2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
14.8.2020

Flugur Júlla í Veiðikofanum - endurbirt efni

 

Júlli í Flugukofanum með laglegan lax í Bjarnasteinum í Vatnsdalsá.

Í Njarðvík er rekin ein minnsta veiðibúð landsins en kannski um leið ein sú stærsta ef horft er til annars en fermetranna. Þar ræður hjartað för, samveran, spjallið, kaffisopinn og hnýtingarnar. Þetta er búð fluguhnýtarans og minnir um margt á Litlu fluguna eða Ármót, heimilislegar smáverslanir sem nú eru því miður minningin ein.


Í Flugukofanum, en svo heitir búðin, ræður Júlíus Gunnlaugsson ríkjum. Hann rekur verslunina af ástríðu, segir að þetta sé miklu fremur hobbí en bissness. Yfirleitt er bara opið á kvöldin, menn reka inn nefið, segja sögur, hnýta jafnvel flugu og ná sér í gott efni til hnýtinga.

"Ég hef verið með veiðidellu og hnýtt flugur í fjöldamörg ár og svo var það um jólin 2008 að ég ákvað að setja upp litla hnýtingaverslun hérna heima í skúrnum og byrjaði að selja tvinna, fjaðrir og fleira. Viðtökurnar voru framar björtustu vonum þannig að ég varð að bæta við vörum hægt og bítandi til að anna eftirspurn. Það var augljóslega þörf fyrir svona afdrep og búð hér á svæðinu, enda hefur það komið mér á óvart hvað það eru margir góðir hnýtarar hérna á Suðurnesjum og góðir veiðimenn. Þetta er fólk sem maður vissi ekki af eða þekkti ekki fyrr en það fór að venja komur sínar til mín í Flugukofann."


Silungapúpan Rán eftir Júlla. Hún ber nafn Oddfellow-klúbbs norður á Akureyri!

Júlli segir mér að búðinni hafi oft verið líkt við Litlu fluguna hans KK og aðrar slíkar búðir sem voru og hétu. Þarna sé þröngt um gestina en þægilegt andrúmsloft og hægt að gramsa í alls konar dóti. En hann er sjálfur mikill hnýtari eða hvað?

"Jú, ég er sífellt með hugann við þetta. Það kemur fyrir að ég vakna upp á nóttunni með flugu í höfðinu. Þá verð ég að brölta fram og setjast við væsinn til að láta hana líta dagsins ljós. Það er endalaust hægt að setja eitthvað saman, möguleikarnir eru óþrjótandi í fluguhnýtingum. Nýlega hannaði ég sjóbirtingsflugu sem kölluð er Glíma og á örugglega eftir að sanna sig og líka púpu sem heitir Rán og ég bind miklar vonir við. Ég hef tekið að mér upp á síðkastið að hanna flugur fyrir einstaklinga og félög og það er mjög gefandi og skemmtilegt."


Garðarshólmi í allri sinni dýrð.

En frægasta flugan þín hlýtur samt sem áður að vera hinn skæði Garðarshólmi?

"Jú, ætli það ekki? Það bera henni að minnsta kosti margir vel söguna. Hún varð til í fyrra og var hnýtt sérstaklega fyrir Sigurð Garðarsson sem er með mér í árlegum Vatnsdalsártúr. Segja má að Garðarshólmi hafi strax slegið í gegn og ég hafði ekki undan að hnýta hana fyrir hina og þessa veiðimenn allt síðasta sumar. Núna á ég hins vegar orðið þokkalega góðan lager af henni og er líka kominn með fleiri afbrigði; græna, rauða, svarta, gull og silfur."


Litaafbrigðin af Garðarshólma.

En veiðin? Eitthvað hlýturðu sjálfur að veiða? spyr Flugufréttamaður út í bláinn.

"Ég veiði stóran hluta af sumrinu og er með hugann við þetta allan ársins hring. Snemmsumars byrja ég í silungnum og finnst frábært að veiða silung í litlum ám með léttar græjur, púpur og þurrflugur. Þegar líður á sumarið bætist laxinn síðan við og að öllum öðrum ám ólöstuðum þá er Vatnsdalsá stóra perlan, mitt uppáhald. Yfir veturinn er ég á bökkum hennar í draumum mínum og þegar ég hnýti laxaflugur þá er ég oft með Vatnsdalsá í huga."


Júlli með hrikalegan urriða úr Minnivallalæk snemmsumars. Þessi var á að giska 12 pund en var orðinn gamall og dálítið hrumur, hefur verið talsvert þyngri þegar hann var upp á sitt besta.

-rhr

 Endurbirt efni frá Ragnari Hólm

12.11.2020

Stelpur veiða laxa

16.10.2020

Tímavélin

20.8.2020

Klinkhammer

17.8.2020

Helgarfréttir

15.8.2020

Tungsten örtúbur

10.8.2020

Fiskifréttir

4.8.2020

Viðtal við KK

24.7.2020

Laxveiði vikan

22.7.2020

Flugan Friggi

18.7.2020

Flugufréttir

26.6.2020

Veiðimynd dagsins

23.6.2020

Mundu veltikastið

21.6.2020

Flottar opnanir

17.6.2020

Veitt og sleppt

16.6.2020

Laxa opnanir

10.6.2020

Laxafréttir

19.5.2020

Sagan um Krókinn

6.5.2020

Dagur í Kjós

3.5.2020

Nýja Sjáland

28.4.2020

Norðan fréttir

24.3.2020

Vika í veiði