2024 - 2023 - 2022 - 2021 - 2020 - 2019 - 2018 - 2017 - 2016 - 2015 - 2014 - 2013 - 2012 - 2011 - 2010 - 2009 - 2008 - 2007
9.1.2021

Frostastaðavatn í Veiðikortið 2021

Veiðikortið hefur samið við Veiðifélag Landmannaafréttar um að Frostastaðavatn að Fjallabaki verði með í Veiðikortinu 2021. Frostastaðavatn er stærst vatnanna í vatnaklasanum sunnan Tungnaár. Um er að ræða frábært veiðivatn sem geymir óvenju mikið af silungi. Mest er þó af smábleikju en inn á milli eru vænir fiskar. Vatnið er því eins og sérhannað fyrir þá sem vilja fara með unga veiðimenn með mjög mikla veiðivon.

Góð ferðaþjónusta er í boði á hálendinu og geta veiðimenn og fjölskyldufólk pantað gistingu hjá ferðaþjónustunni Hellismenn (landmannahellir.is) sem og í Áfangagili (afangagil.is). Einnig geta veiðimenn keypt veiðileyfi í önnur veiðivötn á svæðinu, þar sem fjölmörg góð veiðivötn eru á svæðinu en Veiðikortið gildir aðeins í Frostastaðavatn. Veiðileyfi fást í Landmannahelli. Við mælum með að veiðimenn panti gistingu með góðum fyrirvara. Til að komast að vatninu er nauðsynlegt að vera á jeppa eða amk fjórhjóladrifnum jeppling þar sem það þarf að fara yfir 2 lítil vöð. Nánari upplýsingar eru inn á www.veidikortid.is