Snemma fór eg að rjála við fluguhnýtingar, þó fyrsta laxinn fengi eg ekki fyrr en níu ára gamall. Erfitt var þá að fá laxaflugur-en önglar fengust í Kaupfélagi Þingeyinga þó úrvalið væri takmarkað. Að sjálfsögðu átti eg hvorki efni né áhöld. Notaði fjaðrir úr íslenskum hænsnum og ýmsum villtum fuglum,sem flogið höfðu á girðingar. Hár var lítið notað fyrr en eftir 1940.
Engan þráð var að fá nema venjulegan tvinna, sem konur notuðu við fatasaum. Bolefnið var annaðhvort úr lituðu útsaumsgarni eða ullargarni lituðu eða í sauðalitum. Allar fluguhnýtingar varð að framkvæma með höndunum einum. Aldrei hnýtti eg þá flugur fyrir aðra og enginn fékk að sjá né reyna framleiðsluna enda var hún ekki merkileg á þeim tíma.
Seinna fékk eg stundum enskar eða skoskar laxaflugur og fór þá að reyna að líkja eftir þeim. Svo náði eg einhversstaðar í enskan verðlista yfir fluguhnýtingaefni og áhöld. Eftir það pantaði eg fluguefni og áhöld frá Englandi-og síðar frá Danmörku og Ameríku. Þá vaknaði fyrir alvöru áhuginn fyrir fluguhnýtingum. Það opnaðist nýr heimur og vitund um hversu yfirgrips mikil sérgrein fluguhnýtingar eru. Þá fór eg að kaupa bækur um fluguhnýtingar og hef enn í dag sérstakt uppáhald á bókinni HOW TO DRESS SALMONFLIES eftir snillinginn T:E: Pryce Tannatt. Ennþá á eg til efni í flestar gömlu sígildu laxaflugurnar.
Núorðið er mikið af því efni ófáanlegt vegna þess að fuglarnir eru annaðhvort útdauðir eða á listum yfir dýr í útrýmingar hættu. Það efni er núorðið bannað að nota . Eg nota það aðeins til að hnýta flugur fyrir safnara. Þegar eg hafði náð góðum tökum á fluguhnýtingum fóru annað slagið að skjóta upp kollinum hugmyndir að nýjum flugum.
Sallý - fyrsta flugan.
Fyrsta flugan sem eg hannaði var Sallý. Hún varð til seinnipart sumars. Af tilviljun losnaði veiðisvæði í Neslandi þennan dag og eg fékk að fara í Grástraum um kvöldið í stilltu og sólarlitlu veðri.
Sallý var sett undir. Tvíkrækja númer 6. Eina flugan, sem þá var til af henni. Ekki man eg lengur hver veiðifélaginn var-en hann vildi endilega fá að vera í Grástraum efri. Það var auðsótt mál, því Grástraumur neðri er einn af þrem uppáhalds veiðstöðum mínum á þeim svæðum sem Veiðihúsið í Árnesi hefir til umráða.
Skriðuflúðin er í fyrsta sæti og Grástraumur neðri í öðru-og Núpabreiðan í þriðja sæti. Af þessu má sjá að veiðimenn kjósa ekki endilega þau svæði sem gefa mesta veiði. Að sjálfsögðu er dásamlegt að veiða á öllum svæðum, þó hver veiðimaður eigi einhverja uppáhalds staði.
Eg byrjaði í neðri Gástraum skammt neðanvið hólinn-og veiddi fyrst landgrunnið niður að hrófi. Fljótlega tók lax. Það reyndist 12 punda hrygna og viðureignin var ekki löng. Hrygnan fékk að lifa og veiðimaðurinn hvíldi sig um stund. Síðan var haldið áfram að kasta. Á leiðinni niður að hrófi komu tveir stórir urriðar og þeim var ekki sleppt.
Næst var að vaða lengra út frá bakka og veiða neðri hluta svæðisins. Þar hefur hver veiðimaður sín kennileiti á bakkanum hinummegin. Einnig í brekkum og brúnum Hvammsheiðar. Eftir skamma stund tók annar lax fluguna. Það tók tuttugu mínútur að ná honum. Það var 19 punda hrygna. Hún fékk að lifa áfram og var frelsinu fegin.
Ekki gerðist fleira sögulegt í þessari veiðiferð. Veiðimaðurinn hélt ánægður heim með tvo urriða -og eina bleikju, sem soðin var til kvöldverðar. Veiðifélaginn fékk einn vænan urriða í Grástraum efri.
Flugan Sallý hefur alla tíð verið veiðin---og hentar vel við flestar aðstæður.
Pétur Steingrímsson