svo var hann allur á lofti út um allt, stökk, stökk og stökk aftur og aftur... og var farinn.Ég átti sex tíma vakt framundan, tveir fiskar búnir að taka á einni mínútu og kraumandi fiskur um allan hyl. Hringur við hring. Þetta var himnaríki.

 

Næstu tveir tímar...

...liðu. Fiskur út um allt. Enginn tók. Ég kastaði aftur og aftur á rísandi fisk. Saman flugan, og svo nýjar flugur. Eftir tvo tíma var ég gjörsamlega búinn. Ég fékk ekki eina einustu töku. Klukkan sex kom gola, það snögg kólnaði, takan hætti, fiskalætin rénuðu. Ég kastaði áfram og varð ekki var.

 

Litið um öxl

Lærdómurinn? Mér fannst ég hafa reynt allt. Það gerði ég ekki, því eitthvað var það sem ég reyndi ekki, en hefði virkað. Ég spáði í hvort flugan hefði setið illa eftir að ég var búinn að setja í tvo fyrstu fiskana. Þeir vildu hana meðan hún var þurr. Var komin bleyta í hana sem olli því að hún sat ver en áður? Nú man ég ekki betur en ég hafi prófað aðra sömu tegundar, en kannski var hún ekki rétt hnýtt? Voru þessir tveir fiskar bara þorpsfíflin í hylnum? Allir hinir svo gáfaðir að vilja ekki gerviflugur? Því trúi ég ekki. Ég fór yfir í púpur. Virkuðu ekki heldur. Stórar ljósar þurrflugur. Ég reyndi allt sem ég kunni. En eitt kunni ég ekki þá. Litla bragðið.

 

Litla bragðið

Eftir á að hyggja hefði það kannski virkað. Litla bragðið er fyrir svona aðstæður. Áin kraumaði af lífi, skordýrum og fiskum. Vatnsfilman var þakin flugum.Vandinn þarna var að vekja athygli á sinni flugu, einni meðal milljóna og aftur milljóna. Hin hefðbundna aðferð, að láta eftirlíkingu reka með öllu öðru æti á vatninu virkaði ekki. Við þessar aðstæður verður maður að hugsa eins og fiskur, en ekki von daufur veiðimaður. Fiskurinn tekur það sem athyglin beinist að.

Maður dregur athygli fisksins að flugunni sinni. Með litla bragðinu. Kastið er hefðbundið kast með slaka, flugan lendir hæfilega langt fyrir framan fiskinn til að styggja hann ekki, og svo rekur hana niður með öðru æti. Þegar hún nálgast fiskinn kippir maður henni aðeins til, svo hún skári vatnsflötinn. Fyrir fiskinn þýðir þetta eitt: Þarna uppi er fluga að reyna að flýta sér burt. Athyglin beinist að þessari og einmitt þessri flugu. Um leið sleppir veiðimaðurinn og flugan rekur aftur frjáls. Kæru félagar og vinir: búið ykkur undir hörkuneglingu. Fiskurinn hefur nú séð fluguna, veit að hún er að reyna að brjótast upp úr vatnsfilmunni, og hvað gerir hann? Neglir! Um leið og hann sér að hún kemur fljótandi niður með straumi þrátt fyrir allt. Þetta er litla bragðið sem ég kunni ekki þarna um árið, en hefði kannski heppnast?

Við skulum fara yfir litla braðið lið fyrir lið:

1) Veiðimaður staðsetur fisk sem rís reglulega, en fúlsar við flugum sem látnar eru reka yfir staðinn. (Fyrsta athugasemd: gætið vel að hvort taumurinn sekkur. Liggi taumurinn á vatnsfilmunni mun fiskurinn ekki taka. Hann má ekki skára vatnsflötinn. Önnur athugasemd: Athugið hvort flugan situr hátt á vatnsfletinum. Geri hún það kann að þurfa að klippa neðan af kraganum svo hún sitji lægra, eða velja flugu sem er ekki jafn bústin).

2) Sé búið að reyna hefðbundið frjálst rek er komið að litla bragðinu. Kastið flugunni vel upp fyrir fiskinn. Til dæmis einn metra. Látið hana reka niður að staðnum þar sem hann sýnir sig, eða liggur. Þegar hún á innan við eitt fet í punktinn þar sem hann sýnir sig er kippt fínlega í línuna. Flugan stoppar, og rásar ÖRLÍTIÐ á vatninu. Þetta er mjög fín hreyfing. Rétt eins og flugan hafi andartak krafsað sig af stað, en svo hætt við.

3) Nánast um leið er línunni sleppt og flugan látin reka niður á punktinn. Alveg frjáls. Undirbúið töku.

Hvert er leyndarmálið? Leyndarmálið er þetta: Þessi hreyfing flugunnar vekur athygli fisksins á henni. Venjulega liggur fiskur örlítið OFAR en þar sem við sjáum hann taka. Hreyfing flugunnar er miðuð við að hún verði nákvæmlega yfir fiskinum, sem þá lyfir sér upp með straumi og tekur örstutt fyrir neðan.

Athugið: Í mjög stórum og djúpum hyl þar sem fiskar eru að taka óreglulega hingað og þangað getur verið gott að kasta á hann miðjan og gera þessa smá hreyfingu stöku sinnum meðan fluguna rekur niður. Fiskar sem liggja djúpt og dreift fá þá tækifæri til að taka eftir henni.

MUNIÐ: Þetta er lítil hreyfing! Veiðimaðurinn verður að vera jafn nettur og skordýr.

 

Og svo...

...má auðvitað spá í frekari brögð. Litla bragðið er auðvitað nákvæmlega það sama og oft gerist þegar fiskur eltir straumflugu. Maður lætur hana reka, en um leið og maður ætlar að lyfta henni, eða draga til sín, tekur hann. Af því að bráðin er að sleppa. En virki litla bragðið ekki? Hvað gerir maður þá? Mig grunar að þá snúi maður sér frá eftirlíkingum af skordýrum, og nái sér í áberandi öðruvísi flugu en náttúran er að framleiða. En það er önnur saga.

Endurbirt heilræði frá SJH

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði