Ég kom að litlu vatni í sumar. Það var dauflegt yfir að líta. Dumbungur var og ljós flatt yfir landinu. Þetta litla silungsvatn var grátt en ekki blátt, ölduhæð meiri en mér finnst skemmtileg, án þess þó að hvítnaði. Það var gjóla, strá skulfu á bakkanum. Mig langaði eiginlega ekkert út úr bílnum. Sat og spáði í málin. Hlustaði á Hauk Morthens, eða var það Ellý? Velti vöngum og fannst að hlyti að vera kalt, notalegra að sitja bara inni í bíl. En svo nennti ég því ekki og fannst eiginlega að ég væri skyldugur að fara út að veiða. Til þess var ég kominn. Horfið á vatnið. Fjandi var þetta eitthvað líflaust. Ekki fuglar, ekki fiskar, bara þetta gráa öldugjálfur í gjólunni og himinninn svo óendanlega óáhugaverður: eins og kofaþak en ekki stórbrotin veröld.
Fór út.
Ekki sem sýnist
Það er ekki allt sem sýnist. Gjólan var ekki svöl eins og ég hélt heldur þokkalega væn við vanga. Ég setti saman stöngina og dró línuna gegnum lykkjurnar, var rólegur í öllum athöfnum, mér lá ekki á. Ákvað að treysta allan búnað, tók í samskeyti línu og taums, spáði í að lengja tauminn og gerði það með því að bæta við enn grennra girni fremst. Fór yfir hnúta og ákvað að setja ekki flugu undir fyrr en ég væri kominn út í vatn. Ég á mér stað á steini þarna, stað sem ég fer alltaf út á og stend við veiðar. Fyrir framan mig og til hægri handar eru bleikjumið, en til vinstri kasta ég inn á milli steina, því þar eru urriðar, og þegar ég hef staðið hreyfingarlaus smá stund veit ég að þeir eru komnir milli mín og lands, svo ég kasta þangað líka. Ég er sem sagt í góðu færi við fiskana þarna.
Svo ég óð út.
Hm? Plask? Ég heyrði plask í fiski. Jæja? Var eitthvað að gerast? Var þetta einhver vitleysingur sem var á ferð þarna í grjótinu? Eða var þetta merki um að fiskarnir væru í tökuskapi? Aftur heyrði ég plask. Og var bara kominn hálfa leið út á stein. Ákvað að vaða alla leið út og kasta ekki strax enda ekki búinn að setja flugu undir. Hugsaði að ekki væri allt sem sýndist, það sannaði hitt sem heyrðist.
Meira fjör
Vindurinn var stinnur en ekki óþægilega, vatnið var úfið en ekki meira en mér hafði virst úr landi. Ég horfði í ölduna. Jahá. Kemur ekki haus af bleikju upp? Haus með hryggstykki sem glytti í eins og skugga inni í öldunni? Ójú. Ég er orðinn nógu vanur svona fiskiferð til að trúa eigin augum. Fyrst þegar ég fór að veiða hafði ég ekki augun hjá mér eins og nú, og hlustaði ekki með sperrtum eyrum þótt ég væri að öðru leyti slakur. Ég vissi að þessi fiskur hafði í raun sýnt sig. Svo brotnaði alda. Hún brotnaði ekki eins og litlu öldutopparnir sem áttu það til að ýfast undan vindum. Hún brotnaði á móti vatninu. Það þýðir að fiskur hefur verið að stússa undir. Við hvað? Það er ekki margt sem þeir gera nema elta flugur eða lirfur eða jafnvel síli. Ég vissi að þetta var bleikja, vinkona hinnar sem hafði sýnt sig áður.
Ég horfði lengur. Sá að stöku sinnum komu hringir, örsnöggt, varla sýnilegir af því að vatnið lét svo illa. En það voru fiskar á ferð. Þetta sást ekki frá bakkanum.
Og ég ekki búinn að velja flugu.
Einfalt val
Það var svo sem ekki erfitt að velja flugu. Lítil lirfulíki yrðu fyrir valinu fyrst og svo smáar gráleitar eða brúnleitar þurrflugur ef hitt dygði ekki. En ég þurfti ekki að hafa áhyggjur. Brúnleitt lirfulíki, einhvers staðar á milli Tailor og Pheasant Tail varð fyrir valinu og strax í fyrsta kasti var hrifsað í. Ég var í fiski. Og meiri fiski og enn meiri fiski.
Vatnið kraumaði af lífi. Fullkomalega á skjön við það sem mér hafði virst.
Skiptir ekki máli
Þetta er ekki veiðisaga um hve mörgum ég náði eða hve stórir þeir voru. Ég náði nokkrum silungum í soðið, það man ég, og þeir tóku litlar lirfur, örugglega Tailor, sjálfsagt hef ég prófað Peacock líka en varla meira, þetta var þannig dagur. Maður þurfti ekki að leita fyrir sér. Þetta er hins vegar saga um hvernig "óveiðilegt" umhverfi getur í raun verið iðandi af lífi þótt annað sýnist. Ef letin og andleysið hefðu náð yfirhöndinni yfir hinni eilífu vongleði hefði ég aldrei farið út úr bílnum. Bara setið, drukkið kaffi, hlustað á Hauk og keyrt svo "eitthvert" annað til að athuga hvernig liti út þar. Það hefði svo sem verið í lagi. En hitt var betra. Að vera í urrandi fiski nokkra klukkutíma þvert gegn væntingum.
Endurbirt grein eftir SJH