Það er leiðinlegt að vera veiðimaður.
Það er núna sem veiðimenn eiga að gera búnaðinn kláran fyrir vertíðina. Yfirfara vöðlur. Leka þær? Fara þá með þær í viðgerð núna.
Flugur. Það þarf að fara gegnum öll boxin, líka þetta sem þú notaðir í síðasta veiðitúrnum í fyrra og gleymdir að þurrka flugurnar sem nú eru kolryðgaðar í vestisvasanum.
Línur. Eitt það leiðinlegasta er að fara yfir línurnar. Núna er einmitt rétti tíminn til að draga þær út af hjólunum, renna yfir með rökum klúti og bóna. Hundleiðinlegt.
Taumar. Á hinum enda línunnar eru margir með lykkju sem þeir nota til að tengja við tauminn. Þetta þarf að athuga. Því miður.
Stöng. Opnaðu stangarhólkinn og sjáðu hvort hann er ekki myglaður eftir síðasta veiðitúr og búinn að smita korkinn á stönginni með ógeðslegum fnyk og fúa. Þetta er alltaf spennandi vorverk.
En þetta er ekkert. Verstur er bölvaður aðgerðarkvíðinn.