Í púpudeildinni hef ég aðallega verið að hnýta litla og granna buzzera til að veiða á dauðareki eða sem dropper á þyngri flugur. Ég nota gjarnan öngla í léttari kantinum fyrir þessar flugur t.d. Kamazan B400 og hef verið að halda mig í stærðum 14 og 16 aðallega. Ég sendi þér myndir af nokkrum buzzerum í þessum dúr.
Ég er reyndar mikið meiri straumflugumaður og hef undanfarið verið að hnýta Wooly buggera/Nobblera með stórum plastaugum og UV resin haus.
Svo er ég líka hrifinn af því að nota laxatvíkrækjur með vaskakeðjuaugum og læt fylgja myndir af nokkrum litasamsetningum í þeim stíl sem ég hnýtti sérstaklega til að nota í Veiðivötnum:
Að lokum læt ég fylgja með mynd af Bunny Clouser en það er fluga sem ég rakst á í vetur á netinu og er búinn að hnýta í mörgum litbrigðum. Hún er hálfgerður blendingur af zonker og ketti og gæti útlagst á íslensku "Kanínuköttur". Einföld og skemmtileg fluga að hnýta.
Þetta er allavega eitthvað af því sem ég hef verið að gera í vetur en nú er maður fyrst almennilega að komast í gang og aldrei að vita nema eitthvað nýtt eigi eftir að skjóta upp kollinum hjá manni.
Bestu kveðjur
Sigurður Kristjánsson