2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
11.8.2020

Hve margar flugur þarf maður?

 

Silungaflugur, hversu fáar er nóg?

 

Munurinn á laxaflugu og silungaflugu er fyrst og fremst sá að enginn veit hvers vegna laxinn tekur sína flugu, en allir að silungurinn er í leit að æti - þess vegna tekur hann silungaflugu.  Að þessu sögðu tekur svo við ævintýralegur frumskógur af fræðum og kenningum sem ég mun nú reyna að hjálpa mönnum að rata um.

 

Við vitum sem sagt að silungurinn telur fluguna mat.  Næsta skref er að átta sig á því silungaflugur skiptast í tvo meginflokka eftir útliti:  Fyrri flokkurinn leitast við að líkja eftir æti.  Dæmi er Black Gnat sem líkist mýflugum sem fiskurinn étur mikið.  Seinni flokkurinn líkist ekki neinu sem fiskurinn þekkir eða étur, en hann telur samt gómsætan bita.   Þetta eru skrautflugur sem egna fiskinn.  Dæmi er Peter Ross, sem er einkar veiðin silungafluga en líkist engu sem íslensk náttúra býður uppá.  Það er því fyrsta umhugsunarefni veiðimanns á bakka hvort hann ætlar að bjóða upp á eftirlíkingu af því sem fiskurinn virðist éta þá stundina, eða æsa hann í skrautflugnatöku.

 

Ég held að almennt viðurkenni menn að ætislíki gefi meiri veiði ef menn vita hvað er á matseðli fisksins.  Sé sú vitneskja ekki fyrir hendi er einfaldast að byrja á þekktum og viðurkenndum skrautflugum, ná einum á land og kryfja, til að skoða hvað sá vesalings fiskur var að éta og líkja síðan eftir því.  (Margir segja hins vegar að hafi maður náð einum fiski á skrautflugu eigi maður að halda sig við hana!).

 

Hér erum við sem sagt komin út á hinar hálu brautir herfræðinnar.  Tökum dæmi: Ef maður nær einni bleikju í Frostastaðavatni á appelsínugulan nobbler, en fiskurinn er fullur af svartri lirfu ? hvort er þá skynsamlegra: Að halda áfram með nobblerinn eða setja Teal and Black púpu undir?   Skynsamir menn myndu útiloka hvorugt.  Ætli ég myndi ekki taka nokkur köst í viðbót á nobblerinn og skipta svo í lirfur ef ekki gefur?  Held það.

 

Til eru nokkrir meginflokkar flugna sem duga við þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni.  Veiðimaður þarf að eiga eintök í hverjum flokki. Fyrsti flokkur er straumflugur.  Þær veiða reyndar ekki bara í straumi, en megin hugmyndin er sú að líkja eftir smáfiski sem stærri fiskar éta. Augljóst dæmi er Black Ghost, sem er lík björtu síli.  Annað dæmi er Flæðarmús, sem veiðir vel en líkist engum smáfiski sem við þekkjum. Black Ghost er sem sagt eftirlíking, Flæðarmúsin skrautfluga.  Þennan flokk flugna notum við þegar vænta má að silungar vilji smáfiska, en það er ekki nærri alltaf. 

 

Þá fara menn yfir í næsta flokk sem er votflugur.   Dæmi er Black Zulu.  Þetta eru flugur sem veiddar eru undir yfirborði vatnsins, hvort heldur í straumi eða stöðuvatni.  Þær eru á stærð við skordýrin sem fiskarnir þekkja, sumar líkja eftir þeim, en aðrar eru bara eins og jólatré úr öðru sólkerfi.  Þær eiga þó flestar sameiginlegt að hafa væng af einhverju tagi og minna þar með á flugur náttúrunnar með lagi sínu. 

 

Þriðji flokkurinn er svo undirdeild í votflugnaflokki og er púpu- og lirfueftirlíkingar.  Frægust er líklega Peacock, en nefna má Pheasant tail og Héraeyra.  Skipta þessar flugur tugum þúsunda um allan heim.  Hvers vegna svona margar?  Vegna þess að þær eiga að líkja eftir hinum ýmsu þroskastigum hinnar fjölbreyttu skordýrafánu.  

 

Á Íslandi eru tiltölulega fá skordýr á matseðli fiska, en þau hafa samt mörg afbrigði að lögum og lit, nóg til að gera mann vitlausan. Þess vegna freistast margir til að stytta sér leið og nota skraut-afbrigði af púpu, sem ekki líkist neinu skordýri, en hefur sannað sig í veiði samt.  Nefna má gylltar púpur með glitþráðum sem margir nota.  Um allar votflugur gildir að velja þarf dýptina sem þær veiða á.  Stundum þarf að koma þeim niður að botni, öðrum stundum dugar ekkert nema láta þær silast inn rétt í yfirborðinu.  Í straumvatni getur þetta verið ennþá erfiðara vegna þess að fiskarnir velja sér legustaði sem erfitt er að finna.

 

Er þá komið að lokaflokki silungaflugna, þurrflugum.  Þær ættu reyndar að heita yfirborðsflugur, því þær liggja í vatnsfilmunni og lokka fiskinn upp til töku.  Lang flestar þessara flugna eru mismunandi góðar eftirlíkingar af raunverulegum skordýrum.  Þó má ég til með að nefna til dæmis Royal Wulff sem líkist ekki neinu dýri á Íslandi, en veiðir vel. Og Maurinn.  Íslensk náttúra býður fiskum ekki upp á maura að neinu marki, en samt veiða mauraeftirlíkingar vel.

 

Þessir fjórir meginflokkar eiga sér stundum undirdeildir.  Tökum dæmi af púpum og lirfum.  Megindeild innan þess flokks eru kúluhausar, sem hafa allt aðra eiginleika en púpur án kúlu.  Er þá ógetið um stærðina.  Því hver fluga þarf að vera til í nokkrum stærðum.

 

Einfalt kerfi

 

Við skulum leggjast í smá reikning til að finna út úr því hve margar flugur silungsveiðimaður þarf að hafa í boxi sínu.

 

Hann þarf að hafa flugur í öllum fjórum meginflokkum.  Innan hvers flokks þarf veiðimaður  þarf að hafa eftirlíkingar og skrautflugur.   Það gera 4 flokkar x2 deildir, eða 8 undirflokka.

Innan hvers undirflokks þarf hann að hafa að jafnaði 5 mismunandi stærðir af hverri flugu. 

Við erum komin í 5 stærðir x 8 undirflokkum, eða fjörutíu flugur.

Og þá erum við bara komin með eina flugu í fimm stærðum í hverri deild!

 

Það dugar ekki.  Svo við rannsökum málið frekar.  Hvað þurfum við margar flugur í hverjum undirflokki?

 

 

Grunnsafn silungsveiðimannsins  (sjá einnig töflur)

 

Reynum því að velja grunnsafn silungsveiðimannsins.

 

1)      Straumflugur:

 

Eftirlíkingar af hornsílum eða sandsílum:

 

Black Ghost x 5.

Mickey Finn x 5.

Hólmfríður x 5  (hornsílislíki).

Hvítur nobbler x 5 (líkist björtu síli).

 

Skautflugur:

 

Svartur nobbler x 5

Appelsíngulur nobbler x 5

Flæðarmús x 5

 

Hér eru sem sagt 35 straumflugur í mismunandi litum og stærðum.

 

 

2) Votflugur

 

a)      Með væng, mismunandi sterkar eftirlíkingar:

Black Gnat x 5

Alder x 5

Black Zulu x 5

Teal and Black x 5

 

b)      Skrautflugur með væng:

Peter Ross x 5

Teal and Blue x 5

Alexandra x 5

 

Alls gera þetta 35 votflugur með væng.

 

Votflugur, púpur og lirfur.

 

a)      Með kúluhaus:

Pheasant tail x 5

Peacock x 5

Héraeyra x 5

Teal and Black afbrigði x 5

Blóðormur x 5

 

b)      Án kúluhauss

 

Pheasant tail x 5

Peacock x 5

Héraeyra x 5

Teal and Black afbrigði x 5

Blóðormur, afbrigði x 5

Killer x 5

 

Hér erum við sem sagt komin með 55 púpur og lirfur.

 

3) Þurrflugur

 

Black Gnat x 5

Moskító x 5

Evrópa x 5

CDC brún/grá x 5

Royal Wulff x 5

Caddis x 5

 

Alls gera þetta 30 þurrflugur.   Hér er nauðsynlegt að eiga úrval stærða af hverri flugu, það er ekki alveg jafn mikilvægt í straumflugna- og votflugnaflokkum, en samt verða menn að átta sig á því að stundum skiptir smæðin öllu máli.

 

Hvað þarf mikið af flugum?

 

Þetta grunnsafn gerir því samtals 155 flugur og er maður þokkalega klár í slaginn.  Eða hvað?  Nei ekki aldeilis.  Því hér er aðeins gert ráð fyrir einu eintaki af hverri flugu í fimm stærðum.  Það myndi heita á bankamáli að maður væri óverjandi ,,expósed?.  Berskjalda.  Þarf maður ekki tvö,jafnvel þrjú eintök í hverri stærð?   Það gera það 465 flugur!

 

Og svo má bæta við.  Flestum þætti ansi klént að fara í veiðitúr með aðeins 7 mismunandi straumflugur.  Hér vantar bleikan nobbler, Rektor, Gray Ghost, Wooly worm, eina svarta meða Marabúavæng og svo Dentist.  Hamingjan sanna!  Ætlar maðurinn í veiðitúr án Dentist?   Nei, það má hægleg tvöfalda listann í öllum flokkum.  Hér vantar til dæmis í púpuflokk nauðsynlegar flugur eins og Krókinn, Mýsluna, Beyki og Kolbein. 

 

Þetta er snúið dæmi.  Grunnsafn er 31 fluga, í fimm stærðum, alls 155.  Við þurfum þrjú eintök af hverri flugu í hverri stærð, þá eru komnar 465 flugur alls.

 

Og þá held ég að vanti nú samt ansi mörg leynivopn og aðrar góðar humyndir sem saman geta hæglega tvöfaldað skammtinn.  Kannski þurfum við nú ekki allar flugur í fimm stærðum, en við þurfum flugnabox sem tekur að minnsta kosti vel á annað þúsund flugur.  Og erum þá rétt að byrja!  Þess vegna fer maður allaf með hnýtingadótið með í bílnum í alla helstu túra.  Það er nefnilega aldrei að vita.  Eitt sinn bjargaði ég veiðitúr á veraldarenda með því að hnýta nákvæmlega marflóna sem bleikjan vildi ? og ekkert annað.  Þúsund flugna boxið dugði bara ekki. 

 

 

Hvað er þá til ráða?

 

Þetta er vissulega dálítið yfirþyrmandi fyrir fólk.  En það erhægt að fara fjallabaksleið.  Ef ég má gefa eitt ráð í lokinn fyrir þá sem telja sig þurfa markvissara val miðað við þá veiði sem ætlunin er að fara í, þá er  það eitt: Fara á flugur.is og skoða sig vandlega um. 

 

Í nútíma viðskiptum reyna menn að velja markhópa og beinskeytt skilaboð á hvern og einn.  Ef markhópurinn er með búsetu í Elliðavatni þarf ekki allar flugur heimsins.  Því er hægt að skera verulega niður.  Ef markhópurinn býr í Þingvallavatni, Veiðivötnum eða Brúará má enn velja markvisst fyrir hvern stað.  Það er hérna sem sérfræðiþekking kemur að notum.  

 

Auðvitað endar maður með að eiga allt heila galleríið og meira til.  En það er óþarfi að eignast það allt í einu.  Þekktu andstæðinginn og veldu samkvæmt því.  Þess vegna eru flugur.is, svo menn geti leitað í stærsta gagnabanka landsins um fluguveiðar og valið þá einu réttu! Sem sagt: Það þarf ekki nema eina flugu.  Fluguna sem 'ann tekur.

Endurbirt grein eftir SJH

 

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði