Á Vitaðsgjafa í landi Nesjarða var gamall laxadráttur. Bæði þar og víða annarsstaðar var tilgangslítið fyrir aðra en staðkunnuga að reyna fyrirdrátt. Lax liggur oftast þar, sem grjót og klappir eru í árbotninum. Botninn verða veiðimenn að þekkja hvort heldur veitt er með neti eða stöng.
Það var góður silungadráttur úr landi frá bátalæginu norður að enda Vitaðsgjafa. Þar fékkst oft talsvert af bleikju þegar hlýtt var í veðri. Fyrirdráttur var stundaður í Laxá framundir 1936. Mig minnir að sú veiðiaðferð hafi lagst af í Nesi 1935.
Eg man aðeins eftir laxadrætti. Oftast var farið á kvöldin að loknu dagsverki. Laxanetin voru heimagerð og lituð brún með soði af trjáberki. Gjarnan notuð Viðja. Netin voru ekki meira en 5-6 metrar að lengd og langar taugar í báðum endum. Flotholt úr tré voru á efri teininum En sökkur úr stórgripabeinum eða steinar saumaðir innaní striga á neðri teini.
Aldrei man eg eftir meiri veiði en 3-4 löxum eftir kvöldið. En vafalaust hefur það verið misjafnt og ekki fékk eg alltaf að fara með.
Flestir hólmar og eyjar í Laxá voru nýtt til heyskapar meðan slegið var með orfi og ljá. Þá var mikið andavarp í eyjunum. Þegar hætt var að slá eyjarnar lagðist varpið af. Fuglum líkar ekki við sinuna og verpa fremur þar sem hún er ekki til staðar.
Í Hvammsheiði austanvið Geithelliseyjuna er stór klöpp skammt norðanvið Geithellana. Hún gengur aðeins fram í Daufhylinn og þarf að vaða framfyrir hana vilji menn ferðast eftir bakkanum.
En það er líka annar kostur. Göt eru í gegnum klöppina niður við jörð bæði að sunnan og norðanverðu. Þau eru nægilega stór til þess að hægt er með góðu móti að skríða í gegnum klöppina. Inni í henni er dálítill hellir það hár að standa má uppréttur inni í honum. Klöppin er há og þverhnýpt að sunnanverðu. Þar verpa oft hrafnar. Þessvegna heitir hún Krummaklöpp. Hún er merkileg náttúrusmíð og þessi staður vel þess virði að taka tíma í að skoða hann.
Eitt sinn í barnæsku fékk eg að fara með föður mínum og tveim vinnumönnum hans í eggjaleit austur í Neseyjar. Þá bjó í Austurhaga einsetumaður, sem hét Benedikt Guðjónsson. Hann var nokkuð við aldur. Móðir mín sendi með okkur einhvern smá glaðning handa Bensa og við ætluðum að færa honum fáein andaegg.
Þennan dag hafði dáið stálpað unglamb. Skinnið var tekið af því en okkur datt í hug að færa krumma lambið ef hann vildi borða það.
Austur móinn niður að Horni lá ógreiðfær slóð fyrir hestakerrur. Samt var skárra að ganga hana heldur en karga-þýfðan móinn. Við gengum niður á Hornið og fórum á bátnum yfir í eyjarnar. Það gekk vel að ganga varpið og fengust tvær fullar vatnsfötur af eggjum.
Hrafninn sat á hreiðurlaup sínum í Krummaklöpp og söng með miklum tilþrifum. Við fórum á bátnum yfir að Krummaklöpp og lögðum lambshræið á bakkann. Síðan var róið suður að Austurhaga. Við gengum heim að bænum og kvöddum dyra. Eftir drykklanga stund Kom Bensi fram kátur og hress að vanda. Hann bauð kaffi, en við afþökkuðum það. Hann tók glaðlega á móti eggjum og einhverju smádóti, sem við færðum honum. Svo kvaddi hann og hvarf inn í litla torfbæinn. Það er minnsti torfbær, sem eg hef séð-en vel byggður. Við héldum heimleiðis og gekk vel en yngsti ferðalangurinn var orðinn dálítið þreyttur.
Morguninn eftir þegar fólk kom á fætur, lá lambsskrokkurinn á hlaðinu skammt frá bæjardyrum! Krummi hafði ekki snert kjötið. Enn í dag er það ráðgáta hversvegna hrafninn þáði ekki lambið. Og hvernig gat hann vitað hvaðan það var komið? Og hversvegna var hann að skila lambinu í stað þess að láta það liggja á bakkanum? Við því fást aldrei svör.
Enginn vissi um ferðir okkar nema Bensi en hann vissi ekki að við færðum krumma lambið. Það er útilokað að menn hafi komið með lambið, því bátur var enginn við ána nema Nesmegin og hann var á hvolfi uppi á landi.
Norðanvið Vitaðsgjafa tekur við djúpur og fremur straumlítill kafli sem heitir Langhylur. Þar er gamall silungadráttur en sjaldan liggur þar lax. Þetta svæði nær frá enda Vitaðsgjafa niður á móts við staka klöpp í heiðinni. Spölkorn frá norðurenda ytri eyjarinnar er grænn, sléttur bakki vestan á eyjunni á milli tveggja stórra Viðju-brúska. Fram af græna bakkanum er lítil flúð. Þar byrjar veiðistaður, sem heitir einu nafni Skerflúðir. Nafnið dregið af því að skammt fyrir norðan Ytri eyju er kringlótt sker, sem heitir Áltftasker.
Veiða má hluta Skerflúða þannig að vaða meðfram Ytri eyju frá grasbakkanum niður í Álftasker. Einnig má vaða út undir miðja ána frá græna bakkanum í Ytri eyju. Þannig má veiða mikinn hluta Skerflúða bæði til austurs og vesturs. Kunnugir menn geta svo vaðið til lands að vestan, neðan Skerflúða. Fái veiðimaður lax á þessum vaðli, verður leiðsögumaðurinn að taka laxinn með háf upp í bátinn. Dýpi er það mikið að erfitt er að komast uppí bátinn aftur ef menn fara niður í ána til að landa laxinum.
Flestir veiða Skerflúðir af bát. Fyrir ókunnuga er best að halda bátnum því sem næst í miðri ánni og veiða til beggja hliða. Alltaf þarf að byrja á stuttum köstum og smá lengja. Ekki má berja of lengi með sömu flugu ef ekkert verður vart við lax. Þegar báturinn er færður, er gott að færa hann aðeins vesturfyrir miðju- og í næstu færu aðeins austurfyrir miðju.
Milli Álftaskers og Ytri eyjar er dálítill rauður blettur í miðri ánni. Þar er altaf lax. Einnig á öðrum veiðistöðum þar, sem sjást hvítir-eða rauðir blettir í botni. Þar er lax aldrei langt undan. Þessu mega menn treysta.
Það er mjög mikilvægt að hanga ekki lengi á neinum stað ef ekki verður vart við lax. Best að fara létt yfir veiðistaðinn og koma heldur aftur seinna. Þegar barið er of lengi á sama stað, færir laxinn sig undan. Þá er ekki auðvelt að finna hann aftur. Þetta er mikilvægasta atriði ef menn vilja fá veiði í stað þess að spilla henni bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Gleymið þessu aldrei.
Eitt sinn var erlendur veiðimaður á Skerflúðum seinnipart dags. Veður var gott, næstum logn og gætti sólar annað slagið. Slýrek var svo mikið að erfitt reyndist að finna hreinan blett til að koma flugunni niður. Samt tókst það annað slagið.
Veiðimaðurinn reyndi ótal margar flugur án árangurs. Seinast fann hann litla Silver Gray einkrækju. Eins og mörgum er kunnugt er sú fluga hönnuð af snillingnum James Wright nálægt 1850. Hann var mjög frægur fluguhnýtari og fékk mörg verðlaun fyrir flugurnar sínar.
Þegar veiðimaðurinn hafði kastað nokkrum sinnum kom stór boði á eftir flugunni. Laxinn náði að grípa hana og veiðimaðurinn lyfti stönginni. Laxinn tók á rás í átt að slýbakkanum vestur við landgrunnið. Leiðsögumaðurinn sneri bátnum og reri hratt niður ána. Eina ráðið við svona kringumstæður að fara með laxinn undan straumi og reyna að finna löndunarstað þar sem slýrek er minna. Mikið slý var komið bæði á laxinn og línuna og laxinn fylgdi auðsveipur eftir bátnum niður Presthyl og niðurfyrir Sauðatanga. Seinna verður sagt betrur frá þeim stöðum.
Laxinn var kominn í lygnara vatn þó þarna væri mikið slý var minni hreyfing á því. Laxinn kom auðveldlega upp að bakka. Stór slýdræsa eins og ullarreyfi var framanvið höfuðið á fiskinum og utanum það svo hann sá ekkert frá sér. Þeir náðu laxinum í háfinn og hann mátti heita óþreyttur. Hann vóg 19 pund. Þetta var hrygna og hún varð frelsinu fegin. Veiðimaðurinn var í sjöunda himni því ekki eru allir laxar í hendi, sem taka við svona aðstæður. Og reyndar sjaldgæft að þeir taki.
Pétur Steingrímsson